Ill meðferð deyjandi

Amerískar gjörgæslur eru líklega í sérflokki í heiminum.  Fagið er mjög þróað og eins og við er að búast vantar ekki tækjabúnaðinn né peningana í þessar hátæknilækningar hér í landi. 

Þær eiga bara ekki alltaf við.

Hér úti eru stórir þjóðfélagshópar sem hafa þá afstöðu til lífsins að því eigi að framlengja skilyrðislaust eins og tæknin leyfir, alltaf.  Í gær á hádegi kláraðist ein af 30 klst vöktunum sem stundaðar eru á deildinni og nánast öll nóttin fór í að halda lífinu í 300 kg konu.  Samkvæmt öllum okkar mælingum var hún að deyja og algerlega útilokað að gera nokkuð til að breyta því.  Því til viðbótar hafði hún verið rúmliggjandi og nánast meðvitundarlaus lengi, með legusár, verki, andþyngsli og ekki notið lífs á nokkurn hátt.

Ef einhver nákominn mér væri í þessari stöðu myndi ég vilja að gefið væri morfín og hinu óumflýanlega leyft að hafa sinn gang.  Ættingjar hennar voru ekki á þeirri skoðun og því var farið í að koma upp holbláaðarlegg og blóðþrýstingi haldið uppi með lyfjum, slagæðalegg til að fylgjast með blóðþrýstingi, blóðskilunarlegg og hún tengd við nýrnavél.  Allt eru þetta sársaukafullar aðgerðir fyrir konuna og tóku þó nokkra stund, enda tæknilega erfitt að gera nokkuð vegna aukakílóanna.  Undir morgun hélt hún áfram að reyna að deyja þrátt fyrir þetta og þá var hún barkaþrædd og sett á öndunarvél. 

Ég er nú á leið til vinnu aftur eftir morgunmatinn og ég veit fyrir víst að ég mun ekki þurfa að sinna henni í dag, hún mun ekki hafa lifað gærdaginn af.

Þetta er ekki meðferð sem framlengir lífinu, einungis lengir dauðann.  Til viðbótar við að framlengja þjáningum vesalings konunnar hleypur kostnaðurinn við þessar æfingar örugglega á milljónum, eyðir gríðarlegri orku og skapar ómælt magn af rusli.

Það bjánalegasta við sjúkratryggingakerfið hér úti er síðan að gjörgæslumeðferð er alltaf greidd af ríkinu, jafnvel fyrir þá ósjúkratryggðu sem ekki fá grunnheilsugæslu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

er það ekki þessvegna sem fólk vill meðferðina ... af því að það "á rétt" á henni og ríkið borgar ... blessuð konan, vonandi hefur hún fengið að deyja ... Góða vakt

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 23.8.2008 kl. 11:11

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

 Ég held að það hljóti að vera innsta þrá hvers manns að fá að deyja með reisn eins og hægt er og lina þjáningar eins og kostur er. Þarna er verið að mínu mati að þjóna ættingjum til að forðast málaferli ef eitthvað hefði farið úrskeiðis. Aðgerðir Bandaríkjamanna í svo mörgu miðast að því, að mér finnst. Kostnaðurinn er gífurlegur. Hafðu góða vakt og vertu velkominn í bloggvinahópinn minn.

Sigurlaug B. Gröndal, 27.8.2008 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband