Björgum heiminum

headerFyrir nokkru bloggaði ég um ævisögu merks manns, Paul Farmer, sem ég las í vor.  Farmer þessi er læknir sem hefur drifið áfram hjálparstarf í Haítí, fátækasta hluta fátækasta lands vesturheims.  Heimssýn hans sem læknir byggist á staðföstum og einlægum vilja til þess að hjálpa fólki, óháð efnahag og öðrum slíkum þáttum.

Um daginn var að vinna hér á vakt með mér læknanemi að nafni Duffy Casey, eftir nokkuð spjall kom í ljós að hann haði farið í heimsókn á sjúkrahús Farmers í Haítí og að Duffy virtist ætla að feta í fótsporin. 

Saga læknanemans var í stuttu máli eftirfarandi:  Hann var af fremur fátæku fólki kominn þannig að til að reyna að komast í gegnum college vann hann einnig sem húsvörður í skólanum, auk þess sem að vinna á kaffibar flest öll kvöld.  Þar kynnist hann lækni sem dregur hann ásamt þremur vinum sínum í skoðunarferð á læknastofuna.  Í ljós kemur að barnalæknirinn hefur unnið að umfangsmiklu hjálparstarfi víða um heim og m.a. unnið með Paul Farmer á Haíti.  Smám saman þróast hlutirnir þannig að Duffy fer með vinum sínum í heimsókn til Haítí og heillast gjörsamlega af þessum lífsmáta.  Í framhaldinu fer hann til Honduras með barnalækninum og vinnur þar í 9 mánuði.  Því næst er 8 mánuðum varið í að flakka á milli sveitaþorpa í Honduras til að kynna sér aðstæður og meta hvernig sé best hægt að hjálpa þessu örsnauða fólki. 

Eftir það er spýtt í lófana og stofnuð hjálparsamtökin Medical Brigades og sett á stofn heilsugæslustöð í afskekktri sveit í Honduras.  Þar vann hann í nokkur ár við uppbyggingu og drefi sig þá loksins í læknanámið, sem hann lýkur í vor.  Stöðvar Medical Brigades sjá nú um 35.000 sjúklinga á ári og veltan er um 1 milljón USD.  Fjöldamörg háskólasjúkrahús og aðrar stofnanir taka nú þátt í starfi samtakanna og þeir eru nú að fara af stað með sambærileg verkefni í öðrum löndum.

Áhugavert var að heyra hann lýsa því hvernig vinir hans voru allir af ríku fólki - amma eins þeirra ber nafnið Lily, og stofnaði það nú gígantíska lyfjafyrirtæki sem ber sama nafn.  Sem fátæki gaurinn var hann sífellt bitur þar til hann breytti um heimssýn eftir ferðalagið til Haíti og fór að sjá öll tækifærin í lífinu.  Þeir vinirnir fjórir sem barnalæknirinn dró í heimsókn til Haítí eru nú allir í læknanámi og ætla að verja lífinu í hjálparstarf.

Bandaríkin eru óneitanlega land fjölbreytileikans.  Hér er að finna allt það besta og versta í heiminum á eiginlega öllum sviðum, matargerð, kvikmyndum, menntun og hverju sem er.  Almennt held ég að fólk sé verr upplýst og njóti hér minni lífsgæða en almennt gengur í Evrópu, en hér er líka hægt að ná ótrúlega langt, bæði hvað peningalegt ríkidæmi og svo tækifæri til rannsókna og menntunar.

Einstaklingar eins og þessi læknanemi eru amk gott dæmi um góðar hliðar þessa lands sem telur sig amk vera land tækifæranna.  Læknanema eins og Duffy Casey, sem hefur byggt upp umfangsmikla hjálparstarfsemi með læknanáminu, hef ég amk aldrei rekist á heima á Íslandi.

Ef einhver hefur áhuga á að skoða nánar þessa starfsemi og etv taka þátt er hægt að nálgast frekari upplýsingar hér: 

http://medicalbrigades.com/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband