Gæðalöggan

Rekstur sjúkrahúsa er með allt öðrum hætti hér vestanhafs en á Íslandi og stærsti munurinn er að það er ekki sami aðili sem greiðir fyrir þjónustuna og veitir hana.  Einn af stórum kostum við þetta er að kaupandi getur gert kröfur um gæði þjónustunnar.  

Nýlega komu fulltrúar sjúkrahúseftirlitsins í heimsókn á sjúkrahúsið, án þess að hafa boðað komu sína.  Þeir fóru um allt sjúkrahúsið og fylgdust með gæðaþáttum eins og handþvotti starfsfólks, nákvæmni skráningar og fleira sem hefur áhrif á hvernig sjúklingum sjúkrahússins farnast.

Almennt kom sjúkrahúsið nokkuð vel út, en á fáeinum deildum sáust mörg dæmi um að starfsfólk þvoði sér ekki um hendurnar í lögboðnar 15 sek bæði fyrir og eftir að þeir snertu á sjúklingi, og einnig vantaði talsvert upp á að fyrirmæli lækna væru alltaf bæði dag- og tímasett.  Hvort tveggja eru þetta atriði sem í dagsins önn á sjúkrahúsi sem einfaldlega vilja gleymast en ættu ekki að gera það.

Það sjúkrahús sem ég starfa á nú fylgir gæðastöðlum margfalt nánar en hinn íslenski Landspítali, þó þar sé annars veitt ágæt þjónusta.  Sjúkrahúsið er stórt og virt hér á svæðinu en samt hljóðaði úrskurður gæðaeftirlitsins eftir heimsóknina  upp á að gera þyrfti betur.  Þeir munu koma aftur í heimsókn eftir 2-3 mánuði og krefjast þess að búið verði að bæta úr málum. 

Við fyrstu sýn virðist þetta fáranlega stíft, en líf fólks hangir á því að reglunum sé fylgt.  Alltaf.

Þessi heimsókn hefur skilað sér í því að allir starfsmenn sjúkrahússins eru meðvitaðir um að gera þurfi betur og skráning og handþvottur hefur sannarlega orðið enn betri, en var þó í nokkuð góðu horfi fyrir.

Það er leitt að segja það, en mér þætti áhugavert að sjá sambærilega úttekt á LSH.  Þar er ekkert eftirlit utanaðkomandi óháðra aðila.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband