Föstudagur, 16. nóvember 2007
Slömm Íslands
Ég á ágætan kunningja sem er dósent í stjórnmálafræði í Boston. Hann hefur sérhæft sig í Norður Evrópu og einkum lagt sig eftir þróun hægriöfgaafla í stjórnmálalandslaginu.
Fyrir um ári síðan átti hann leið hjá Íslandi og kíkti í heimsókn. Til að sjá í þetta skiptið eitthvað annað en Bláa lónið og viðlíka fjölfarna túristastaði bað hann mig um að fara með sig í bíltúr út fyrir hefðbundnar túristaslóðir og skoða skuggahliðarnar af Íslandi, fátæktarhverfi, slömmið.
Satt að segja þurfti ég aðeins að hugsa mig um. Reyndar bjuggum við þá í hjarta miðbæjarins og þar er bý líklega einnig stór hluti ógæfumanna Reykjavíkur. En, ég hef alltaf viljað halda í þá trú að miðbær Reykjavíkur sé skemmtilegur og fallegur, því fórum við í bíltúr upp í Breiðholtið sem ég hef einhvern vegin alltaf verið á því að sé mesta slömmið.
Þegar við vorum komnir upp eftir fór kunninginn að hlæja. Þjóðfélag þar sem snyrtileg og falleg hverfi eins og Breiðholtið er talið á meðal verstu slömmanna hlýtur að vera gott þjóðfélag. Eiginlega alveg frábært þjóðfélag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. nóvember 2007
Timberlake hvað
Bloggar | Breytt 14.11.2007 kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 14. nóvember 2007
Óhagkvæmni stærðarinnar
Ég verð að segja að eftir að hafa búið í BNA í 5 mánuði og kynnst því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig er ég farinn að hafa minni trú á Evrópusambandinu. Ekki það að allt sé svo frábært hér, þvert á móti sýnist mér margt hér í landi í raun vera enn gert með gamla mátanum þó löngu sé búið að hugsa út betri leiðir. Það bara virðist ekki komast í verk að breyta.
Í litlu landi eins og á Íslandi er lítið mál að breyta hlutunum. Nóg er að tala við og sannfæra nokkra tugi manna hér á landi til að koma nýjum áherslum til skila hvað tæknileg mál varða. Ef fara þarf í efstu hæðir stjórnskipulagsins t.d. í heilbrigðiskerfinu getur almennur vinnumaur rætt við yfirlækninnn sem hringir í lækningaforstjórann sem getur talað beint við heilbrigðisráðherran sem getur komið breytingum í gegn.
Hér vestra í risaþjóðfélaginu er það svo tröllaukið verkefni að ná til allra sem þarf að sannfæra og að almennt virðist fólk bara ekki nenna að reyna, það sættir sig meira bara við að svona sé þetta gert hér í landi. Tröllaukið sameinað Evrópusamband hefur alla burði til þess að sama vandamál komi upp.
Lögmálið um hagkvæmni smæðarinnar virðist stutt af því að horfa á hvaða þjóðum virðist ganga einna best í Evrópu; Írlandi, Danmörku, Finnlandi og Lúxemburg auk Íslandi virðist ganga betur en stóru þjóðunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. nóvember 2007
Outrageous
Fjölmiðlar hér í BNA virðast stjórnast merkilega lítið af því hvað er að gerast eða hvað fræða þarf fólk um. Meginmarkmið stóru fréttamiðlanna virðist vera á að fjalla um það sem fólk langar til að heyra og finnst spennandi. Ef pönnukaka líkist óvart Maríu mey eða ef einhver villuráfandi unglingsstúlkan villist í peningum sínum og frægð er endalaust fjallað um það og frásagnir af því að kýr hafi fallið af himnum ofan er gott dæmi um hvað fjölmiðlarnir hér geta varið heilu fréttatímunum í að fjalla um. Nú áðan var löng frétt um karlkyns skólastjóra sem sást úti á götu klæddur í kvenmannsföt. Grey maðurinn segist hafa verið á leið á grímuball en verður víst ákærður fyrir "að hafa ætlað að stunda vændi". Merkileg lögfræði þar.
Fréttaskýringar um af hverju bil milli fátækra og ríkra eykst sífellt, umhverfismál, aðstæður ólíkra menningarheima og eitthvað sem skiptir máli fær yfirleitt fremur litla athygli.
Hlutdrægnin í fréttaumfjöllun getur einnig verið sláandi. Nýlega fjallaði CNN um frumvarp sem liggur fyrir fylkisþinginu í Massachusetts um að leyfa skráningu ólöglegra innflytjenda í umferðinni með fyrirsögninni "outrageous proposal".
Sem betur fer eru fjalla fréttamiðlar heima á Íslandi ekki enn um þingfrumvörp sem svívirðileg, sem er bein þýðing orðsins outrageous.
![]() |
Belja féll af himnum ofan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 31. október 2007
Halló vín
Nú er að líða að halloween hátíðinni hér vestanhafs. Eftir því sem mér skilst byggir þessi hátíð upphaflega á sviparði menningu í Mexíkó þar sem minning látinna er heiðruð með sérstökum viðbúnaði.
Hér í Ameríku er þetta aðeins öðruvísi, húsnæði er skreytt með ógnvænlegum hlutum sem minna eiga á dauðann og síðan er klætt sig upp í dauðatengda búninga. Í heild virðist þetta meira vera farið að minna á hryllingsmyndaþemapartí en virðingarathöfn við látina.
Krakkarnir fara síðan í búningum sínum og ganga í þau hús þar sem ljósið er kveikt og biðja um nammi. Eitthvað hef ég heyrt um að það komi fyrir að krakkar sem ekki fá neitt nammi í húsum taki sig þá til og hendi eggjum í húsið.
Þetta er þá í raun farið að minna merkilega mikið á aðra starfsemi fullorðinna, þ.e. að mæta ógnvekjandi í heimsóknir í hverfinu og krefjast greiðslu en valda tjóni ef neitað er að greiða.
Er þetta mafíuuppeldi?
p.s. einhvern tíma á menntaskólaárum heima á Íslandi var nú reynt að halda daginn hátíðlegan undir yfirskriftinni Halló vín, það var amk ekki leiðinlegt framtak.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. október 2007
Kann einhver að barkaþræða?
Ég hef víst nefnt það áður að hér í Ameríku er að finna allt það besta og það versta í heiminum. Það sama á við um sjúkrahúsin, gríðarlegur munur getur verið á gæðum þjónustunnar. Stóru kennslusjúkrahúsin eru líklega öll með vandaða þjónustu en á smærri sjúkrahúsum geta gæði þjónustunnar verið afar misjöfn.
Nýlega var einn af sérfræðingum okkar deildar staddur með eiginkonu sinni til skoðunar á litlum spítala í útkanti fylkisins. Á meðan þau voru að bíða eftir röntgenmyndum af konunni heyra þau kallað í hátalarakerfinu á sjúkrahúsinu:
"Ef einhver er staddur á sjúkrahúsinu sem kann að barkaþræða er hann vinsamlegast beðinn um að koma strax á bráðadeildina".
Þessi beiðni er ekki ósvipuð því ef strætóbílstjóri kallaði aftur í vagninn hvort einhver kunni að skipta um gír.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 26. október 2007
MRSA - Superbug!
Hér vestra er allt að verða vitlaust vegna andláts nokkurra krakka úr MRSA-sýkingu. Þessar sýkinga eru af völdum þeirrar bakteríu sem nefnd hefur verið MÓSA á íslensku - methisillín ónæmur Stafýlókokkus aureus og hefur um alla tíð verið ein algengasta orsök húðsýkinga, ekki síst eftir aðgerðir. Eftir mikla og á stundum óskynsamlega notkun sýklalyfja hafa nú komið fram afbrigði bakteríunnar sem bæði eru ónæm fyrir þeim sýklalyfjum sem hingað til hafa verið notuð til að drepa hana og virðist einnig valda skæðari sýkingum.
Þessi þróun hefur átt sér stað hér árum saman en er loksins að komast upp á yfirborðið hér í fjölmiðlum. Eins og venjulega er hins vegar fréttaumfjöllunin í þessu landi að mestu leyti tóm múgæsing og þvæla, lítið sem ekkert er gert til að útskýra fyrir fólki um hvað sé að ræða.
Það hefur hins vegar ekki farið hátt að heima á Íslandi þar hefur verið unnið mjög öflugt starf til að verjast mósanum undir forystu smitsjúkdómalækna. Þrátt fyrir að mósinn sé kominn út um allt hér vestra má heita að hann sé ekki til á Íslandi, ekki einu sinni á sjúkrahúsunum sem öllu jöfnu eru hreiður ónæmra baktería.
Allir sem koma á sjúkrahús á Íslandi eru spurður hvort þeir hafi komið á sjúkrahús erlendis síðustu mánuðina, og ef svo er fara þeir í einangrum þar til búið er að athuga hvort þeir beri bakteríuna sem venjulega tekur tvo daga.
Í ljósi þess að hér vestra voru menn að vakna upp við þann vonda draum að MRSA sýkingar valda nú dauða um 19.000 árlega, fleiri en HIV, þá er það glæsilegur og virðingaverður árangur sem náðst hefur á Íslandi að við séum enn laus við þennan skaðvald. Miðað við stærð landanna mætti búast við að 19 manns létust árlega á Íslandi væri mósi jafn algengur þar og hann er hér í BNA.
Enn eigum við samt sýklalyf sem drepa MRSA, en enginn veit hversu lengi það endist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 23. október 2007
Hlutverk botnlangans
Undanfarið hefur ansi mikið leitað á mig þessi frétt um að menn hafi verið búnir að átta sig á hlutverki botnlangans í mannslíkamanum. Þessi gamla ráðgáta, sem ég man að ég var að velta fyrir mér strax sem krakki er eitthvað sem hefur þvælst ótrúlega lengi fyrir mannkyninu. Í raun var þetta ein af stóru óleystu gátunum í læknisfræðinni, enda fá líffæri eftir sem menn í raun höfðu ekki hugmynd um til hvers náttúran hafði í okkur.
Helsta kenning sem ég man eftir að hafa heyrt hingað til var að botnlanginn væru þróunarfræðilegar leifar líffæris sem dýr í keðju forfeðra okkar hafi þurft á að halda. Ég hafði heyrt að kanínur væru með botnlanga og notuðu hann. Mikið meira var víst ekki vitað.
Nú hafa sem sagt komið fram menn fyrir nokkru sem telja sig hafa fundið út að hlutverk botnlangans sé að varðveita sýnishorn af eðlilegri flóru risilsins. Eins og líklega flestir vita byggir eðlileg starfsemi ristilsins á að í honum sé rétt flóra af bakteríum, við sýkingar eða bólgu í ristlinum getur óeðlileg ristilflóra orðið lífshættulegt vandamál. Meira að segja getur komið upp sú staða að besta lausnin til að leysa úr vandamáli sjúklings sé að framkvæma "fecal transplant", þ.e. að láta hann borða saur frá einstaklingi með eðlilega flóru. Eins og gefur að skilja getur læknir þurft að beita nokkrum sannfæringarkrafti til að fá sjúkling til að undirgangast meðferðina.
Ég er ekki búinn að leggjast yfir hvort menn hafa komið fram með einhverjar sannanir á þessari kenningu, en ég get ekki annað en dáðst að einfaldleika hennar. Það liggur í augum uppi að sýnishorn af eðlilegri bakteríuflóru geti verið geymt í botnlanganum og þannig bjargað lífi.
Eiginlega er ég aðeins svekktur yfir að hafa ekki látið mér detta þetta í hug.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 22. október 2007
Næturstofugangar
Í síðasta mánuði vann ég á skurðdeild. Þar með var ég kominn inn í vinnuumhverfi skurðlækna hér í landi sem byggir vægast sagt ekki á mikilli virðingu fyrir þörfum mannslíkamans.
Hér í BNA eru í gildi lög um 80 klst hámarksvinnuviku lækna, en á slysaskurðdeildum er leyft að fara upp í 88 klst og það hámark er ekki alltaf virt. Venjulegur dagur er frá 5 að morgni og til um 5 síðdegis en um 3-4 hvern dag er síðan unnið frá 5 að morgni til hádegis daginn eftir. Sólarhringsvaktir eru svo sem ekki alvondar, þær geta verið ágætt vinnufyrirkomulag ef hafa þarf nauðsynlegan viðbúnað í húsi en sjaldnast að gera mikið. Þær eru hins vegar út í hött ef öllu jöfnu þarf að vinna samfellt í 30 klst, líkt og þarna þyrfti að gera.
