Þriðjudagur, 16. desember 2008
Sjúklingur er...
... um 190 cm að hæð. Þrekinn og svartur. Á sínum yngri árum var hann atvinnuboxari og enn er hann augljóslega nautsterkur þó kominn sé á fimmtugsaldurinn.
Lífið hans gekk bærilega þangað til upp úr tvítugu þegar raddirnar fóru að verða of háværar. Smám saman urðu ofskynjanir og ranghugmyndir allsráðandi og hann reyndi að flýja í róandi lyf og áfengi til að dempa sálarlífið þar sem hann hafði engan aðgang að læknisþjónustu. Á endanum rankaði hann við sig eftir að hafa drepið unga konu í ölæði.
Hann sagði lífið í fangelsi hafa verið erfitt. Hann hafi sífellt verið að reyna að verja sig en 5 sinnum verið illa barinn, margbrotinn og hver einasta tönn sem eftir var frá hnefaleikaferlinum hafði verið kýld úr. Það góða við fangelsið var þó að hann fékk alltaf lyf til að halda ofskynjunum í skefjum.
Nú var honum sleppt út fyrir hálfu ári síðan eftir 18 ár í fangelsi. Í fyrstu hafði allt gengið sæmilega, en vegna peningaleysis hafði nú verið skrúfað fyrir vatn og rafmagn í íbúðinni hans. Vinstra hnéð var löngu ónýtt af slitgigt og lítur hörmulega út á röntgenmynd en enginn hefur fengist til þess að gera aðgerð á honum og því má hann búa við stöðuga verki. Í vandræðum sínum hafði hann fengið að gista hjá barnsmóður sinni en hún er virkur alki þannig að þar leið honum ekki vel. Nú þegar hún var farin að draga heim menn í krakk neyslu lét hann sig hverfa þar sem hann vildi ekki vera nálægt slíku fólki.
Þessu til viðbótar voru lyfin hans búinn og enginn læknir hafði fengist til að sjá hann og endurnýja lyfin, sem þó var það sem hann sagðist verja sínum síðustu dollurum í. Undanfarna daga voru ofskynjanirnar farnar að koma aftur og því leitaði hann á bráðadeildina, enda orðinn hræddur við ástandið. Hans eina ósk í lífinu virtist vera að lifa því friðsamlega enda búinn að fá meira en nóg af ruglinu.
Eftir að hafa horft á óteljandi kvikmyndir með mögnuðum illmennum er ég eiginlega alltaf jafn hissa á því hversu sjaldan raunverulega er rekist á einstaklinga sem í raun eru illir í eðli sínu. Eftir læknisstörf í rúman áratug get ég varla sagt að ég hafi nokkurn tíma kynnst hreinræktuðu illmenni, ef rætt er við einstaklinginn í trúnaði án fordóma og einfaldlega lagt sig eftir því að heyra söguna eru meint illmennin nánast alltaf ógæfusamir einstaklingar sem hafa alist upp við ofbeldi, vanrækslu eða mistnoktun eða illa hanldnir af sjúkdómum. Það má vera að einstaklingurinn hafi orðið fyrir svo miklum skaða eða að hann sé svo veikur að honum sé ekki viðbjargandi og þurfi að loka inni, en nánast allir vilja bara lifa venjulegu lífi og geta það líklegast ef þeir fá smá stuðning til. Eflaust eru þau til, en ég hef enn ekki kynnst barni sem er fætt illmenni.
Nú er ofangreindur geðveikur morðingi og atvinnubardagamaður eflaust fullkomið efni í bíómyndaillmenni í huga einhvers, en sá einstaklingur sem ég ræddi við var einstaklega kurteis og auðmjúkur, í mínum huga var hann fyrst og fremst illa veikur ógæfumaður. Vissulega eru fjölmargar öryggisreglur sem hafa þarf í huga við að umgangast svona einstaklinga á bráðadeild og ekki hefði ég viljað þurfa að slást við hann, en þessi maður var örugglega ekki sá hættulegasti sem komið hefur á deildina. Það er alveg mögulegt að hann hafi verið góður leikari að gera sér upp einkenni til að fá gistingu, eins og sannarlega gerist, en þá einstaklinga finnum við venjulega með hjálp rafrænnar sjúkraskrár þar sem allar upplýsingar liggja fyrir. Þessum manni trúi ég.
Sem betur fer tókst að sannfæra félagsmálastofnun í að setja kraft í að hjálpa manninum og hann var lagður inn á geðdeild á lyf eins og hann vildi. Megi hann njóta friðsamlegra ævidaga.
Athugasemdir
Mögnuð lesning. Vonandi verður ekki heilbrigðiskerfið hér á Fróni í líkingu við þetta.
Rósa (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 03:09
Snilldarfærsla - algjörlega sammála þér!!
Davíð Björn Þórisson, 16.12.2008 kl. 09:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.