Miðvikudagur, 17. desember 2008
Hin þrjú markmið neyslunnar
Ég hef verið nokkuð hugsandi yfir neyslumunstri manna nú undanfarið. Í raun er ég farinn að hallast að því að neyslu fólks og hegðun sé með nokkurri einföldun hægt að skipa í þrennt eftir markmiðum.
Frumstæðar nýríkar þjóðir, líkt og Bandaríkjamenn og Íslendingar, reyna sífellt að hámarka neysluna. Magnið er markmiðið. Bíllinn/matarskammturinn/sjónvarpið/húsið - því stærra því betra.
Hjá rótgrónum menningarþjóðum, líkt og hjá Dönum, Frökkum og Japönum, snýst allt um gæðin en ekki magnið. Til dæmis eru matarskammtar í Frakklandi og Japan eru frægir fyrir að vera litlir, en öll áhersla lögð á að hafa útlit og bragð fullkomið. Japanskir garðar geta verið örlitlir, en fullkomnir í fegurð sem er afrakstur áratuga natni og mikillar vinnu.
Nú virðist vera komin fram ný manngerð sem leggur áherslu allt annað hvað neysluna varðar. Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og það er ekkert sem réttlætir að ríkur einstaklingur noti meira af þeim en fátækur. Í hagkerfi náttúrunnar gilda ekki peningar og þó einhver eigi milljarða af krónum réttlætir það ekki að verja þeim öllum í mengandi athafnir.
Hinn nýi maður leggur sig fram um að valda með lífi sínu sem minnstu umhverfistjóni. Markmiðið er að nota eingöngu endurnýjanlegar auðlindir þannig að varanlegt jafnvægi náttúrunnar raskist ekki.
Það besta við að gerast umhverfissinni nú á krepputímum er að sá lífsstíll sparar óhemju fé. Með því að slökkva ljósin, keyra og fljúga minna, endurnýta frekar en henda og kaupa nýtt sparast peningur.
Sem dæmi um þetta má nefna að tvisvar hef ég flutt inn í íbúðir þar sem orkureikningar byggðust fyrsta árið á áætlun miðað við notkun fyrri eigenda. Í fyrra skiptið var ég reyndar lítið heima við á því ári, en þá fékk ég endurgreiddar frá orkuveitunni 70.000 kr, í síðara skiptið var endurgreiðslan 30.000 þegar loksins var lesið af mælunum. Ef það sama er gert með föt, matvæli og raftæki verða heildarfjárhæðirnar miklar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.