Þriðjudagur, 16. október 2007
Pain 10/10
Þegar verið er að meta verki sjúklinga er oft notaður mælikvarðinn 1 til 10. Markmiðið er að 1 eigi að vera óþægindi en 10 eigi að vera versti hugsanlegi verkur - báðir fætur sargaðir af.
Heima á Íslandi er þetta yfirleitt mjög góður mælikvarði, fólk virðist gefa skynsamlega tölu sem samræmist útliti og ástandi einstaklingsins. Hér í BNA er þetta nokkuð ólíkt.
Svo algengt er að fólk gefi upp við komu að verkir séu 10 af 10 mögulegum en situr síðan spjallandi í mestu makindum, að hér erum við eiginlega löngu hætt að taka mark á þessum mælikvarða. Helst er hægt að nota kvarðann til að meta árangur verkjameðferðar, hversu mikið talan lækkar eftir gjöf verkjalyfja.
Erfitt er að átta sig með vissu á því hvað veldur þessu. Einna líklegast finnst mér að lægri þjóðfélagshópar vilji tryggja að einkenni þeirra séu tekin alvarlega með því að gefa upp háa tölu.
Þetta er reyndar nokkuð alvarlegt mál, ef fólk gefur upp meiri verki en það raunverulega er með eykur það líkurnar á að rannsóknir svo sem tölvusneiðmyndir, speglanir og jafnvel skurðaðgerðir eru framkvæmdar að óþörfu, sem allt getur verið skaðlegt.
Athugasemdir
Góð ábending hjá þér !
Ekki það að neitt sé að mér...það er eiginlega nafnið þitt sem heillaði.
Á son sem heitir Hjalti, átti annan með millinafnið Már og á þann þriðja sem heitir Björn.
Ragnheiður , 16.10.2007 kl. 14:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.