Sunnudagur, 13. apríl 2008
Heimdallur
Í léttu kasti af Íslandsfíkn sem helltist yfir mig hér úti, líkt og kemur víst fyrir flesta Íslendinga í útlöndum, fór ég að glugga í norrænar goðasögur. Þar rakst ég á að í Eddukvæðinu Rígsþulu er meðal annars fjallað þegar Heimdallur, sonur Óðins, var á ferðalagi á sjávarströndu sem nefndist Rígur. Kom hann til þriggja hjóna, Föður og Móður, Afa og Ömmu og Áa og Eddu og gisti hann hjá þeim öllum.
Eitthvað hefur gengið á í heimsókninni því níu mánuðum eftir þá heimsókn ólu allar konurnar syni, Edda ól Þræl sem varð forfaðir þræla, Amma eignaðist Karl sem varð forfaðir bænda og sonur Móður var Jarl sem allir jarlar eru komnir af. Yngsti sonur Jarls hét Konur ungur og af honum eru konungar komnir. Því er það samkvæmt norrænni goðafræði að Heimdallur ber ábyrgð á stéttaskiptingu í samfélagi manna.
Við upphaf vega var þetta sem sagt framlag Heimdalls til samfélags manna. Virðist ekki svo ólíkt stefnuskrár núverandi Heimdalls.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.