Umhverfisvernd og sparnaður

Ef ísskápurinn er fullur af engu en höfuðið tómt af hugmyndum má nota þessa frábæru síðu hér:

http://www.supercook.com/

til að fá hugmyndir.  Síðan lofar góðu, sérstaklega þessi uppskrift hér:

 


Hvað greinir menn frá dýrum?

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að munur á mönnum og dýrum sé mun minni en fólk almennt gerir sér grein fyrir.  Dýr geta notað verkfæri, þróað tungumál, reiðst, glaðst, skammast sín og hafa sýnt af sér flesta þá eiginleika sem frumherjar vísindanna töldu upp yfir það sem aðgreindi mannfólkið frá dýrunum.  Vissulega eru flest þessara atriða einfaldari hjá dýrum en mönnum en vísindin hafa verið í hálfgerðum vandræðum með að orða það nákvæmlega í hverju hinn meinti eðlismunur á mönnum og dýrum liggur.

Þessi grein hér er áhugavert innlegg í þessa umræðu.  Skv því helsta sem mun vera að gerast í rannsóknum og umræðu á þessu sviði hefur verið sýnt fram á að þó mannapar hafi getað þróað með sér einfaldar leiðir til  tjáskipta, þá eru þau tjáskipti yfirleitt aldrei notuð til annars en að fá einhvern til að gera eitthvað ákveðið.  Dýr virðast ófær um að tjá tilfinningar. 

Það sama má svo sem segja um ýmsa einstaklinga sem teljast til mannkyns.


Jarðskjálftaviðvörunarljós náttúrunnar?

Það hafa víst verið sögusagnir um ljós á himni við jarðskjálfta.  Þessu mun áður hafa verið lýst bæði á meðan á skjálftanum stendur, eftir að honum lauk og það sem áhugaverðast er, rétt fyrir skjálftann. 

Nú loksins náðust skýrar myndir af þessu merka fyrirbæri á undan skjálftanum í Kína.

Ekki ætla ég amk að hanga innan dyra ef eitthvað þessu líkt birtist á himni:

Minnir dálítið á norðurljós.

 

 


Samanburður

Enn sé ég að verið er að jarma um að hægt sé að hagræða og spara pening í íslenska heilbrigðiskerfinu.  Sannarlega er hægt að breyta kerfinu og taka upp skilvirkari aðferðir á ýmsum sviðum, en á móti kemur að á öðrum er stórkostlegur skortur á að staðið sé að hlutunum með viðeigandi hætti.

Dæmi:  Hér úti starfa ég á bráðadeild sem sinnir um 50.000 einstaklingum á ári.  Talsvert meira er af skot- og stungusárum og ýmsu öðru stóru en að öðru leyti ekki svo ósvipuð vandamál sem verið er að fást við og á bráðadeild LSH í Fossvogi. 

Til að sinna þessum einstaklingum höfum við hér úti 41 herbergi, þar af 5 rúmgóð gjörgæsluherbergi og 2 flennistór slysamóttökuherbergi.  Það er síður en svo að hér sé um íburð að ræða, bara eðlilega búið að fólki til að hægt sé að sinna slösuðum og bráðveikum með viðunandi hætti og virða friðhelgi einkalífs þeirra á erfiðum stundum.

Á slysa- og bráðadeild minnir mig að um 70.000 manns komi árlega.  Þar eru alls 15 sjúklingaherbergi, þar af tvær kompur sem kallaðar eru gjörgæsluherbergi. 

Það er ekki furða að yfirmenn LSH vilji byggja.


Gaman að þessu

Þessu stóra landi hér vestan Atlantshafs hefur of lengi verið stjórnað af blaðskellandi stríðsæsingabjánum sem nota innantóm slagorð þjóðernishyggju til þess að leiða umræðuna frá raunveruleikanum.

Það er því gaman af síendurteknum tilvikum þar sem þessum bjánum er gefið ærlega á baukinn:

 

 


Clinically sober

Ef fullur maður kemur á bráðadeild á Íslandi og er með leiðindi án þess að virðast augljóslega í vandræðum er honum bara hent út.  Er þetta eðlileg regla þar sem ekki er hægt að ætlast til þess að öryggi annarra sjúklinga og starfsfólksins sé stefnt í hættu við að tjónka við slíka einstaklinga sem ekki fylgja einföldustu samskiptareglum.  Ef minnsti grunur leikur á að þeir hafi orðið fyrir hættulegri eitrun, séu með duldan höfuðáverka eða eitthvað annað ástand sem þurfi að rannsaka frekar, er hins vegar ekki hikað við að halda þeim með lögreglu- eða lyfjavaldi þangað til að hægt sé að ganga úr skugga um að ekki sé hætta á ferðum.

Hér vestanhafs er þessu nokkru öðru vísi farið.  Ef einstaklingur kemur hingað á bráðadeild og er augljóslega drukkinn ber læknir deildarinnar þar með ábyrgð á honum frá því hann gengur inn um dyrnar.  Þó hann hafi í beinum hótunum við starfsfólkið og virðist hinn hressasti líkamlega séð er læknirinn á vakt talinn vera bótaskyldur ef hann yfirgefur deildina og hleypur fyrir bíl.

