Mengaðir þjóðgarðar

Hjá heimsmeisturum í rányrkju á auðlindum jarðarinnar hafa menn þó alltaf getað verið stoltir af þjóðgörðunum.  Það mega bandaríkjamenn eiga, að þjóðgarðafyrirbærið var fundið upp hér og eftir að hafa heimsótt nokkra þeirra get ég vottað að þeir eru einstaklega vel skipulagðir og reknir.  Líklega hefur það getað friðað samvisku einhvers yfir mengun að hið minnsta séu þjóðgarðarnir hreinir.

Nú var hins vegar verið að mæla mengunina í nokkrum af merkilegustu og afskektustu þjóðgörðum Bandaríkjanna og niðurstöðurnar eru vægast sagt skuggalegar.  Magn þungmálma, PCB, DDT og annarra skaðlegra efna var víða langt yfir því sem er talið hæft til manneldis og þetta hlýtur að verða tekið þetta alvarlega.  Ef náttúran á allra hreinustu og afskektustu svæðum landins er óhæf til manneldis hlýtur að vera komið vel á veg með að gera landið allt óbyggilegt. 

Fróðlegt er að sjá að menn telja þessa mengun aðallega vera til komna frá Asíu og Evrópu.  Alla leið til Kaliforníu.  Það er liklega ekki hægt að útiloka að eitthvað geti borist með háloftum yfir úthöfin, en þetta er samt aðeins langsótt  að kenna öðrum um eigin sora.  En, jafn vel þó svo væri, þá má væntanlega búast við því að mengun frá Bandaríkjunum sé einnig að dreifast til Asíu og Evrópu, enda er það ein af stóru misskilningunum um umhverfismál að mengun sé staðbundin. 

Þetta er allt athyglivert, ekki síst fyrir Íslendinga sem sjálfir hafa alltaf staðið í þeirri meiningu að umhverfismál skipti þá minna máli en aðra, að rokið sjái um að dreifa þessu.  Nú þegar mengun frá óhóflegri bílaumferð í Reykjavík fer reglulega langt yfir hættumörk væri fróðlegt að skoða ástandið í okkar þjóðgörðum.


Oregon leysir vandann

Ömurlegt er að vera fátækur í BNA.  Margir hér lifa í þeirri blekkingu að alltaf sé von um að brjótast úr hlekkjunum og verða ríkur þó í raunveruleikanum sé það nánast ógerlegt.  Eitt af því versta við fátæktina hér er að vera án sjúkratryggingar sem í siðuðum samfélögum ætti að teljast til lágmarks mannréttinda að mínu mati.

Oregon er nú að fara nýja leið hvað þetta varðar, búið er að koma á fót lotteríi þar sem dregið er úr umsóknum hverjir fái sjúkratryggingu á kostnað hins opinbera.  Með þessum hætti geta allir átt örlitla von um að vinna í happdrættinu og sætta sig þá etv aðeins betur við ástandið.  Gerir samt ekkert til að leysa vandann.


George W Bush bókasafnið

Nú þegar forsetabjáninn er loksins að fara að hætta er búið að ákveða að verja um 500 milj USD í að byggja bókasafn til að halda nafni hans á lofti.

Eins og við er að búast þegar byggja á bókasafn til heiðurs manns sem lýst hefur því yfir að hann lesi yfirleitt ekki bækur, eru brandararnir þegar farnir að streyma inn.

Hér hafa menn komið með hugmyndir að hönnun bókasafnsins sem eru nokkuð áhugaverðar.

 

 


Atferlishagfræði

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með áhugaverðri umræðu undanfarið um nýjar áherslur hagfræðinga.  Sú annars ágæta stétt sem hingað til hefur verið allt of upptekin af fjárhagnum er loksins farin að skoða fjárhaginn meira í samhengi við sálfræðina og hegðun fólks. 

Af þessu hefur komið upp tískuorðið behavioral economics, sem þýða mætti sem atferlishagfræði, og mikið er fjallað um, sjá t.d. hér.  Spútnikinn Obama virðist hafa kynnt sér þessi mál vel og tekið upp á stefnuskrá sína.  Nú þegar flest virðist benda til þess að Obama verði næsti forseti BNA lofar það góðu að hann virðist vera að draga saman hirð í kringum sig af alvöru hugsuðum, nokkuð sem ekki hefur farið mikið fyrir hjá núverandi forsetabjánanum. 

Dæmi um rannsóknarefni sem atferlishagfræðingar hafa valið sér er t.d. tilraun þar sem foreldrar voru látnir greiða sekt ef þeir komu of seint að sækja börn sín á leikskólann.  Hefðbundinn skilningur á hagfræðilögmálum hefði spáð fyrir um að þetta myndi leiða til þess að foreldrarnir kæmu frekar á réttum tíma, en raunveruleikinn er að hið öfuga gerist.  Í ljós kemur, að aðal hvati þess að foreldrar sækja almennt börnin á réttum tíma, er að þeir vilja ekki skapa sér óvild leikskólans.  Ef þeir hins vegar greiða sekt telja þeir einhvern vegin að þeir hafi borgað fyrir að koma of seint og leyfa sér það því frekar, sem var alls ekki það sem viðkomandi leikskóli hafði ætlast til þegar sektirnar voru ákveðnar.

Það athyglisverðasta við þessa tilraun er að þegar síðan hætt var að sekta foreldra fyrir að koma of seint héldu þeir áfram að koma of seint.  Þeir virtust nú vera búnir að venja sig á þennan ósið gagnvart starfsfólkinu á leikskólanum og héldu því áfram.   Því virðist sem að markaðsvæðing geti haft varanleg óheppileg áhrif á hegðun hópa.