Ég er amk ánægður að hafa ekki farið í skurðlækningar eftir þennan mánuð. Því miður eiga nánast allir þeir læknar sem ég vann með á þessari deild það sameiginlegt að vera einstaklega óhamingjusamir einstaklingar. Það eru vissulega til stöku menn sem geta lifað góðu lífi, en eiginlega allir þessir einstaklingar voru augljóslega búinr að vinna allt of mikið allt of lengi. Enginn getur ræktað sjálfan sig og fjölskylduna með þessu vinnuálagi
Látum svo sem vera að þetta sé ill meðferð á læknum, verst er að kröfurnar gera það að verkum að illa er farið með sjúklingana. Venjulegur dagur er þannig að deildarlæknar koma til vinnu um kl 5 og byrja þá að ganga stofugang á sína sjúklinga. Klukkan 7 er síðan fundur þar sem farið er yfir ástand dagsins með sérfræðingnum og ákveðið hvað gera skuli yfir daginn fyrir hvern og einn sjúkling.
Það fáranlega við þetta er að enginn getur gengið stofugang og kynnt sér í smáatriðum ástand 10 fárveikra sjúklinga á 2 klst að einhverju viti. Til þess að þetta gangi upp byrja læknarnir á sólarhringsvaktinni því venjulega að ganga stofugang upp úr miðnætti og eru síðan að ganga á milli sjúklinga alla nóttina, að vekja þá til að spyrja hvernig hægðir, verkir, svefn og önnur einkenni eru og framkvæma daglega líkamsskoðun.
Ímyndið ykkur að liggja fárveik á sjúkrahúsi, að reyna að safna kröftum til þess að berjast við sjúkdóminn, og að vera síðan vakin nokkrum sinnum um nóttina.
Vissulega lítur þetta allt vel út hvað varðar skýrslugerð um sjúklingana og afköst. Þetta þykir mér samt ill meðferð á sjúklingum.
Bloggar | Breytt 16.11.2007 kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 21. október 2007
Fíkniefnið áfengi
Í því fylki sem við búum í BNA er mikið frelsi á áfengissölu. Í ýmsum fylkjum hér vestra er reynt að sporna gegn skaðlegum samfélagslegum áhrifum áfengis með því að heimila sölu áfengis einungis í sérstökum áfengisbúðum en ekki almennum matvöruverslunum líkt og gert er hér.
Ekki að við á þessu heimili séum að nálgast skaðleg mörk í áfengisneyslu, en hér er hið minnsta notað tvöfalt meira af áfengi en heima á Íslandi. Af nokkurra mánaða reynslu er ljóst að það hefur veruleg áhrif á áfengisnotkunina að hægt sé að grípa áfengið með mjólkinni þegar skroppið er út í búð.
Merkilega margir þingmenn virðast líta á það sem eitt mikilvægasta málefni íslenskra þjóðmála að koma áfengi í matvöruverslanir, í fullkominni afneitun um þau geigvænlegu samfélagslegu áhrif sem sú breyting mun líklega hafa. Flestir munu hafa stjórn á sinni neyslu líkt og áður, en neyslan mun án nokkurs vafa aukast. Fyrir þá sem eru veikir fyrir áfengisdjöflinum mun það þýða að þeir ánetjast áfenginu með tilheyrandi skaðlegum áhrifum á heilsu, efnahag, fjölskyldu og lífið allt. Ef áfengisvandamál á heimilum eykst þó ekki sé nema um fáein prósent getur þessi ákvörðun t.d. orðin ein sú versta fyrir börn á Íslandi sem tekin hefur verið. Enginn getur fullyrt að þetta muni gerast, en því miður bendir flest til þess.
Ég vil amk halda óbreyttu núverandi kerfi á sölu fíkniefnisins áfengis. Óteljandi mál eru brýnni fyrir metnaðarfulla þingmenn til að vinna að.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)