Laugardagur, 15. desember 2007
Gerðu það nú fyrir mig.
Gerðu það.
Horfðu á þetta myndband hér. Þetta tekur ekki nema nokkrar mínútur en framtíð okkar allra, og barna okkar og afkomenda þeirra og í raun lífsins alls á jörðinni hangir á að þessi boðskapur komist til skila.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 14. desember 2007
Kanar kunna ekki að deyja
Nýlega var Íslands sett í efsta sæti lista SÞ um lífsgæði þeirra þjóða sem eru núverandi íbúar þessarar jarðkringlu. Meðal margra þátta sem horft var til við gerð listans mun vera meðal ævilíkur einstaklinganna sem óvíða eða jafn vel hvergi eru meiri en á Íslandi.
Þetta er áhugavert ekki síst fyrir þær sakir að á Íslandi er fólki leyft að deyja í friði þegar tími þess er kominn. Hér vestra er þetta gert talsvert öðruvísi.
Fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér meðferð við lífslok sérstaklega er etv rétt að útskýra að á Íslandi er veitt öll sú meðferð sem skynsamlegt er talið að veita til að framlengja lífi. Fólk gerir sér hins vegar ekki alltaf grein fyrir að tæknilega er unnt að veita mun meiri meðferð en ef til vill er skynsamlegt að veita. Hér er ég að tala um t.d. einstakling með langt gengna heilabilun sem enginn hefur getað náð vitræu sambandi við um langan tíma og þjáist á hverjum degi af öðrum líkamlegum kvillum. Ef slíkur einstaklingur á Íslandi, sem er ekki talinn eiga nokkra von á að ná bata aftur, er hættur að geta nærst eða fær sýkingu er staðan rædd með ættingjum og viðkomandi yfirleitt einfaldlega leyft að deyja í friði.
Nýlega lést háöldruð amma mín við þessar aðstæður í friðsæld og þannig er ég sannfærður að rétt sé að standa að hlutunum. Þannig vil ég deyja þegar þar að kemur, sem vonandi verður samt ekki fyrr en eftir marga áratugi.
Hér í Ameríku er ég búinn að sjá að þetta er oft gert ansi hreint með öðrum hætti. Hér sé ég einstaklinga sem hafa verið týndir í heilabilunarþokunni árum saman en er samt haldið á lífi. Þeir eru ófærir um að drekka en er þá bara gerð skurðaðgerð og sett slanga inn í magann til næringargjafar. Þeir fá sýkingu í legusár og eru gefin sýklalyf í æð mánðuðum saman. Ef þeim hrakar enn frekar er síðan býsna algengt að farið sé í fulla gjörgæslumeðferð með öndunarvélum, skurðaðgerðum og öllu tilheyrandi. Ef þeir síðan taka upp á því að deyja er keyrt á fullar endurlífgunartilraunir með tilheyrandi hjartahnoði, rifbrotum og blóði. Ekki beinlínis friðsæl dauðastund þar.
Í æsku var ég í sveit hjá merkum gömlum bónda af torfbæjarkynslóðinni sem hægt var að læra margt af. Á efri árum sínum fór hann í heimsókn til kunningja síns sem var þá kominn á elliheimili og varð orðlaus af reiði eftir þá heimsókn. Eftir að hafa verið bóndi í hátt í heila öld og sinnt bústofni sínum sagðist hann aldrei hafa farið jafn illa með skepnur sínar og að halda lífi á þeim við þær aðstæður sem hann sá gert á elliheimilinu við mannfólk.
Eftir að hafa séð hlutina hér vestanhafs get ég ekki annað en verið sammála. Vissulega á að rækta lífið og hugsa vel um heilsuna og veita alla þá meðferð sem unnt er til að bjarga mannslífum. Sá dagur kemur samt alltaf að ekki er rétt að halda áfram, að ekki sé verið að bæta neinu við lífið heldur bara framlengja dauðanum.
Nú er það hins vegar ekki hlutverk læknis að ákveða þessa hluti. Okkur læknum ber siðferðileg skylda til að annast þá einstaklinga sem til okkar leita og framlengja lífi eins og unnt er nema sjúklingur eða ættingjar óska annars. Við getum hins vegar tjáð skoðun okkar á hvenær sé skynsamlegt að halda áfram og hvenær sé rétt að leyfa einstaklingnum að deyja í friði. Á Íslandi er þetta yfirleitt ekki vandamál, ættingjarnir eru nærstaddir og hafa fylgst með ástandi einstaklingsins og hægt er að ræða málin og komast að skynsamlegri niðurstöðu.
Vandamálið er hins vegar margþætt hér vestra. Ættingjar búa oft í öðru fylki og hafa etv samviskubit yfir að hafa ekki komið í heimsókn í 15 ár. Þegar háaldraður afi gamli fær svo heilablæðingu sem hefur eyðilagt nánast allan heilann og engin von til að hann vakni aftur, koma ættingjar fljúgandi og heimta að allt verði gert til að halda honum á lífi, etv að hluta til vegna eigin samviskubits. Einnig getur verið t.d. meðal einstaklinga í undirmálshópum þjóðfélagsins að þeir treysti ekki lækninum, haldi að hér eigi bara að láta afa gamla deyja af því að hann til heyrir undirmálshópi - því er þess krafist skilyrðislaust að allt sé gert til að framlengja dauðastríðinu.
Nei, ég hef tekið þátt í að gera óteljandi dauðastundir fólks óvirðulegar með fáranlegum tilraunum til að framlengja lífi sem á sér enga von og ég sannfærist alltaf betur og betur um hversu rangt slíkt er.
Fólk sem er útbíað í krabbameini og myndi njóta vandaðrar lífslokameðferðar á Íslandi er hér vestra keyrt um bæinn á bláum ljósum á bráðadeildir þar sem það er látið undirgangast kvalarfullar rannsóknir og jafn vel skurðaðgerðir í stað þess að fá að vera í friði og deyja í friðsæld.
Þegar ég var að ferðast á Grænlandi og ræddi við lækni í smábæ þar sagði hann mér frá því að það gerðist enn að aldraðir einstaklingar sem greindust með krabbamein neituðu að fara til Danmerkur til sérhæfðrar meðferðar. Þeir létu sig bara hverfa með því að ganga út á ísinn að gömlum og góðum sið. Þetta hljómar ef til vill nokkuð villimannslega, en ég er farinn að bera alltaf meiri og meiri virðingu fyrir þessu viðhorfi til dauðans. Þetta er amk heilbrigðara en margt sem ég hef séð gert hér vestra.
Það er alla vega fátt náttúrulegt eða virðulegt við óhóflega framlengt dauðastríð á hátæknisjúkrahúsi.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 11. desember 2007
Gunnar veitti breskum sérsveitarmanni höfuðáverka
"Það heppnaðist fullkomlega ætlunarverk mitt að veita breskum sérsveitarmanni vægan heilaáverka" - væri líklega rétt orðuð þessi frétt.
![]() |
Gunnar rotaði breskan sérsveitarmann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 12.12.2007 kl. 03:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 8. desember 2007
Hlustaðu á þessa bók
Mikið er sungið á Íslandi. Sjálfur er ég alinn upp við tónlist og hef varið um áratug syngjandi í ýmsum kórum og hélt að ég hefði kynnst þannig tónlistararfi íslendinga nokkuð vel.
Eftir að hafa verið dreginn á síðasta ári á þorrablót sem Sigurrós hélt í samvinnu við kvæðamannafélagið Iðunn opnuðust samt augu mín fyrir því að við íslendingar eigum okkur sérstaka sönghefð í stemmum, sem því miður er ekki hægt að segja að sé ríkur þáttur í þjóðarsálinni árið 2007. Flestir kannast svo sem við kvæðasöng, en fáa þekki ég sem geta kveðið með því lagi sem líklega gert hefur verið í þúsund ár hér á landi.
Ég hef nú varið nokkrum tíma í að hlusta á ýmsar útgáfur af stemmum og rímnalögum og ber sífellt meiri virðingu fyrir þessari sérstöku menningu. Stór hluti annarrar tónlistar sem sungin er hér á landi virðist stundum vera lítið annað en endurómun af því sem gert hefur verið í öðrum menningarsamfélögum. Í rímnalögum eigum við okkar sérkenni.
Annars er það ákveðin áhugaverð pæling varðandi okkar hornrétta vestræna nútímasamfélag af hverju nánast öll okkar tónlist byggir á 4/4 takti - einn, tveir, þrír, fjór. Tengingin við hornréttan kassa er augljós en í t.d. inverskri tónlist mun lagið byggjast á mun fleiri slögum og hugsunin meira sú að tónlistin byggi á hring en ekki kassa. Í rímnalögum er lítil sem engin virðing borin fyrir reglulegum takti en þeim mun meira fyrir hrynjanda ljóðsins. Í stað fjögurra slaga er hver staka flutt sem fjallganga, hægur stígandi framan af og rís upp um miðbikið en fjarar síðan hægt út í langan lokatón. Það þarf nokkra þjálfun til að geta sungið með þeim hætti.
Nú hafa þau Þórarinn Eldjárn og Bára Grímsdóttir gefið út bók sem ef til vill getur orðið mikilvægt skref í að endurvekja íslenskan kvæðasöng. Í bókinni Gælur, fælur og þvælur eru ný barnakvæði eftir Þórarinn í anda við fyrri bækur hans og sem fyrr er hún myndskreytt af Sigrúnu Eldjárn. Það nýja við þessa bók er að henni fylgir geisladiskur þar sem Bára kveður kvæðin með fornu íslensku lagi. Bókin er frábærlega skrifuð líkt og allar fyrri ljóðabækur fyrir börn sem Þórarinn hefur gefið út, en það hefur haft dáleiðandi áhrif á dóttur mína tveggja og hálfs árs að geta hlustað á Báru kveða ljóðin.
Af minni takmörkuðu þekkingu á stemmum að dæma hefur Bára leyst þetta verkefni með fullkomnum hætti. Eitt af því erfiða við að geta kveðið stemmur með réttum hætti er að þær virðast ekki eiga að fylgja nema að hluta til því sem kennt er í tónlistarskólum og almennt tíðkast í söng. Eftir að hafa prófað að kveða með öldungunum í Iðunni er augljóst að til að geta kveðið þarf að aflæra ýmsan ávana eftir þjálfun í hefðbundnum kórsöng. Áherslur og taktur er með allt öðru lagi. Of hámenntaður söngvari held ég því að ætti erfitt með að koma kvæðalögum rétt til skila en Bára kveður fallega og af fullkominni virðingu við rímnalagaformið.
Ef gera á kvæðasöng aftur að lifandi listformi hjá þjóðinni er líklega vænlegast að byrja á leikskólunum. Það hefur aðeins slegið mig við að fara yfir þau lög sem sungin eru á leikskólum í dag að tónlistarlega er þetta að mestu mikil flatneskja, eiginlega allt stöðluð 4/4 GCD lög. Ef farið væri að kynna séríslenskan kvæðasöng sérstaklega á leikskólum og tóneyra barnanna vanið strax við þennan forna söngstíl okkar Íslendinga væri hægt að leggja mikilvæga undirstöðu fyrir framtíðina.
Því hvet ég alla til að kaupa þessa bók og spila, lesa og syngja fyrir börnin.
Nánari upplýsingar um rímur má finna á síðu Kvæðamannafélagsins Iðunnar, www.rimur.is
Lifi stemmurnar!
Bloggar | Breytt 9.12.2007 kl. 02:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. nóvember 2007
Internetið er troðfullt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. nóvember 2007
Fyrstu kolefnishlutlausu þjóðir jarðar.
Nú hafa bæði Nýja Sjáland og Kosta Ríka lýst því yfir að þau stefni að því að verða kolefnishlutlaus eftir fáein ár. Í þessum ágætu löndum er vissulega viðurkennt að þeirra framlag eitt og sér muni ekki öllu breyta í heiminum, en þessar þjóðir ætla sér að sýna gott fordæmi og leggja sitt af mörkum.
Í báðum þessum löndum byggir raforkukerfið ekki mikið á brennslu kola og olíu og því er þetta talið gerlegt með tiltölulega litlum breytingum á samgöngukerfinu.
Í Þýskalandi er síðan verið að koma á kerfi þar sem bifreiðaeigendur verða skyldaðir til að merkja bíla sína eftir mengunarflokki, til stendur stendur síðan að banna umferð þeirra bíla sem menga meira á ákveðnum svæðum til að draga úr mengun.
Um allan heim virðast leiðtogar framsýnna þjóða vera að gera eitthvað róttækt í umhverfismálum, enda eigum við bara eina jörð, sem samkvæmt flestum vísbendingum virðist vera að fara í vaskinn..
Mikið getur maður verið stoltur, sitjandi í útlöndum að fylgjast með fréttum af framlögum Íslendinga til að bjarga heiminum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. nóvember 2007
Niðri í kjallara...
... á ég forláta Stradivaríussög. Reyndar er hún tannlaus en samt hið ágætasta hljóðfæri.
Ég þarf að fara að fá mér myrru og fara að æfa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. nóvember 2007
Ammríka
Þó það fari ljómandi vel um okkur hér í BNA og ég sé mjög ánægður með vinnuna, þjálfunina og það sem fékk mig til að flytja hingað er samt stundum eins og vissa hluti vanti.
Þegar heimalandið er yfirgefið til að búa í erlendu samfélagi um tíma á það eiginlega að vera ný lífsreynsla á sem flestum sviðum, að upplifa nýja hluti sem hægt er að læra af. Einn stærsti gallinn við amerískt samfélag fyrir Íslending er líklega hversu mikinn ofskammt af þessari menningu við erum búin að fá með uppeldinu. Amerísk tónlist, matargerðarlist, kvikmyndir, útvarp og margt annað er svo sem ekkert verra og að mörgu leyti áhugaverðara en meðal margra annara þjóða, allt þetta er bara orðið að gömlum tuggum fyrir okkur.
Þegar horft er á sjónvarpið, hlustað á útvarpið, farið út að borða kemur fátt á óvart, nema etv hversu ótrúlega bjánalegir þættir á borð við O´Reilly á FOX geta verið. Ef eitthvað er hefur sá hluti amerískrar menningar sem ratar heim til Íslands verið skárri hlutinn, draslið kemst ekki út fyrir mörk þessa stóra lands.
Gengdalaus sóunin á náttúruauðlindum sem viðgengst í þessari menningu, skilningsleysi almennings á öðrum þjóðum og fleiri viðlíka þættir er vissulega áhugavert að kynnast af eigin raun, en þetta eru ekki hlutir sem mann beinlínis langar til að tileinka sér.
Ef ég flyt einhvern tíma í annað land þar sem ekki verður lögð aðaláhersla á bestu menntunina verður amk valið menningarsamfélag sem er meira framandi en hið ameríska.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. nóvember 2007
Varúð
Þó ég sé læknir verð ég að viðurkenna að þessar myndir eru það furðulegar að ég á nokkuð erfitt með að horfa á hörmungina. Sjá myndbandið
Allt virðist vera til í heiminum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)