Andlitsbókin

Ég ætla aldrei þessu vant að spegla færslu annars bloggara, Gvendarbrunnsins, um hvað raunverulega liggur að baki Facebook.

Þar sem ég hef látið glepjast inn á þessa sýndarveröld finnst mér amk rétt að dreifa þessari nauðsynlegu lesningu um bók andlitanna.


Dómsdagsspá

PacificGyreAnsans.  Gróðurhúsaáhrifin virðast ekki vera eina vandamálið sem steðjar að umhverfismálunum, plastið er etv enn verra.

Lengi hafði ég staðið í þeirri meiningu að plast brotni niður í náttúrinni, líklegast mjög hægt en brotni niður að lokum.  Það virðist því miður ekki vera satt því plastið sem við hendum hverjum degi í ruslið verður þar líklega árþúsundir ef ekki til eilífðarnóns.

Ekki bara að það sé slæmt heldur kvarnast plast í sjónum niður í sífellt smærri agnir sem halda áfram að fljóta um höfin.  Það er því líkleg framtíðarspá að höf jarðar verði þakin af plasti og það geti í fullri alvöru ógnað öllu lífi jarðarinnar.

Fyrir þá sem þegar halda að þetta sé bara svartsýnisraus má benda á rannsóknir á s.k. pacific gyre, en það er gríðarstórt svæði í Kyrrahafinu þar sem hafstraumar berast í hring.  Það plast sem berst inn á svæðið getur því ekki flotið burtu og safnast því fyrir.

Á þessu svæði, sem er um tvöfalt stærra en Texas, er massi plastagna þegar orðinn 6 sinnum meiri en lífmassinn.  

Að nota plast er því eitthvað sem við ættum að forðast að gera eins og hægt er.  

Sem örlitla vonarglætu um að plastlosun í náttúruna geti etv minnkað eitthvað má benda á möguleikann á að þessi maður hér hafi leyst vandann.  Ekki að það sé svo umhverfisvænt að brenna olíu, en ef hægt er að umbreyta plasti í olíu með örbylgjum á einfaldan hátt og brenna í staðin fyrir aðra olíu er mögulegt að heildarmengunin verði minni.

 


Hlutföll

Læknisfræðilegur brandari Þorvarðar í athugasemd hér að neðan varðandi útstreymisbrot og HbA1c er etv torskilinn sumum lesendum.

Ég bjóst samt ekki við að sjá slíkan sjúkling, en í nótt sinnti ég konu með útstreymisbrot upp á 10% og HbA1c upp á 20%.  Á mannamáli þýðir það að einungis 1/5 er eftir af eðlilegum samdráttarkrafti hjartans og að blóðsykurinn hefur að meðaltali verið um þrefalt hærri en eðlileg efri mörk undanfarnar vikur.

Konan á líklega afar stutt eftir og fyrir utan offitu er ástæðan að hún hefur ekki tekið nein lyf undanfarin ár.  Ástæðan þess er einföld, þrátt fyrir að hún hafi unnið fulla vinnu heila starfsævi þá sveik vinnuveitandinn að greiða tilskilin gjöld til sjúkratryggingakerfisins.  Því stendur hún nú uppi í ellinni án nokkurrar sjúkratryggingar og hefur einfaldlega ekki efni á að kaupa þau lyf sem hún þarf til að lifa lengur.  Þegar hún kemur inn á sjúkrahús við dauðans dyr fær hún hjálp, líkt og í nótt, en annars fá sjúkdómar hennar bara að hafa sinn gang.

Þessi saga er etv þarft innlegg, nú þegar rætt er um heima á Íslandi hversu ofsalega sniðugt sé að láta atvinnulífið taka þátt í sjúkratryggingum.   


OMG!

"OMG!  Look at this.  His TSH has gone down from 13 to 7 in just two days! This is so exciting!"

Ég er sem sagt kominn í mánaðarheimsókn í lyflækningar og ofangreint sagði 3. árs residentinn í lyflækningum orðrétt á fyrsta vinnudeginum þegar verið var að fletta upp niðurstöðum á blóðprufum. 

Með þessum ummælum rifjaðist upp fyrir mér af hverju ég missti áhugann á lyflækningum.


Fótosjopp keppnir eru endalaus uppspretta hugmynda.

Líkt og sjá má hér.

