Mengaðir þjóðgarðar

Hjá heimsmeisturum í rányrkju á auðlindum jarðarinnar hafa menn þó alltaf getað verið stoltir af þjóðgörðunum.  Það mega bandaríkjamenn eiga, að þjóðgarðafyrirbærið var fundið upp hér og eftir að hafa heimsótt nokkra þeirra get ég vottað að þeir eru einstaklega vel skipulagðir og reknir.  Líklega hefur það getað friðað samvisku einhvers yfir mengun að hið minnsta séu þjóðgarðarnir hreinir.

Nú var hins vegar verið að mæla mengunina í nokkrum af merkilegustu og afskektustu þjóðgörðum Bandaríkjanna og niðurstöðurnar eru vægast sagt skuggalegar.  Magn þungmálma, PCB, DDT og annarra skaðlegra efna var víða langt yfir því sem er talið hæft til manneldis og þetta hlýtur að verða tekið þetta alvarlega.  Ef náttúran á allra hreinustu og afskektustu svæðum landins er óhæf til manneldis hlýtur að vera komið vel á veg með að gera landið allt óbyggilegt. 

Fróðlegt er að sjá að menn telja þessa mengun aðallega vera til komna frá Asíu og Evrópu.  Alla leið til Kaliforníu.  Það er liklega ekki hægt að útiloka að eitthvað geti borist með háloftum yfir úthöfin, en þetta er samt aðeins langsótt  að kenna öðrum um eigin sora.  En, jafn vel þó svo væri, þá má væntanlega búast við því að mengun frá Bandaríkjunum sé einnig að dreifast til Asíu og Evrópu, enda er það ein af stóru misskilningunum um umhverfismál að mengun sé staðbundin. 

Þetta er allt athyglivert, ekki síst fyrir Íslendinga sem sjálfir hafa alltaf staðið í þeirri meiningu að umhverfismál skipti þá minna máli en aðra, að rokið sjái um að dreifa þessu.  Nú þegar mengun frá óhóflegri bílaumferð í Reykjavík fer reglulega langt yfir hættumörk væri fróðlegt að skoða ástandið í okkar þjóðgörðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Björnsson

Það er til hlutur sem er að mig minnir kallaður "leaping frog" þar sem mengun eins og PCB og DDT og þá sérstaklega niðurbrotsefni þeirra ferðast frá heitari svæðum til kaldari, því léttari því lengra fara þau. Þetta er skýring á þeirri mengun sem finnst á suður- og norðurpól.

Það er aftur á móti athyglivert ef það á að kenna öðrum um þessa mengun sem þarna er fjallað um. Að vísu eru helstu uppsprettur efna eins og DDT og PCB í dag að finna í fátækari ríkjum heims, sérstaklega DDT sem er ódýrt en mjög áhrifaríkt eitur. Eins finnst mér merkilegt ef kvikasilfur fer svona langar leiðir eins og látið er í veðri vaka þar sem þetta er nú síður en svo létt efni.

Það er aftur á móti rétt að mikið af mengun kemur líklega frá Kína. Þar er orkunotkun að aukast margfalt á við annarsstaðar og kolaorkuver byggð í kippum. Mikið af þeim nota síðan brúnkol sem eru mjög óhrein og mengun frá þeim er m.a. aukinn brennisteinn (m.v. svartkol) og talsvert af kvikasilfri. Það má gera ráð fyrir að súrt regn verði fljótlega stórt vandamál í Kína og jafnvel í Bandaríkjunum (frá Kína) en hingað til hefur þetta verið höfuðverkur Evrópubúa.

Magnús Björnsson, 7.3.2008 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband