Föstudagur, 30. mars 2007
Lágmarks lágtækniþjónusta á hátæknisjúkrahúsi
Af einhverjum ástæðum hefur umræðan í þjóðfélaginu um byggingu á nýju húsnæði fyrir Landspítala Háskólasjúkrahús farið í undarlegan farveg. Iðulega er orðið hátæknisjúkrahús notað þegar málið er rætt og í framhaldi af því hefur umræðan þróast í að fjalla um hvort þjóðin þurfi yfir höfuð meiri hátæknilækningar, hvort ekki sé betra að verja fjármunum í að bæta grunnþjónustu. Málið snýst hins vegar ekki um það.
Margt af þeirri þjónustu við sjúklinga sem fram fer á LSH byggir vissulega á háþróaðri tækni. Til að hátæknileg læknisfræði skili árangri þarf hins vegar að skapa sjúklingnum tækifæri til að ná heilsu aftur með því að tryggja svefnfrið á næturna, næringarríkan mat og vandaða umönnun.
Háþróuð læknisfræði er einnig stunduð víða utan veggja LSH. Umræðan um hvort hún sé æskileg eða hvort leggja skuli áherslu á grunnþjónustu er áhugaverð, en hún á ekkert erindi inn í umræðuna um byggingu nýs húsnæðis fyrir starfsemi LSH. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að tryggja rekstur hjúkrunarheimila, heimahlynningar og heilsugæslu, en það á ekki að þurfa að koma í veg fyrir að staðið sé þolanlega að því að sinna slösuðum og bráðveikum.
Mér vitanlega stendur ekki til að bæta við nokkurri nýrri hátækniþjónustu í hinni nýju byggingu, hins vegar á að stórbæta aðstöðu sjúklinga og aðstandenda. Útrýma á gangainnlögnum og koma á þeirri sjálfsögðu reglu að veikir enstaklingar vistist á einbýli. Til stendur að fjárfesta í byggingu sem mun gera kleift að færa alla starfsemina á einn stað, en með því verður hægt að auka verulega hagkvæmni í rekstri sjúkrahússins og spara stórfé til lengri tíma.
Íslenska þjóðin býr almennt í ágætu húsnæði. Þegar Íslendingar ferðast láta þeir ekki bjóða sér að búa á hótelherbergi með þremur ókunnugum, hvað þá að sofa dögum saman í rúmi á gangi hótelsins. Við öll sem búum í þessu landi þurfum hins vegar að liggja á stofu með öðrum sjúklingum eða frammi á gangi ef það á fyrir okkur að liggja að lærbrotna eða fá lungnabólgu. Sjálfur vil ég ekki búa við slíkt ástand.
Má ég biðja þá sem leggjast gegn byggingu á nýju húsnæði fyrir LSH að prófa að reyna að sofa eina nótt á gangi sjúkrahússins. Sjáum hvort þeir skipti um skoðun.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.