 

Keith-Richards--35000


Ef horfa á á morðsögu á annað borð er eins gott að fléttan sé almennilega flókin.


Iowa

Þegar ég keyrði þvert yfir BNA fyrir 5 árum heimsótti ég hið annars ágæta fylki Iowa.  Fræddi þá Þorvarður Hálfdanarson mig um að í þessu fylki gerðist aldrei neitt, hann hefði tvisvar vitað til þess að það hafi komist í heimsfréttirnar og bæði skiptin vegna fremur óvirðulegra atburða.

Þetta virðist ætla að staðfestast þessi jólin.


Gengur umferðin betur án umferðarreglna?

Líklega myndu flestir svara neitandi.  Í Þýskalandi og Hollandi hafa menn samt verið að gera tilraunir með að fjarlægja allar vegmerkingar, umferðarljós og umferðarskilti frá miðbæjum með þeim merkilega árangri að slysum snarfækkar.

Mér finnst samt sérkennilegt hvað umræðan fjallar lítið um að fækkun slysa sé líklega bara af því að breyta einhverju en ekki endilega betra kerfi.  Banaslys í íslenskri umferð hafa aldrei verið jafn fá og árið sem skipt var yfir í hægri umferð, ekki endilega af því að hægri umferðin sé svo mikið betri heldur einfaldlega vegna þess að allir voru á varðbergi.


Darwin stjórnar heiminum

372_12899360Nýlega las ég áhugaverða bók sem ber titilinn "Why beautiful people have more daugthers".   Þessi titill vísar til einni af fjöldamörgum staðreyndum um mannlífið sem bókin fræðir um, og fullyrðingin er sönn.  Þetta hljómar svo sem ágætlega fyrir þá sem eiga dætur, en gallinn er bara að greinda fólkið eignast frekar syni.  Tölfræðilega eru sem sagt auknar líkur á að ég sé fallegur en ekki sérlega greindur, ef horft er á afkvæmin.  En, eins og aldrei verður of oft tuggið, þá gildir tölfræðin um hópa en ekki á sama hátt um einstaklinga.

Í raun er bókin áhugaverð samantekt á þróun í sál-, mann-, félags-, atferlis-, erfða-, læknis-, líf- og öðrum fræðum þar flestir þræðir virðast liggja að því að hegðun mannsins sé að miklu leyti stjórnað af þróunarlögmálum Darwins, á sama hátt og hegðun allra annarra dýrategunda sem vappa um plánetuna jörð.   Þetta felur í sér að ef horft til meðfædda "forritsins" sem stýrir því að viðhöfum tvo handleggi, fótleggi og augu og allt annað í líkamlegu útliti okkar, þá mótar það einnig hegðun okkar.  Við höfum sannarlega sjálfstæðan vilja, en hann er líklega líkt og viljastýring öndunarinnar.  Við getum gripið inn í og haft áhrif á öndunina ef við viljum en þeirri líkamsstarfsemi er að miklu leyti stjórnað af undirmeðvitundinni.  Allir hafa líklega upplifað mátt þessarar stýringar á kynþroskaárunum þegar áherslur í lífinu gjörbreyttust, öllu stýrt af líkamsstarfseminni en mest lítið af viljanum.

Ef horft er á flesta eiginleika mannsins og hegðun hans virðist eiginlega allt sem viðkemur samskiptum kynjanna og óteljandi aðrir eiginleikar karla og kvenna miðast að því að koma genunum áfram til næstu kynslóðar.  Ein af lykilstaðreyndum sem bent er á er að konur "fjárfesta" mun meira í ávexti kynlífs en karlar.  Kona gengur með barn í 9 mánuði, fæðir með miklu erfiði og annast það næstu árin.  Í hæsta lagi getur kona eignast um 2 tugi barna en dæmi er um að karlmaður hafi komist vel á annað þúsundið.  Því er ekki óeðlilegt frá Darwinísku sjónarmiði að konur vandi valið mun betur en karlmenn gera þegar kemur að kynlífi.  Sem dæmi til að styðja þetta má nefna rannsóknir þar sem myndarlegur einstaklingur fór og spurði unga háskólanema af gagnstæðu kyni hvort þeir vildu koma upp á herbergi og njóta kynlífs - ekki ein einasta kona þáði þetta tilboð en 75% karlkyns nema neituðu ekki.