Tvískinnungurinn í lögjöfinni er alger.  Ef þú keyrir undir áhrifum áfengis getur þú ekki varpað ábyrgðinni á gerðum þínum yfir á einhvern annan, þú ert alltaf ábyrgur gerða þinna þó þú munir ekkert og getir vart staðið í fæturna.  Ef þú hins vegar rambar inn á sjúkrahús er allt í einu einhver saklaus læknir ábyrgur fyrir gerðum þínum. 

Til að komast framhjá þessari lagaþvælu hefur verið fundið upp hugtakið "clinically sober".  Með því er átt við að einstaklingurinn líti út fyrir að vera sæmilega edrú og því verði talið sannað skv sjúkragögnum að læknirinn hafi ekki getað vitað betur en að viðkomandi hafi verið í ástandi til að bera ábyrgð á sjálfum sér.  Læknar eru því hvattir til þess að skrá í sjúkraskrár að sjúklingurinn sé clinically sober og jafnframt að mæla ekki áfengismagnið í blóði sjúklingsins því slíkt yrði eingöngu notað gegn lækninum.

Margt er gott hér vestanhafs en það er gæfa Íslendinga að hafa ekki apað lögjöfina að of miklu leyti eftir Bandaríkjamönnum.


Dr R.

Meðal eldri lækna hér á sjúkrahúsinu er Dr R sem er lyflæknir.  Eftir áralöng störf í upphaflegu heimalandi sínu Skotlandi fluttist hann hingað vestur til að sökkva sér enn dýpra í starf sitt sem hann hefur nú sinnt í rúman aldarfjórðun.  Dr R starfar sem einyrki á sjúkrahúsinu þannig að hann er ávallt með hóp inniliggjandi sjúklinga í sinni umsjá og vinnur ekki með öðrum sérfræðingum eða deildarlæknum.  Hann er því alltaf á vakt og vakinn af símanum oft á hverri nóttu.

Af mörgum áhugasömum læknum sem ég hef kynnst um dagana slær Dr R flest met.  Yfirburða þekking hans og reynsla leiðir til þess að við höfum tilhneigingu til að hringja í hann þegar um er að ræða sérstaklega flóknar ráðgátur sem honum er best treyst til að leysa. 

Fyrir 2 árum síðan veiktist hann svo sjálfur og sá þá að sjálfsögðu um að sjúkdómsgreina - hringdi inn á bráðadeild, sagðist vera á leiðinni og líklegast með heilablæðingu.  Í gjörgæslulegunni sá hann síðan að talsverðu leyti um eigin meðferð og notaði amk hvert tækifæri til að kenna unglæknum allt um hvernig þeir áttu að meðhöndla hann.  Eftir örstutt frí var hann kominn aftur í fullt starf. 

Þegar ég hringdi í hann og vakti um miðja nótt í síðustu viku til að biðja hann fyrir sjúkling sem þurfti að leggjast inn af bráðadeildinni tók hann af mér orðið strax í upphafi samtalsins til að segja mér að hann hafi nýlega verið með sjúkling með alveolar rhabdomyosarcoma, einstaklega sjaldgæf tegund af æxli sem hann hafði ekki vitað að væri til og aldrei séð áður.  

Það er gaman að vita til þess að hægt sé að vera í lækningunum í fram á eldri ár og ávallt vera að sjá nýjar áhugaverðar hliðar á faginu.  Enda víst engin takmörk á því hversu flókið lífið getur orðið.


Þjóðhverfur hugsunarháttur?


Spjöll

Mikið asskoti eru þeir miklir umhverfisslóðar þessir kanar.  Ég var bara nýlega að komast að því að öll verkfærin sem notuð eru til saumaskapar hér á bráðadeildinni minni er hent eftir notkun.  Vönduð stálverkfæri sem ættu að geta dugað í hundruð einfaldra aðgerða eru sett beint í ruslið.

Til upplýsingar fyrir þá sem ekki þekkja þá þarf nálahaldara, skæri, æðatöng og tvær pinsettur, samtals 5 stáláhöld, til þess að vera með lágmarksbúnað til að sauma einfaldan skurð á húð.   Á hinni mjög svo sparsömu slysa- og bráðadeild LSH eru þessi áhöld þrifin eftir notkun og pakkað með pappabakka og  grisjum eftir dauðhreinsun inn tilbúin til notkunnar aftur.

Hér í Ameríku er umgengnin við verkfærin önnur, öllum verkfærum er hent beint í ruslið og svo bara keypt inn ný fyrir næsta saumaskap.  Líklega er hægt að fá ódýri starfskraft í Asíu til að búa til ný verkfæri, dauðhreinsa og pakka inn og flytja hingað en því miður eru umhverfismálin alls ekkert tekin með í reikninginn.   Sóunin á takmörkuðum náttúruauðæfum okkar jarðarbúa virðist ekki eiga sér nein takmörk hér í Ameríku.


Hvar væri Ísland...

...án þingmanna Suðurlands

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband