Föstudagur, 21. september 2007
Dr M.
Í þessu stóra landi er mikill munur á milli hinna ólíku fylkja. Veðurfar, fjárhagur, stéttaskipting og margir aðrir þættir eru verulega ólíkir og satta að segja er ég farinn að halda að verri staðirnir geti vart talist byggilegir lengur.
Með mér hér í náminu er lesbísk stelpa, Dr M. Hún er stórskemmtileg og mikið partíljón, býr með sambýliskonu sinni og heilum dýragarði gæludýra. Eitt af því sem hefur markað býsna djúp spor í Dr M er að hún kemur frá Louisiana og fór í gegnum sitt læknanám á góðgerðarspítala í miðju fátæktarhverfi. Eftir þá reynslu virðist hún hreinlega ekki hafa nokkra trú á mannkyninu lengur. Hún á mikið vopnasafn heima við og ég held að það væri ekki skynsamlegt að reyna að brjótast inn hjá þeim.
Í Louisiana er húseigandi reyndar í fullum rétti til að skjóta og drepa einhvern sem ekki vill yfirgefa landareignina, reyndar verður að vara hann við og ekki má skjóta hann í bakið en að öðru leyti þykir það fullkomlega eðlilegt. Hér austurfrá eru heldur meiri hömlur á mannsmorðum.
Á því sjúkrahúsi sem hún starfaði á í Louisiana var þó nokkuð um skotárásir inni á sjúkrahúsinu og árásir á starfsfólk voru ekki óalgengar. Eðlilegt þótti að fá öryggisvörð til að fylgja sér út að bílnum eftir vinnu vegna hættu á árásum og allir virðast hafa haft sífelldan vara á sér.
Hér í vinnunni hjá okkur á austurströndinni er ástandið talsvert skárra. Við sjáum reyndar sjúklinga með skotsár nánast daglega, en deildin er nokkuð örugg og stöðugt vopnaður lögregluþjónn á deildinni. Þó ofbeldi sé sem betur fer sjaldgæft á okkar deild er Dr M samt sífellt á nálum, ef einhver svo mikið sem brýnir aðeins raustina eða vottar fyrir einhverju hættuástandi hleypur hún strax í burtu. Hún myndi aldrei fara neitt gangandi og skilur ekkert í mér að ganga heim úr vinnunni, þó það séu ekki nema um 200 metrar í sallarólegu og vinalegu hverfi.
Sennilega eru það fjöldamargir þættir sem valda því að samfélag verður líkt og Louisiana er miðað við lýsingar Dr M. En ekki hef ég áhuga að að fara þangað, hvað þá búa að slíkum stað
Athugasemdir
Það hljómar eins og hún hafi lært í Shreveport, LA, en þar lærði einmitt vinkona mín. Hún lenti eitt sinn í því að bílinn hennar dó í einhverjum undirgöngum í einu af skítahverfunum og hún hélt í fullri alvöru að hennar síðasta stund væri runnin upp - en svo kom löggi og reddaði málunum.
Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 22.9.2007 kl. 02:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.