 


Jógúrt?

Eitt af því sem ég geri nokkuð í vinnunni er að ráðleggja fólki sem til okkar leitar að lifa heilbrigðara lífi, enda eiga óheilbrigðir lífshættir líklega þátt í flestum líkamlegum vandamálum.  Fyrir utan að hreyfa sig meira, hætta að reykja, drekka hóflega og borða hollan mat ráðlegg ég fólki oft að stunda jóga, enda vel staðfest í rannsóknum að slíkt bæti líðan og heilsufar.

Það er þó stundum erfitt þegar verið er að ræða við illa upplýsta einstaklinga.  Hér undanfarið hef ég lent á nokkrum sem verða eitt stórt spurningamerki í framan, þegar ég nefni að þeir ættu etv að prófa jóga, og spyrja í fullri alvöru "yoghurt?"

Eins og ég er alltaf að benda á þá eru BNA land öfganna, hér er allt það besta og versta í heiminum.  Hámenntað fólk getur verið ótrúlega vel mennta og náð langt, en þeir sem eru fátækir og ómenntaðir geta verið alveg stjarnfræðilega fáfróðir.


Ungt fólk tekur við sér.

Ekki vantar umfjöllunina í fjölmiðlum hér vestra um kosningabaráttuna í aðdraganda forsetakosninganna.  Nú þegar forsetabjáninn mælist með líklega minnsta fylgi í sögu þessa lands er annað að gerast sem ekki hefur farið jafn hátt - ungt fólk er farið að hafa áhuga og skoðanir á þjóðfélagsmálum.

Skýrt dæmi um það er könnun sem birt var í Time nýlega.  Þar kemur fram að hlutfall þeirra 18-29 ára í Bandaríkjunum sem fylgjast yfir höfuð með kosningabaráttunni hefur hækkað frá einungis 13% árið 2000 upp í 74% í dag.

Þessi breyting er það mikil að erfitt er að kalla hana annað en byltingu.  Það á síðan eftir að koma í ljós hvernig þessi hópur kýs.


Kindur

Þetta er svo fáranleg hugmynd að það væri eiginlega nauðsynlegt að taka þátt, ef maður byggi á Íslandi.  Þó 40.000 sé nokkur fjárhæð hlýtur að vera ómetanlegt að fá jólakort frá kindinni sinni.

Ef ég byggi á klakanum myndi ég kaupa.


Strákavernd

Hugmyndir manna hér vestra um jafnrétti kynjanna er á köflum aðeins ólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast.  Ég hef t.d. nokkrum sinnum orðið vitni af því að menn hálfpartinn í gríni vorkenna vini mínum hér úti sem á von á dóttur eftir 2 mánuði, með orðunum að þetta komi bara næst.  Aðeins meira en á Íslandi er látið í það skína að betra sé að eignast strák en stelpu.

Einnig hef ég nokkrum sinnum heyrt sagt að þeir sem eigi dætur þurfi einnig að eignast amk einn son svo að hann geti varið systur sínar.  Fyrir hverju veit ég ekki alveg enn.  Mér hefur íslenskum konum yfirleitt ganga ágætlega að verja sig sjálfar.

Eftir að hafa horft með dótturinni á Línu Langsokk, sem hún fékk í jólagjöf, er ég farinn að hallast á því að þessi merkilega barnasaga hafi haft meiri áhrif á norrænar konur en margir gera sér grein fyrir.  Ekkert er sjálfsagt að konur alist upp við þá fyrirmynd að stelpa geti verið sterk og sjálfstæð.


Enn af plasti

Uss.  Ég minntist nýlega á að stór svæði í Kyrrahafinu væru orðin að plastsúpu.  Samkvæmt nýjustu fréttum stækkar svæðið ört, nú nær það yfir svæði sem er tvöfalt stærra en gjörvöll Bandaríkin. 

Hvenær á maður nógu stóran bíl?

febIV 075

Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að gróðurhúsaáhrifin og hlýnun jarðar er raunverulegt vandamál.  Flest þenkjandi fólk gerir sér amk grein fyrir að þetta geti verið ógn við lífríki jarðar og því sé líklega rétt að gera eitthvað í málinu.

Stóran hluta af þessu vandamáli væri hægt að leysa ef fólk myndi einfaldlega allt nota sparneytnari og minni bíla, því hefur verið rekinn áróður fyrir því að ekki sé verið að keyra um á stórum eyðslufrekum bílum.  Hummerinn hefur síðan orðið eins konar andlit eyðsluseminnar og er einn fordæmdasti bíllinn meðal umhverfisverndarsinna.

Hér úti í Ameríku eru menn almennt býsna langt frá því að vera farnir að gera eitthvað til að draga úr bensínnotkun.  Dæmi um það má sjá á myndinni hér að ofan.  Hummerinn stendur þar ekki á bílastæðinu fyrir aftan rútuna, heldur hefur eigandi húsbílsins hengt smábílinn sinn aftan í til að geta skotist styttri túra á ferðum sínum um landið.  Þegar ekið er um þjóðvegina er þetta býsna algeng sjón, risahúsbíll og svo jeppi (sem þætti í flestum öðrum löndum óþarfa eyðslusemi einn og sér) hangandi aftan í. 

Til viðbótar við þessa ofgnótt hef ég einnig séð á tjaldstæðum að menn eru einnig stundum með fjórhjól í húsbílnum, enda verður að tryggja að þeir þurfi ekki að ganga upp að þjónustumiðstöðinni á tjaldsvæðinu.

Það er ekki furða að þeir séu feitir kanarnir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband