Frábær forræðishyggja

Meðal frjálshyggjujarmara er hin heilaga mantra að lausn allra vandamála felist frelsi einstaklingsins.  Menn sjá rautt (bókstaflega) yfir öllum hugmyndum sem fela í sér að þjóðfélagið taki ákvarðanir fyrir fólk um hvað því sé fyrir bestu.

Ég var að velta fyrir mér í þessu samhengi þá gríðarlegu forræðishyggju sem felst í því lífeyrissjóðskerfi sem komið hefur verið á hér á landi.  Í BNA eru menn nokkuð frjálsir til að leggja fyrir að vild, en ef einhver vill lifa hratt og deyja ungur án nokkurs sparnaðar hefur hann fullt frelsi til þess.  Hér á landi er kerfið allt annað, stjórnvöld hafa tekið þá skynsamlegu ákvörðun að skylda beri alla til þess að leggja ákveðið hlutfall launa sinna í lífeyrissjóð til þess að tryggja að allir eigi rétt á viðunandi ellilífeyri.

Hér er ekki um mikið val að ræða, ríkið tekur völdin af einstaklingunum og ákveður fyrir þá að svona sé skynsamlegt að gera.

Sjálfur hef ég einstaklega lítinn áhuga á fjármálum, því er ég mjög ánægður með að einstaklingar sem hafa meiri þekkingu á málaflokknum sjái um að koma á einhverjum skipulögðum lífeyrissparnaði.  Á þessu sviði eru líklega flestir á því að forræðishyggjan sé til góðs.  Það sama á við um bólusetningar, viðhald á bílnum, öryggismál í flugi og óteljandi önnur mál sem stjórnvöld í flóknu nútímasamfélagi ákveða fyrir okkur.

Forræðishyggja er ljótt orð og því miður ofnotað.  Allir hafa þörf fyrir að láta hafa vit fyrir sér á einhverjum sviðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband