Miðvikudagur, 27. ágúst 2008
Stórfréttir
Tengsl líkama og sálar hafa lengi verið meðal áhugamála minna. Ég var að rekast á grein sem styður nokkuð sem mig hefur lengi grunað, andleg líkamsrækt er líklega raunveruleg.
Í áhugaverðri rannsókn var skoðaður hópur hótelþerna sem fá alltaf nokkra líkamlega áreynslu úr daglegum störfum sínum. Mældur var líkamsþyngdarstuðull, blóðþrýstingur og fleiri þættir og í ljós kom að þernurnar voru almennt í lélegu formi.
Eftir það var helmingurinn tekinn í viðtal þar sem þeim var sagt að þær fengju góða líkamsrækt með daglegum störfum sínum.
Þegar þær voru teknar aftur til skoðunar 4 vikum síðar hafði heilsufarsástand þeirra sem sagt var að þær stunduðu líkamsrækt með daglegum störfum sínum batnað umtalsvert. Þær höfðu grennst og blóðþrýstingur lækkað án þess að dagleg hreyfing þeirra né mataræði hefði nokkuð breyst.
Þeir sem hafa áhuga geta nálgast greinina í Psychological Science feb 2007.
Ég hef lengi velt fyrir mér varðandi þá sem stunda líkamsrækt hvort það sé sálrænn þáttur sem hafi áhrif á það hversu mikil vöðvauppbyggingin verði. Ef frá eru taldir sterabjánarnir hef ég á tilfinningunni að við lóðalyftingar fáist meiri vöðvastækkun fram en við venjulega erfiðisvinnu með sama átaki. Hef samt enn ekki rekist á rannsókn á því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 23. ágúst 2008
Ill meðferð deyjandi
Amerískar gjörgæslur eru líklega í sérflokki í heiminum. Fagið er mjög þróað og eins og við er að búast vantar ekki tækjabúnaðinn né peningana í þessar hátæknilækningar hér í landi.
Þær eiga bara ekki alltaf við.
Hér úti eru stórir þjóðfélagshópar sem hafa þá afstöðu til lífsins að því eigi að framlengja skilyrðislaust eins og tæknin leyfir, alltaf. Í gær á hádegi kláraðist ein af 30 klst vöktunum sem stundaðar eru á deildinni og nánast öll nóttin fór í að halda lífinu í 300 kg konu. Samkvæmt öllum okkar mælingum var hún að deyja og algerlega útilokað að gera nokkuð til að breyta því. Því til viðbótar hafði hún verið rúmliggjandi og nánast meðvitundarlaus lengi, með legusár, verki, andþyngsli og ekki notið lífs á nokkurn hátt.
Ef einhver nákominn mér væri í þessari stöðu myndi ég vilja að gefið væri morfín og hinu óumflýanlega leyft að hafa sinn gang. Ættingjar hennar voru ekki á þeirri skoðun og því var farið í að koma upp holbláaðarlegg og blóðþrýstingi haldið uppi með lyfjum, slagæðalegg til að fylgjast með blóðþrýstingi, blóðskilunarlegg og hún tengd við nýrnavél. Allt eru þetta sársaukafullar aðgerðir fyrir konuna og tóku þó nokkra stund, enda tæknilega erfitt að gera nokkuð vegna aukakílóanna. Undir morgun hélt hún áfram að reyna að deyja þrátt fyrir þetta og þá var hún barkaþrædd og sett á öndunarvél.
Ég er nú á leið til vinnu aftur eftir morgunmatinn og ég veit fyrir víst að ég mun ekki þurfa að sinna henni í dag, hún mun ekki hafa lifað gærdaginn af.
Þetta er ekki meðferð sem framlengir lífinu, einungis lengir dauðann. Til viðbótar við að framlengja þjáningum vesalings konunnar hleypur kostnaðurinn við þessar æfingar örugglega á milljónum, eyðir gríðarlegri orku og skapar ómælt magn af rusli.
Það bjánalegasta við sjúkratryggingakerfið hér úti er síðan að gjörgæslumeðferð er alltaf greidd af ríkinu, jafnvel fyrir þá ósjúkratryggðu sem ekki fá grunnheilsugæslu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 20. ágúst 2008
Gæðalöggan
Rekstur sjúkrahúsa er með allt öðrum hætti hér vestanhafs en á Íslandi og stærsti munurinn er að það er ekki sami aðili sem greiðir fyrir þjónustuna og veitir hana. Einn af stórum kostum við þetta er að kaupandi getur gert kröfur um gæði þjónustunnar.
Nýlega komu fulltrúar sjúkrahúseftirlitsins í heimsókn á sjúkrahúsið, án þess að hafa boðað komu sína. Þeir fóru um allt sjúkrahúsið og fylgdust með gæðaþáttum eins og handþvotti starfsfólks, nákvæmni skráningar og fleira sem hefur áhrif á hvernig sjúklingum sjúkrahússins farnast.
Almennt kom sjúkrahúsið nokkuð vel út, en á fáeinum deildum sáust mörg dæmi um að starfsfólk þvoði sér ekki um hendurnar í lögboðnar 15 sek bæði fyrir og eftir að þeir snertu á sjúklingi, og einnig vantaði talsvert upp á að fyrirmæli lækna væru alltaf bæði dag- og tímasett. Hvort tveggja eru þetta atriði sem í dagsins önn á sjúkrahúsi sem einfaldlega vilja gleymast en ættu ekki að gera það.
Það sjúkrahús sem ég starfa á nú fylgir gæðastöðlum margfalt nánar en hinn íslenski Landspítali, þó þar sé annars veitt ágæt þjónusta. Sjúkrahúsið er stórt og virt hér á svæðinu en samt hljóðaði úrskurður gæðaeftirlitsins eftir heimsóknina upp á að gera þyrfti betur. Þeir munu koma aftur í heimsókn eftir 2-3 mánuði og krefjast þess að búið verði að bæta úr málum.
Við fyrstu sýn virðist þetta fáranlega stíft, en líf fólks hangir á því að reglunum sé fylgt. Alltaf.
Þessi heimsókn hefur skilað sér í því að allir starfsmenn sjúkrahússins eru meðvitaðir um að gera þurfi betur og skráning og handþvottur hefur sannarlega orðið enn betri, en var þó í nokkuð góðu horfi fyrir.
Það er leitt að segja það, en mér þætti áhugavert að sjá sambærilega úttekt á LSH. Þar er ekkert eftirlit utanaðkomandi óháðra aðila.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. ágúst 2008
Dr F
Einn af þeim læknum sem ég held hvað mest upp á hér á spítalanum er hinn suður afríski Dr F. Maðurinn er menntaður lyflæknir og taugalæknir en starfar sem almennur lyflæknir og er með gáfuðustu mönnum sem ég hef kynnst, hann veit hreinlega allt um læknisfræði.
Hvað karakterinn varðar minnir hann helst á Dr House og er frægur fyrir að hakka í sig læknanema og námslækna, sérfræðinga einnig ef hann nær í þá.
Einn námslæknir í lyflækningum sem ég þekki þurfti að ráðfæra sig við hann á göngudeild vegna miðaldra reykingamanns sem vildi fá lyfseðil fyrir viagra. Eftir að hafa heyrt um málið gekk Dr F inn til sjúklingsins og sagði honum að hugsa til þess hvert skipti sem hann kveikti sér í sígarettu að hann væri að reykja typpið á sér.
Og gekk svo út og hafði ekkert frekar að ræða við þennan sjúkling.
Einhverjum finnst þetta etv ekki góð samskiptatækni við sjúklinga, en stundum þarf fólk bara að heyra hlutina beint út. Dæmi um þetta er allt fólkið sem er 250 kg að þyngd og hefur verið greint með sjúkdóminn hækkaðar blóðfitur. Einhver vinalegur læknir hefur, með hjálp kostnaðarsamrar blóðprufu, komist að því að bloðfiturnar séu of háar og svo er hafin meðferð með dýru blóðfitulækkandi lyfi. Því miður er allt of algengt að læknirinn hefur aldrei sagt beinum orðum við sjúkling sinn að hann sé á góðri leið með að drepa sig úr ofáti.
Markmið lækna á að vera að koma fólki til betri heilsu og fræða fólk um staðreyndir, ekki fyrst og fremst að vera vinalegur og segja það sem fólk vill heyra.
Enginn er betri í því en Dr F.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 15. ágúst 2008
Titlar
Faðir + sonur = feðgar
Afi + sonarsonur = öfgar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. ágúst 2008
Scaryview
Í landi með yfir 5000 sjúkrahúsum er óhjákvæmilegt að upp komi samkeppni. Á því 1,5 milljóna svæði sem við búum á eru allmörg sjúkrahús af ýmsum stærðum og gerðum en öll eru þau háð því að sjúklingar leiti til þeirra. Þegar orðspor sjúkrahúss er orðið slæmt getur verið skynsamlegt fyrir starfsfólkið að fara að leyta sér aðnýrri vinnu.
Á sjúklingum heyrist mér starfsfólk Maryview sjúkrahússins hér í næsta bæjarfélagi þurfi að horfa í kringum sig. Það er ekki gæfulegt þegar sjúklingar eru almennt farnir að upp nefna spítalann Scaryview eða Murderview.
Landspitalinn íslenski hefur sloppið við svona, um þá stofnun hef ég ekki heyrt verra en uppnefnið hlandspítali.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. ágúst 2008
Lýtaskurðlækningar
Það eru víst engar stórfréttir að lýtaskurðlækningar í BNA séu dálítið bilaðar. Eftir að hafa varið tveimur vikum í að vinna með lýtaskurðlæknum til að læra aðeins meira á því sviði er ég þó kominn með nokkuð góða innsýn í þennan heim og get vottað að þetta fag er kolbilað hér úti.
Fyrir þá sem ekki þekkja má benda á að lýtaskurðlækningar snúast eiginlega um þrjú nokkuð aðskilin verkefni. Í fyrsta lagi er það að gera við lýti á líkamanum, vegna fæðingargalla, slysa eða skurðaðgerða. Slíkar aðgerðir eru oft mjög vandasamar og geta krafist þess að hugmyndafluginu sé beitt til þess að leysa málin. Annar þáttur felst í því að breyta útliti fólks, fegrunarlækningar þar sem eingöngu er verið að breyta og bæta útlit samkvæmt núgildandin fegurðarstöðlum. Þriðji þátturinn er síðan að berjast gegn öldrun, að slétta úr hrukkum og fellingum sem fylgja eðlilegri öldrum.
Því miður varði ég of mörgum dögum í að fylgjast með hrukkustrekkingum. Af öllu því sem ég hef kynnst innan margbrotins heims læknisfræðinnar er þetta með yfirburðum það leiðinlegasta. Ég er feginn að hafa ekki valið mér þennan starfsvettvang því að í sannleika sagt er mér bara alveg nákvæmlega sama hvort sjötug kona sé með brosvipru í munnvikinu eða ekki.
Ég vona líka að ég myndi ekki passa sérstaklega vel inn í þennan hóp lýtaskurðlækna. Einn talaði ekki um annað en peninga en virtist ekki hafa áhuga á starfinu sínu. Annar var svipbrigðalausasti maður sem ég hef séð, eflaust eftir botox notkun í lítravís, sá þriðji ofursnyrtur með litað hár en sá fjórði virtist nokkuð eðlilegur.
Á stofum lýtaskurðlækna er síðan sérstakt andrúmsloft. Í einu hádeginu var einn læknanna með fyrirlestur um nefaðgerðir fyrir starfsfólkið. Þegar verið var að fjalla um mismunandi leiðir til að breyta sköpunarlagi nefsins gat hann síðan bent á nef starfsmanna og farið yfir hvernig aðgerð hver og ein þessara kvenna hefði farið í. Það fróðlegasta við þennan fyrirlestur var samt að þessi gamli lýtalæknir hafði verið lengi í faginu og þekkti marga lýtalækna. Hann gat frætt mig um nákvæmlega hvað hefði verið gert við nef Michael Jackson og hvernig staðan væri á því í dag, gott dæmi um hvernig lýtaaðgerðir geta endað illa.
Gagnvart sjúklingunum lýtaskurðlækna er gríðarleg áhersla lögð á að hafa vinalegt andrúmsloft og stöðugt að hrósa viðskiptavinum um hversu vel þeir líta út, sérstaklega eftir aðgerðirnar. Því miður mátti síðan sjá konur sem höfðu beinlínis ánetjast lýtaaðgerðum og farið í óteljandi aðgerðir árum saman þangað til útlitið var orðið beinlínis hlægilegt. Samt var haldið áfram og sprautað meira og meira í andlitið ef konan óskaði þess.
Nei, fegrunarlækningar eru ekki fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 3. ágúst 2008
Hebrew National
Bandaríska matvælaeftirlitið nýtur svipaðrar virðingar í mínum huga og umhverfisverndarstofnanir Bush stjórnarinnar. Marg endurtekið hefur verið sýnt fram á að ekkert eftirlit er með notkun aukaefna í matvælagerð sem vitað er að séu skaðleg og ekki eru leyfð í Evrópu.
Til að reyna að ala fjölskylduna á heilbrigðum matvælum, enda fátt mikilvægara fyrir heilsuna, erum við að reyna að kaupa lífrænt og slæddumst því til að kaupa kosher pulsur frá framleiðandanum Hebrew National sem sagðar eru framleiddar án nokkurra aukaefna. Þegar innihaldslýsingin er lesin kemur hins vegar í ljós:
INGREDIENTS: Beef, water, salt, contains 2% or less of spice, paprika, hydrolyzed soy protein, garlic powder, sodium erythorbate, sodium nitrite, flavorings.
Ekki gott, þar sem Natríum nítrít er líklega krabbameninsvaldandi og því æskilegt að forðast það.
Það skrautlega við vörur Hebrew National er að þær eru markaðssettar með undirtitlinum "We Answer to a Higher Authority". Fyrirtækið telur sig því ekki þurfa að bera ábyrgð á yfirlýsingum sínum um hreinleika sinna vara gagnvart mér.
Ætli guð skipti sér að svona málefnum neytenda?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 30. júlí 2008
Hæfileg kurteisi
Hér vestanhafs getur yfirdrifin ópersónuleg kurteisi orðið hreint fáranleg. Í samskiptum við fyrirtæki er alltaf byrjað á langdreginni rullu með þökkum fyrir að hafa leitað til viðkomandi fyrirtækis, með útlistingum á því hversu vel þeir kunna að meta viðskiptin og hversu miklu máli þú sem viðskiptavinur skiptir fyrirtækið.
Drepleiðinlegt allt saman, sérstaklega af því að í raun veit maður að sá sem þetta segir meinar eiginlega ekkert með þessu, en rullan er bara almenn viðtekin kurteisi í samskiptum og hluti menningarinnar.
Ég er farinn að hallast að því að leitun sé að verri þjóð en íslendingum þegar kemur að ókurteisi í viðskiptum. Gott dæmi um þetta er emillinn hér að neðan sem nýlega barst frá blog.is. Fyrir þá sem lesa þetta blogg og fleiri sem nota sama hýsingaraðila hafa þeir líklega tekið eftir því að nýleg meiri háttar bilun varð á hýsingunni. Fyrir utan að bloggið lá niðri í einhvern tíma hefur líklega eitthvað af gögnum tapast og hér er því um meiri háttar hrun að ræða í þjónustunni sem kemur verulega illa við notendur. Í textanum sem barst frá blog.is er bara lýst því sem hefur gerst og hvað sé verið að gera til að reyna að leysa málið. Hvergi er beðist velvirðingar eða afsökunar á klúðrinu.
Eins og bloggarar hafa eflaust tekið eftir varð bilun í vélbúnaði blog.is sl. mánudagskvöld. Þá bilaði svonefnd diskastæða, sem er sérstök gagnageymsla með tólf hörðum diskum. Sú stæða var þannig upp sett að ef einn eða fleiri diskar bila á það ekki að koma að sök, en svo virtist sem tíu af tólf diskum hafi bilað samtímis eða búnaðurinn sem stýrir þeim.
Á þessum diskum voru geymdar útlitsstillingar bloggara, síðusnið, toppmyndir, lög í tónlistarspilurum, myndskeið og myndir í albúmum. Að svo stöddu höfum við ekki ástæðu til að ætla að gögnin séu glötuð, en það kemur væntanlega í ljós í dag eða á morgun.
Ef gögnin eru í lagi munum við lesa þau inn í kerfið aftur og þá lagast flest það sem úr lagi hefur færst. Þeir bloggarar sem ekki vilja bíða eftir því geta þó gripið til ýmissa aðgerða til að færa blogg sín í samt horf.
Svo tekur við sundurliðun á því hvernig notendur sjálfir geta lagt vinnu í að leysa úr þeim vandræðum sem upp hafa komið vegna klúðurs blog.is.
Ekki að ég sé mikið fyrir uppskrúfaða kurteisi, en ég held að rekstraraðilar blog.is yrðu amk ekki langlífir á bandaríkjamarkaði ef þetta er viðmótið til viðskiptavina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 30. júlí 2008
Hallelujah
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)