Einnig er rakið hvernig áherslur kynjanna í því hverju leitað er að hjá verðandi maka eru ólíkar, líkt og sjá má á þessari klámsíðu hér, sem er fullkomlega rökrétt þar sem meiri líkur eru á að umhyggjusamur karlmaður muni vernda afkvæmið og því koma genum konunnar áfram.

Fjölmargir aðrir punktar koma fram í bókinni sem eru aðeins minna augljósir.  Stelpur sem alast upp án föður á heimilinu eru líklegri til að byrja að stunda kynlíf ungar, líklega vegna þess að þær alast upp við að karlmenn og tækifæri til mökunar séu ekki traust.  Konur heillast að góðlegum og trygglyndum karlmönnum, nema þegar þær hafa egglos þegar smekkur þeirra breytist í að heillast meira að sterklegum karlmönnum, sem líklega er vísbending um að þær rækti samband við traustan mann til að annast börnin en séu líklegri til að halda framhjá honum til að eignast barn með sterkari gen - sem svo trausti maðurinn annast.  Karlmenn hafa meiri líkur á að koma genum sínum áfram ef þeir eru efnaðir, sem leiðir til meiri áhuga karlmanna en kvenna á veraldlegum eigum.  Grái fiðringur karlmanna hefur ekkert með þeirra eigin gráu hár að gera, heldur kemur fram þegar eiginkona þeirra hættir að hafa egglos og náttúran hvetur þá til að leita annað til að koma genum sínum áfram.  Lang flest menningarsamfélög jarðarinnar, og þar með talin hin vestrænu, stunda fjölkvæni ef horft er framhjá hvernig æskilegt er talið að sambönd þróist og í staðin hver raunveruleikinn er.  Og, síðast en ekki síst, rakið er af hverju fallegt fólk eignast um 60% dætur en 40% syni en gáfaða fólkið eignast börn í öfugum kynjahlutföllum.  

Bókin er áhugaverð en því miður ekki fullkomin.  Fyrir læknismenntaðan mann með botnlausan áhuga á eðli mannsins skín nokkuð fljótt í gegn að hún er skrifuð af sálfræðingum sem því miður hafa lítinn skilning á líffræði eða erfðafræði.  Þeir gleyma algerlega mikilvægi erfðafræðilegs breytileika, en án hans kemur úrkynjun í veg fyrir að gen lifi áfram.  Merkilegt dæmi um þetta atriði má sjá í fornmenningu Grænlendinga, en þar þótti eðlileg kurteisi að kona sængaði hjá gesti og að eiginmaður hennar annaðist öll börn hennar sem sín eigin.  Án þessa siðar, sem eflaust þykir ekki góður í augum allra í dag, hefðu einangraðar byggðir inuita eflaust liðið undir lok vegna úrkynjunar. 

Ef til vill eru þetta pælingar sem móðga einhverja.  Vera má að fólk sé fast í hugmyndum trúar, jafnréttisbaráttu eða annarrar hugmyndafræði og einfaldlega ekki tilbúið til að endurskoða líffsýn sína í ljósi staðreyndanna í bókinni.  Hún byrjar því á fyrirvara um að ef fólk ekki getur skoðað á hlutlausan hátt hvernig hlutirnir eru eigi þeir einfaldlega ekki að lesa hana.  

Þeir hinir sömu eru vinsamlegast beðnir að gleyma því að hafa lesið þennan pistil.  Ein af staðreyndum lífsins er einfaldlega að konur og karlar eru ekki eins og kominn er tími til að skoða þann mun með opnum huga.


Sjúklingur...

walking_the_dog_fitness... þjáist af offitu, eins og reyndar býsna margir hér um slóðir.  Hann er með of háan blóðþrýsting, of háar blóðfitur, kransæðasjúkdóm, sykursýki, nýrnabilun og hjartabilun með útstreymistbrot hjartans upp á 30% (eðlilegt amk yfir 50%).

Hann á líklega ekki nema fáein ár eftir ólifuð.

Sjúklingur er 33 ára gamall, fæddur árið 1974.  Hann hefur á síðari árum reynt að gera átak í að bæta heilsuna, en það er bara orðið of seint, líkaminn þegar hálf ónýtur og því miður er ekki hægt að fá nýjan.

Það er ekki furða að skynsamir stjórnmálamenn leggi áherslu á lýðheilsumálin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband