Laugardagur, 21. febrúar 2009
Rándýr
Alltaf er ég jafn hissa á að rekast á fólk sem ekki skilur eðli rándýra. Í mínum huga er rándýrum einfaldlega ætlað að drepa sér til matar, þannig er eðli þeirra frá náttúrunnar hendi. Þeim má síðan gróft skipta í tvo flokka, einstaklingsdýr líkt og flest kattardýr eru sem fof hugsa um sjálf sig og svo hjarðdýr eins og hunda þar sem staða þeirra í virðingarstiga hóps er lykilatriði.
Þeim rándýrum sem notuð eru sem gæludýr vil ég síðan bara skipta í tvo flokka, þau dýr sem maður ræður við og þau dýr sem maður ræður ekki við í líkamlegum átökum. Alveg er hægt að ala upp og umgangast stóra dobermann hunda, ljón, birni og önnur viðlíka rándýr þannig að þau líti á þig sem ofar í virðingarstiganum og hlýði þér og þeim börnum og öðrum sem þú hefur undir þínum verndarvæng. Ef þú ræður ekki við dýrið með eigin handafli ertu samt alltaf háður geðslagi dýrsins, að dýrið missi ekki sitt litla vit. En dýrin geta sannarlega orðið geðveik eins og mannfólkið.
Ástæðan fyrir því að ég er að velta mér upp úr þessum málum meira en venjulega er að hafa varið drjúgum hluta nýlegrar vaktar í að sinna 7 mánaða dreng sem pit bull hundur hafði maukað andlitið á. Dýrið beit reyndar ekkert af, en tætti andlitið í sundur og braut öll andlitsbeinin frá hauskúpunni. Ef drengurinn lifir verður hann afmyndaður.
Það fáranlega við þennan dag var síðan að ræða við samstarfsfólk sem sumt er á því að dýrið hafi bara verið vitlaust upp alið, haldandi því fram að með réttu uppeldi eigi svona ekki að gerast, að þetta sé allt eigandanum að kenna.
Það er svo sem rétt, þessi hörmungaratburður var eigandanum að kenna sem hleypti rándýri nálægt ungabarni. Að treysta því að dýrið hagi sér eins og það hefur verið alið upp til að gera en ekki samkvæmt eðli sínu er hins vegar jafn fáranlegt og að fullorðinn sofi með ljón í herberginu og treysti geðslagi ljónsins til að éta sig ekki.
Það má vel vera að ég fái mér hund einhvern tíma síðar í lífinu, en það verður dýr sem ég get snúið niður og drepið með handafli ef í harðbakkann slær. Nógu mikið rugl hef ég séð frá mannfólkinu til að treysta ekki geðheilsu 100 kg rándýrs, vopnuðu vígtönnum.
Athugasemdir
Menn verða líka að muna að "tegundir" eru ræktaðar með mismunandi tilgang í huga. Labrador er t.d. ræktaður til að sækja veiðibráð og þannig að þetta sé mjög fjölskylduvænt dýr. Aðrir hundar eins og pit bull og doperman eru ræktaðir sem hrein og klár veiðidýr eða varðdýr, þannig að þau drepa bráðina og verja húsbóndann og eign hans fyrir öllu sem gæti verið ógnun. Eðli þeirra er þannig (og smá skammtur af innræktun oft á tíðum) er þannig að það er ekki hægt að treysta þeim á sama hátt og öðrum tegundum. Síðan getur náttúrulega alltaf gerst hjá dýrum eins og okkur mönnunum að eitthvað klikkar í kollinum, hef kynnst svoleiðis hundi sem var samt svo lítill að lítið mál var að ráða við hann (margar glefsur og rispur sem maður fékk, hann var látinn fara eftir að hafa bitið systir mína til blóðs).
En það er skelfilegt þegar hlutir gerast eins og þú lýsir, aðeins 7 mánaða gamall.
Magnús Björnsson, 22.2.2009 kl. 17:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.