Mánudagur, 22. október 2007
Næturstofugangar
Í síðasta mánuði vann ég á skurðdeild. Þar með var ég kominn inn í vinnuumhverfi skurðlækna hér í landi sem byggir vægast sagt ekki á mikilli virðingu fyrir þörfum mannslíkamans.
Hér í BNA eru í gildi lög um 80 klst hámarksvinnuviku lækna, en á slysaskurðdeildum er leyft að fara upp í 88 klst og það hámark er ekki alltaf virt. Venjulegur dagur er frá 5 að morgni og til um 5 síðdegis en um 3-4 hvern dag er síðan unnið frá 5 að morgni til hádegis daginn eftir. Sólarhringsvaktir eru svo sem ekki alvondar, þær geta verið ágætt vinnufyrirkomulag ef hafa þarf nauðsynlegan viðbúnað í húsi en sjaldnast að gera mikið. Þær eru hins vegar út í hött ef öllu jöfnu þarf að vinna samfellt í 30 klst, líkt og þarna þyrfti að gera.
Ég er amk ánægður að hafa ekki farið í skurðlækningar eftir þennan mánuð. Því miður eiga nánast allir þeir læknar sem ég vann með á þessari deild það sameiginlegt að vera einstaklega óhamingjusamir einstaklingar. Það eru vissulega til stöku menn sem geta lifað góðu lífi, en eiginlega allir þessir einstaklingar voru augljóslega búinr að vinna allt of mikið allt of lengi. Enginn getur ræktað sjálfan sig og fjölskylduna með þessu vinnuálagi
Látum svo sem vera að þetta sé ill meðferð á læknum, verst er að kröfurnar gera það að verkum að illa er farið með sjúklingana. Venjulegur dagur er þannig að deildarlæknar koma til vinnu um kl 5 og byrja þá að ganga stofugang á sína sjúklinga. Klukkan 7 er síðan fundur þar sem farið er yfir ástand dagsins með sérfræðingnum og ákveðið hvað gera skuli yfir daginn fyrir hvern og einn sjúkling.
Það fáranlega við þetta er að enginn getur gengið stofugang og kynnt sér í smáatriðum ástand 10 fárveikra sjúklinga á 2 klst að einhverju viti. Til þess að þetta gangi upp byrja læknarnir á sólarhringsvaktinni því venjulega að ganga stofugang upp úr miðnætti og eru síðan að ganga á milli sjúklinga alla nóttina, að vekja þá til að spyrja hvernig hægðir, verkir, svefn og önnur einkenni eru og framkvæma daglega líkamsskoðun.
Ímyndið ykkur að liggja fárveik á sjúkrahúsi, að reyna að safna kröftum til þess að berjast við sjúkdóminn, og að vera síðan vakin nokkrum sinnum um nóttina.
Vissulega lítur þetta allt vel út hvað varðar skýrslugerð um sjúklingana og afköst. Þetta þykir mér samt ill meðferð á sjúklingum.
Athugasemdir
Sæll Hjalti, ég rakst á þessa færslu þína og verð að segja að það gleður mig að þér sem lækni skuli finnast þetta vaktafyrirkomulag lækna útí hött. Allavega gat ég ekki skilið þig öðruvísi. Ég sjálf hef mikið þurft á þeim að halda vegna barnanna minna og hef ótal sinnum hitt fyrir svefnvana dómgreindarskerta lækna. Það segir sig bara sjálft, það vinnur enginn vinnuna sína vel ósofin og undir álagi. En hvers vegna í ósköpunum er þessu ekki breytt? Ég hef sjálf kvartað við héraðslækni og Landlæknisembættið en maður má sín lítils einn. Kannski þú getir upplýst mig um það hvers vegna þetta fyrirkomulag er svona. Flugmenn mega bara fljúga ákveðin tíma í einu, enda er þeirra ábyrgð mikil, en læknar er gert að vinna útí eitt. veit að margir unglæknar missa að hluta til af uppvexti barna sinna.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 22.10.2007 kl. 10:22
neðarlega átti auðvitað að standa: læknum er gert að vinna útí eitt, ekki læknar.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 22.10.2007 kl. 10:23
Sæll Hjalti, ég rakst á þessa færslu þína og verð að segja að það gleður mig að þér sem lækni skuli finnast þetta vaktafyrirkomulag lækna útí hött. Allavega gat ég ekki skilið þig öðruvísi. Ég sjálf hef mikið þurft á þeim að halda vegna barnanna minna og hef ótal sinnum hitt fyrir svefnvana dómgreindarskerta lækna. Það segir sig bara sjálft, það vinnur enginn vinnuna sína vel ósofin og undir álagi. En hvers vegna í ósköpunum er þessu ekki breytt? Ég hef sjálf kvartað við héraðslækni og Landlæknisembættið en maður má sín lítils einn. Kannski þú getir upplýst mig um það hvers vegna þetta fyrirkomulag er svona. Flugmenn mega bara fljúga ákveðin tíma í einu, enda er þeirra ábyrgð mikil, en læknar er gert að vinna útí eitt. veit að margir unglæknar missa að hluta til af uppvexti barna sinna.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 22.10.2007 kl. 10:24
Þetta er að breytast, meira að segja hér vestanhafs. Heima á Íslandi eru sólarhringsvaktir nánast ekki stundaðar lengur meðal lækna.
Að breyta hlutum í þessu tröllaukna ríki hér vestanhafs er hins vegar svo þungt í vöfum að það tekur lengri tíma.
Hjalti Már Björnsson, 29.10.2007 kl. 15:35
Á þeim sjúkrahúsum í Ameríkunni sem ég þekki til á voru ýmist sólarhringsvaktir eða 12 tímar vaktir. Stofugangurinn fór oftar en ekki fram fyrir utan herbergi sjúklinganna og gerði ég mikið grín að því. Sjúklingarnir hittu ekki læknana og læknarnir ekki sjúklingana. Læknarnir stóðu margir í hnapp umhverfis tölvu fyrir utan herbergin ásamt hjúkrunarfræðingum og ýmsum öðrum tengdum sjúkrahúsinu.
Fjóla Æ., 29.10.2007 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.