Miðvikudagur, 30. júlí 2008
Bandaríkin eru að breytast
Í fyrsta sinn sem elstu langafar muna er nú farið að draga úr akstri hér í BNA. Ekki svo sem stórfenglega en bara að kúrfan hér til hliðar sé farin að þokast niður á við er merkileg frétt. Hér sé ég mikinn mun á því frá því í fyrra hversu mun fleiri eru á reiðhjólum og að rekast á vespur í umferðinni er orðið alvanalegt.
Að mestu leyti er þetta vafalítið vegna hækkandi bensínverðs, enda gráta menn hér yfir því að þurfa að borga um 90 kr fyrir bensínlíterinn. Hækkandi bensínverð er því til bóta fyrir náttúruna, nema það verði til þess að forsetafíflinu takist að nota það til að fá leyfi til að eyðileggja friðlönd til að ná í meiri olíu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 26. júlí 2008
Dr J
Undanfarið hef ég unnið nokkuð náið með lýtaskurðlækni hér úti. Hann er gríðarlega áhugasamur um Ísland og við höfum rætt amk jafn mikið um Ísland eins og lýtaskurðlækningar.
Hann sagði mér frá því að þau hjónin hefðu eitt sinn fyrir mörgum árum haft au-pair frá Íslandi. Sú mun hafa verið með gríðarlega stór brjóst sem sonur hans, þá átta ára, hafi þótt mjög merkileg.
Eftir að þau hjónin fóru burt eina helgi og nágranninn fræddi lýtaskurðlækninn á því að sú íslenska hafi haldið sundlaugarpartý með 50 af sínum nánustu vinum varð Dr J ekki ánægður. Þegar honum var svo sagt að stór hluti gestanna hafi verið nakinn í sundlauginni kom ekki annað til greina en að senda stelpuna aftur heim til Íslands.
Ég hef samt á tilfinningunni eftir að hafa kynnst manninum að hann hafi aðallega verið svekktur yfir að hafa ekki verið boðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. júlí 2008
Dr Benton
Sviðsstjóri skurðlækninga hér við spítalann sem ég starfa er svartur maður um fimmtugt, Dr Britt. Af hans kynslóð eru ekki margir sem hafa náð svo langt úr "african-american" hluta samfélagsins, enda formlegur kynþáttaaðskilnaður rétt að leggjast af þegar hann fæddist og enn er langt í land með að raunverulegu jafnræði verði komið á.
Þessi sviðsstjóri er gríðarlega vinnusamur og metnaðarfullur, gengur ávallt í hvítasta og stífpressaðasta sloppnum á spítalanum sem farið er að gera grín að. Einnig er línan hans þegar hann spyr yngri lækna á stofugangi spurningar og bætir svo við "Is that a fair question Dr?" í hvert einasta skipti orðin að stöðluðum brandara.
Áhugavert aukaatriði um þennan mann er hins vegar að hann var í læknaskóla og starfaði með Michael Crichton, sem skrifaði upphaflega handritið að sjónvarpsþáttunum ER auk fjölda annarra þekktra bóka. Því hafa verið leiddar líkur að því að okkar Dr Britt sé í raun fyrirmyndin að sjónvarpspersónunni Dr Benton.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. júlí 2008
The Onion
Fyrir þá sem ekki þekkja til Lauksins, þá er The Onion hin ameríska (og líklega upprunalega) útgáfa af Baggalútshúmor. Þeir eru síst síðri annars frábærum baggalýtingum og hafa verið í útgáfu á pappírsformi í slétt 20 ár en náðu fyrst almennri útbreiðslu með netútgáfunni sem hófst 1996.
Í ljósi þess hversu hörmulega léleg fréttamennska er stunduð á CNN, FOX, MSNBC og álíka sorpstöðvum hefur nokkuð verið rætt um það í fullri alvöru hvort Laukurinn sé etv oft nær sannleikanum.
Gott dæmi um þetta er 8 ára gömul frétt sem hefur ræst algerlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 10. júlí 2008
Umhverfisvernd í verki
Í nýlegri Íslandsheimsókn sýndi ég af mér umhverfisvernd í verki. Í anda Andra Snæs og annarra góðra manna var fjármagni varið til þess að kaupa aðgang að náttúrunni og vernda.
Ég ætla sem sagt að líta á það sem framlag til náttúruverndar að hafa ekki fengið lax á tveimur dögum í Hítará á besta veiðitíma. Mér finnst amk talsvert skárra að hafa ekkert veitt en að hafa veitt og sleppt. Ég er alfarið á móti því svo kallaða sporti að veiða og sleppa, sem er að mínu mati nákvæmlega það sama og ef rjúpa væri veidd með öngli í munnvikið og dregin um heiðina í korter áður en henni væri sleppt særðri. Hreinræktuð ill meðferð á dýrum þar.
Ómældum tíma var hins vegar varið í að horfa á alla laxana í fallegum hylnum fyrir neðan veiðihúsið og ég sannfærðist um að það sé vanmetið sóknarfæri í því að fara að skipuleggja laxaskoðun í fallegum og tærum bergvatnsám. Fuglaskoðarar leggja gríðarmikið á sig til að sjá fugla, í hvalaskoðun borga túristar fyrir að í besta falli sjá aðeins í bak syndandi hvals. Ef komið væri fyrir gleri og aðstöðu til að horfa á villtan lax í náttúrulegu umhverfi sínu, og fylgjast með þeim stökkva upp fossana er það örugglega jafn gaman og hvalaskoðun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 14. júní 2008
Kjörþokki
Ég hef orðið var við að ýmsir utan Bandaríkjanna séu hálf svekktir yfir að Hillary Clinton skyldi ekki ná útnefningu Demókratanna til forseta embættisins. Vissulega voru Clinton árin ágæt fyrir BNA og freistandi að vilja meira af því sem áður hefur virkað, það er bara að myndast ótrúlega sterk undiralda hér úti fyrir róttækum breytingum.
Hvað varðar vinsældir Obama þá má sjá skýrt dæmi um mun á kjörþokka frambjóðendanna hér. Svona atriði skipta alltaf máli í stjórnmálum, einkum í þessu landi yfirborðsmennskunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 13. júní 2008
Niðurlæging veiðimennskunnar
Þó ég sé ekki mikill veiðimaður í mér skil ég alveg ánægjuna við þetta sport. Það er bara alltaf meira og meira við veiðimennskuna sem er ekkert sport lengur. Allt er þetta orðið sífellt meira tæknivætt þannig að á endanum þarf veiðimaðurinn ekki annað en kveikja á tækinu sem fer út og veiðir fyrir hann.
Nýtt dæmi um þetta tækjarugl hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. júní 2008
Icelandic Karaoke
Um helgina dró ég fram gítarinn í nokkuð stóru partíi hér úti undir yfirskriftinni Icelandic Karaoke. Það eru eflaust engar ýkjur að partýgítarspil og söngur sé nokkuð sterk hefð á Íslandi, en það virkaði ágætlega að ljúga því í útlendingana að meðal þjóðaríþrótta Íslendinga væri ótæknivætt íslenskt karaoke. Sú íþrótt var skilgreind þannig að söngvarar þyrftu að velja lag úr textasafni og syngja við kassagítarundirleik.
Annars rifjaðist upp fyrir mér að vinur minn sem lærði í Stanford í San Fransisco fræddi mig eitt sinn á því að við þann skóla er hægt að fá einingar fyrir að raula lag. Þeir hafa sem sagt áttað sig á því að það felst nokkur félagsleg fötlun í því að geta ekki raulað með einföldum hópsöng. Því var hægt að skrá sig í námskeið þar sem unnið var með leiðbeinenda í því eina verkefni að geta raulað einfalt lag bærilega skammlaust, allt til að vera samkvæmishæfur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)