Clinically sober

Ef fullur maður kemur á bráðadeild á Íslandi og er með leiðindi án þess að virðast augljóslega í vandræðum er honum bara hent út.  Er þetta eðlileg regla þar sem ekki er hægt að ætlast til þess að öryggi annarra sjúklinga og starfsfólksins sé stefnt í hættu við að tjónka við slíka einstaklinga sem ekki fylgja einföldustu samskiptareglum.  Ef minnsti grunur leikur á að þeir hafi orðið fyrir hættulegri eitrun, séu með duldan höfuðáverka eða eitthvað annað ástand sem þurfi að rannsaka frekar, er hins vegar ekki hikað við að halda þeim með lögreglu- eða lyfjavaldi þangað til að hægt sé að ganga úr skugga um að ekki sé hætta á ferðum.

Hér vestanhafs er þessu nokkru öðru vísi farið.  Ef einstaklingur kemur hingað á bráðadeild og er augljóslega drukkinn ber læknir deildarinnar þar með ábyrgð á honum frá því hann gengur inn um dyrnar.  Þó hann hafi í beinum hótunum við starfsfólkið og virðist hinn hressasti líkamlega séð er læknirinn á vakt talinn vera bótaskyldur ef hann yfirgefur deildina og hleypur fyrir bíl.

Tvískinnungurinn í lögjöfinni er alger.  Ef þú keyrir undir áhrifum áfengis getur þú ekki varpað ábyrgðinni á gerðum þínum yfir á einhvern annan, þú ert alltaf ábyrgur gerða þinna þó þú munir ekkert og getir vart staðið í fæturna.  Ef þú hins vegar rambar inn á sjúkrahús er allt í einu einhver saklaus læknir ábyrgur fyrir gerðum þínum. 

Til að komast framhjá þessari lagaþvælu hefur verið fundið upp hugtakið "clinically sober".  Með því er átt við að einstaklingurinn líti út fyrir að vera sæmilega edrú og því verði talið sannað skv sjúkragögnum að læknirinn hafi ekki getað vitað betur en að viðkomandi hafi verið í ástandi til að bera ábyrgð á sjálfum sér.  Læknar eru því hvattir til þess að skrá í sjúkraskrár að sjúklingurinn sé clinically sober og jafnframt að mæla ekki áfengismagnið í blóði sjúklingsins því slíkt yrði eingöngu notað gegn lækninum.

Margt er gott hér vestanhafs en það er gæfa Íslendinga að hafa ekki apað lögjöfina að of miklu leyti eftir Bandaríkjamönnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband