Laugardagur, 25. október 2008
Hvað þarf eiginlega til?
Það hefur verið merkilegt að fylgjast með efnahagshamförunum á Íslandi úr fjarlægð. Flest hefur svo sem verið sagt en eitt get ég bara alls ekki skilið.
Á Íslandi hafa ákveðnir menn farið í ólöglegt stríð í nafni þjóðar sem byggt hefur sjálfsmynd sína á því að vera friðarþjóð sem aldrei ræðst gegn öðrum þjóðum. Ellefu hundruð ára friðarhefð var rofin án samráðs við þing eða þjóð. Alþingi Íslands hefur nánast verið lagt niður þar sem framkvæmdavaldið ræður eiginlega öllu um hvaða lög eru afgreidd á þinginu. Dómsvaldið er ekki einu sinni sjálfstætt þar sem dómarar eru of pólitískt skipaðir. Náttúruauðlind var hreinlega gefin ákveðnum hópi einstaklinga á hátt sem alþjóðastofnanir hafa dæmt ólöglegan. Þjóðin hefur á undanförnum árum fengið upplýsingar um efnahagsástandið frá greiningardeildum bankanna eftir að óháð þjóðhagsstofnun var lögð niður. Skattheimta hefur aukist um 10%, mest allra OECD ríkja á sama tíma og því hefur verið haldið fram að skattheimta hafi í raun minnkað. Bilið milli þjóðfélagshópa hefur magnast. Þingmenn og ráðherrar hafa skammtað sjálfum sér óhóflegan launaauka með eftirlaunalögum.
Það er svo sem ekki að þetta séu einu verk núverandi ráðamanna. Enginn er alvondur og þeir hafa ennig gert marg gott, en hvert og eitt þessara verka ætti að vera nægilega stórt klúður til þess að þeir ættu að hafa verið látnir fara úr stjórnmálum. Enn hafa þeir samt setið við völd.
Nú hefur fjármálakerfi heillar þjóðar algerlega brætt úr sér. Annað eins hrun hefur ekki sést á vesturlöndum áratugum saman og líklega ekki í nokkra mannsaldra. Ljóst er að eftirlitsstofnanir ríkisins hafa brugðist á einhvern hátt, þó enginn viti í raun hver beri mesta sökina. Varað var við nákvæmlega því sem gerðist en yfirmenn þjóðarinnar hlustuðu ekki.
Góðir Íslendingar, af hverju sitja allir þessir menn enn í sínum opinberu stöðum? Hvað þarf eiginlega til að stjórnmálamenn séu látnir sæta ábyrgð á Íslandi? Hafi einhvern tíma verið ástæða til þess í vestrænu lýðræðisríki að fara út á göturnar og mótmæla er það núna. Þetta snýst ekki um í hvaða stjórnmálaliði menn eru, hér er hreinlega spurning um hvort lýðræði sé í raun á Íslandi. Að láta Geir/Davíð sitja áfram er nákvæmlega hið sama og að leyfa Welding, Sigurði Einars og Sigurjóni Árnasyni að sitja áfram yfir bönkunum og rannsaka sjálfir hvað fór úrskeiðis. Það má ekki gerast.
Ef þeir, sem bera pólitíska ábyrgð á þeirri kollsteypu sem nú er að skerða lífskjör þjóðarinnar og steypa okkur í skuldir sem við og börn okkar þurfa að greiða, fá að sitja áfram við völd eru Íslendingar aumingjar.
Það er ekkert flóknara en það.
Athugasemdir
Einmitt og ákkúrat.
Kristján Valur Jónsson (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 15:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.