Dr R.

Meðal eldri lækna hér á sjúkrahúsinu er Dr R sem er lyflæknir.  Eftir áralöng störf í upphaflegu heimalandi sínu Skotlandi fluttist hann hingað vestur til að sökkva sér enn dýpra í starf sitt sem hann hefur nú sinnt í rúman aldarfjórðun.  Dr R starfar sem einyrki á sjúkrahúsinu þannig að hann er ávallt með hóp inniliggjandi sjúklinga í sinni umsjá og vinnur ekki með öðrum sérfræðingum eða deildarlæknum.  Hann er því alltaf á vakt og vakinn af símanum oft á hverri nóttu.

Af mörgum áhugasömum læknum sem ég hef kynnst um dagana slær Dr R flest met.  Yfirburða þekking hans og reynsla leiðir til þess að við höfum tilhneigingu til að hringja í hann þegar um er að ræða sérstaklega flóknar ráðgátur sem honum er best treyst til að leysa. 

Fyrir 2 árum síðan veiktist hann svo sjálfur og sá þá að sjálfsögðu um að sjúkdómsgreina - hringdi inn á bráðadeild, sagðist vera á leiðinni og líklegast með heilablæðingu.  Í gjörgæslulegunni sá hann síðan að talsverðu leyti um eigin meðferð og notaði amk hvert tækifæri til að kenna unglæknum allt um hvernig þeir áttu að meðhöndla hann.  Eftir örstutt frí var hann kominn aftur í fullt starf. 

Þegar ég hringdi í hann og vakti um miðja nótt í síðustu viku til að biðja hann fyrir sjúkling sem þurfti að leggjast inn af bráðadeildinni tók hann af mér orðið strax í upphafi samtalsins til að segja mér að hann hafi nýlega verið með sjúkling með alveolar rhabdomyosarcoma, einstaklega sjaldgæf tegund af æxli sem hann hafði ekki vitað að væri til og aldrei séð áður.  

Það er gaman að vita til þess að hægt sé að vera í lækningunum í fram á eldri ár og ávallt vera að sjá nýjar áhugaverðar hliðar á faginu.  Enda víst engin takmörk á því hversu flókið lífið getur orðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef áhyggjur af þessum manni.....það er ekki skrýtið að hann hafi fengið heilablæðingu, ég þori að veðja að hann er með slæman háþrýsting af krónískum vöktum. Geturðu ekki sent honum lista af mögulegum öðrum áhugamálum fyrir mann á hans aldri?

Hilmar Kjartansson (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband