Mánudagur, 11. ágúst 2008
Lýtaskurðlækningar
Það eru víst engar stórfréttir að lýtaskurðlækningar í BNA séu dálítið bilaðar. Eftir að hafa varið tveimur vikum í að vinna með lýtaskurðlæknum til að læra aðeins meira á því sviði er ég þó kominn með nokkuð góða innsýn í þennan heim og get vottað að þetta fag er kolbilað hér úti.
Fyrir þá sem ekki þekkja má benda á að lýtaskurðlækningar snúast eiginlega um þrjú nokkuð aðskilin verkefni. Í fyrsta lagi er það að gera við lýti á líkamanum, vegna fæðingargalla, slysa eða skurðaðgerða. Slíkar aðgerðir eru oft mjög vandasamar og geta krafist þess að hugmyndafluginu sé beitt til þess að leysa málin. Annar þáttur felst í því að breyta útliti fólks, fegrunarlækningar þar sem eingöngu er verið að breyta og bæta útlit samkvæmt núgildandin fegurðarstöðlum. Þriðji þátturinn er síðan að berjast gegn öldrun, að slétta úr hrukkum og fellingum sem fylgja eðlilegri öldrum.
Því miður varði ég of mörgum dögum í að fylgjast með hrukkustrekkingum. Af öllu því sem ég hef kynnst innan margbrotins heims læknisfræðinnar er þetta með yfirburðum það leiðinlegasta. Ég er feginn að hafa ekki valið mér þennan starfsvettvang því að í sannleika sagt er mér bara alveg nákvæmlega sama hvort sjötug kona sé með brosvipru í munnvikinu eða ekki.
Ég vona líka að ég myndi ekki passa sérstaklega vel inn í þennan hóp lýtaskurðlækna. Einn talaði ekki um annað en peninga en virtist ekki hafa áhuga á starfinu sínu. Annar var svipbrigðalausasti maður sem ég hef séð, eflaust eftir botox notkun í lítravís, sá þriðji ofursnyrtur með litað hár en sá fjórði virtist nokkuð eðlilegur.
Á stofum lýtaskurðlækna er síðan sérstakt andrúmsloft. Í einu hádeginu var einn læknanna með fyrirlestur um nefaðgerðir fyrir starfsfólkið. Þegar verið var að fjalla um mismunandi leiðir til að breyta sköpunarlagi nefsins gat hann síðan bent á nef starfsmanna og farið yfir hvernig aðgerð hver og ein þessara kvenna hefði farið í. Það fróðlegasta við þennan fyrirlestur var samt að þessi gamli lýtalæknir hafði verið lengi í faginu og þekkti marga lýtalækna. Hann gat frætt mig um nákvæmlega hvað hefði verið gert við nef Michael Jackson og hvernig staðan væri á því í dag, gott dæmi um hvernig lýtaaðgerðir geta endað illa.
Gagnvart sjúklingunum lýtaskurðlækna er gríðarleg áhersla lögð á að hafa vinalegt andrúmsloft og stöðugt að hrósa viðskiptavinum um hversu vel þeir líta út, sérstaklega eftir aðgerðirnar. Því miður mátti síðan sjá konur sem höfðu beinlínis ánetjast lýtaaðgerðum og farið í óteljandi aðgerðir árum saman þangað til útlitið var orðið beinlínis hlægilegt. Samt var haldið áfram og sprautað meira og meira í andlitið ef konan óskaði þess.
Nei, fegrunarlækningar eru ekki fyrir mig.
Athugasemdir
Huggy...
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 11.8.2008 kl. 01:08
broshrukkur eru fallegar. Sem betur fer er þó hægt að laga raunveruleg lýti. En skil vel að þér þyki þetta ekki spennandi heimur
Hólmdís Hjartardóttir, 11.8.2008 kl. 01:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.