Laugardagur, 8. nóvember 2008
Að kjósa forsætisráðherra
Allur heimurinn er líklega búinn að fá gleðifréttirnar héðan frá BNA, að Obama hafi unnið kosningarnar. Heimurinn er breyttur og sjálsmynd þessarar þjóðar hefur breystu verulega við þennan atburð. Hér í Virginíu er ekki lengra síðan en svo að aðskilnaðarstefnan var afnuminn að gamla fólkið fæddist inn í þennan heim. Þessi kosning mun breyta miklu, þó ekki sé fyrir annað en sjálfsmynd hörundsdökkra.
Ég er annars ekki alveg viss um að allir heima á Íslandi átti sig á því hvernig stjórnkerfið hér úti virkar, en forseti BNA hefur í raun svipuð völd og forsætisráðherra og forsetinn á Íslandi hafa í sameiningu.
Forsetinn er kosinn af þjóðinni og hann setur síðan saman ríkisstjórn, handvelur ráðherrana til að taka við ráðuneytum og embættum. Því til viðbótar hefur hann heimild til þess að beita neitunarvaldi gegn lögum þingsins, en þá þarf aukinn meirihluta til þess að þau öðlist gildi.
Ég er farinn að hallast að því að þetta sé afar skynsamlegt fyrirkomulag. Á Íslandi er bara kosið til þings, en það hver fer með framkvæmdavaldið er bundið hreppapólitík stjórnmálaflokka. Framkvæmdavaldið skipar síðan dómara, og þannig er í raun bara kosið um einn þátt hins þrískipta valds. Þetta hefur leitt til þess að alþingi Íslands hefur þróast í valdalitla afgreiðslustofnun fyrir of valdamikla ráðherra sem skrifa frumvörpin og ráða of miklu um afgreiðslu þeirra.
Hér með vil ég leggja til að stjórnarskrá Íslands verði breytt á þann veg að við fáum að kjósa um það hver fer með framkvæmdavaldið. Aðeins þannig verður aftur hægt að koma á virkri þrískiptingu valds á Íslandi, einhverju sem líklega hefur aldrei verið almennilega virkt í raun. Þrískipting valds á ekki að fela í sér skiptingu á milli þriggja stjórnmálaflokka.
Ekki að ein bloggfærsla muni breyta stjórnarskránni, en nú er komið að róttækri endurskoðun á mörgu á Íslandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.