Föstudagur, 26. október 2007
MRSA - Superbug!
Hér vestra er allt að verða vitlaust vegna andláts nokkurra krakka úr MRSA-sýkingu. Þessar sýkinga eru af völdum þeirrar bakteríu sem nefnd hefur verið MÓSA á íslensku - methisillín ónæmur Stafýlókokkus aureus og hefur um alla tíð verið ein algengasta orsök húðsýkinga, ekki síst eftir aðgerðir. Eftir mikla og á stundum óskynsamlega notkun sýklalyfja hafa nú komið fram afbrigði bakteríunnar sem bæði eru ónæm fyrir þeim sýklalyfjum sem hingað til hafa verið notuð til að drepa hana og virðist einnig valda skæðari sýkingum.
Þessi þróun hefur átt sér stað hér árum saman en er loksins að komast upp á yfirborðið hér í fjölmiðlum. Eins og venjulega er hins vegar fréttaumfjöllunin í þessu landi að mestu leyti tóm múgæsing og þvæla, lítið sem ekkert er gert til að útskýra fyrir fólki um hvað sé að ræða.
Það hefur hins vegar ekki farið hátt að heima á Íslandi þar hefur verið unnið mjög öflugt starf til að verjast mósanum undir forystu smitsjúkdómalækna. Þrátt fyrir að mósinn sé kominn út um allt hér vestra má heita að hann sé ekki til á Íslandi, ekki einu sinni á sjúkrahúsunum sem öllu jöfnu eru hreiður ónæmra baktería.
Allir sem koma á sjúkrahús á Íslandi eru spurður hvort þeir hafi komið á sjúkrahús erlendis síðustu mánuðina, og ef svo er fara þeir í einangrum þar til búið er að athuga hvort þeir beri bakteríuna sem venjulega tekur tvo daga.
Í ljósi þess að hér vestra voru menn að vakna upp við þann vonda draum að MRSA sýkingar valda nú dauða um 19.000 árlega, fleiri en HIV, þá er það glæsilegur og virðingaverður árangur sem náðst hefur á Íslandi að við séum enn laus við þennan skaðvald. Miðað við stærð landanna mætti búast við að 19 manns létust árlega á Íslandi væri mósi jafn algengur þar og hann er hér í BNA.
Enn eigum við samt sýklalyf sem drepa MRSA, en enginn veit hversu lengi það endist.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.