Miðvikudagur, 17. október 2007
Dr M.M.
Hér í þjálfun eru í þjálfun með okkur nokkrir læknar frá ameríska sjóhernum. Þeir starfa að mestu leyti á sjúkrahúsum hersins en vinna nokkra mánuði á stærri borgaralegum sjúkrahúsum til að fá víðtækari reynslu.
Meðal þeirra vann ég með Dr M.M. sem skráði sig ungur í herinn og fór til Írak sem kafari í sérsveitum. Eftir það fór hann í læknanám á vegum hersins og fór síðan aftur út sem læknir. Hann hefur mikið álit á hernum og talaði fjálglega um hversu gott lífið væri í þessum alltumlykjandi faðmi. Dr M.M. er einlægur repúblikani.
Ég hafði eiginlega ekki áttað mig á því að hversu miklu leyti herinn hugsar um sitt fólk. Hermenn búa með fjölskyldu sína í húsnæði hersins, fara í skóla og fá alla heilbrigðisþjónustu á vegum hersins. Í staðinn gefa þeir upp frelsi sitt, herinn hefur heimild til að gera hvað sem er við þá, jafnvel að senda út í opinn dauðann.
Fróðlegt var að heyra álit Dr M.M. á írökum. Hann sagðist hafa haft nokkra samúð með þeim í fyrri ferðinni, að þá hefði verið einhver lýðræðisþróun í gangi og að þeir hefðu verið að reyna að bæta heiminn.
Í seinni ferðinni sagðist hann alveg vera búinn að missa álit á þessu pakki, írökunum. Þetta væru menn sem kúguðu konur sínar og væru bara almennt vitleysingar og nánast einskis virði.
Hvernig annars viðkunnalegur maður og hámenntaður í eðli mannsins getur verið jafn blindur á aðstæður ólíkra menningarheima er ofar mínum skiliningi. Hugtakið um þjóðhverfan hugsunarhátt er líklega ekki kennt mikið í skólum/heilaþvottarstofnunum hersins.
Furðulegt er einnig að heyra ungt fólk hér ræða um það sem ágætan valkost í lífinu að fórna frelsi sínu og skrá sig sem handbendi Bushklíkunnar. Þegar horft er yfir afrek hersins hér í landi á síðustu öld virðist því miður sem herinn hafi verið meira upptekinn við að kremja lýðræði fyrir auðræðið, frekar en að berjast fyrir frelsinu.
Ekki ætla ég amk að skrá mig sem herlækni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. október 2007
Pain 10/10
Þegar verið er að meta verki sjúklinga er oft notaður mælikvarðinn 1 til 10. Markmiðið er að 1 eigi að vera óþægindi en 10 eigi að vera versti hugsanlegi verkur - báðir fætur sargaðir af.
Heima á Íslandi er þetta yfirleitt mjög góður mælikvarði, fólk virðist gefa skynsamlega tölu sem samræmist útliti og ástandi einstaklingsins. Hér í BNA er þetta nokkuð ólíkt.
Svo algengt er að fólk gefi upp við komu að verkir séu 10 af 10 mögulegum en situr síðan spjallandi í mestu makindum, að hér erum við eiginlega löngu hætt að taka mark á þessum mælikvarða. Helst er hægt að nota kvarðann til að meta árangur verkjameðferðar, hversu mikið talan lækkar eftir gjöf verkjalyfja.
Erfitt er að átta sig með vissu á því hvað veldur þessu. Einna líklegast finnst mér að lægri þjóðfélagshópar vilji tryggja að einkenni þeirra séu tekin alvarlega með því að gefa upp háa tölu.
Þetta er reyndar nokkuð alvarlegt mál, ef fólk gefur upp meiri verki en það raunverulega er með eykur það líkurnar á að rannsóknir svo sem tölvusneiðmyndir, speglanir og jafnvel skurðaðgerðir eru framkvæmdar að óþörfu, sem allt getur verið skaðlegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 15. október 2007
Kominn tími til að hætta?
Ökumaður um áttrætt keyrði yfir gangandi vegfaranda hér nýlega. Hörmulegt slys og konan sem keyrt var yfir slasaðist nokkuð.
En, af því að hinn aldraði ökumaður var ekki alveg viss á því hvað gerðist stoppaði hann og bakkaði til að athuga hvað gerðist - og ók þá aftur yfir konuna.
Sorglegt er það ef ökumannsferill endar með svona atburði. Aldraðir ættu sjálfir að hafa frumkvæði að því að láta meta ökuhæfni sína og hætta áður en svona nokkuð gerist.
Í raun er það ástæða til að fagna og halda veislu ef ökumaður hættir að keyra eftir 60 ára akstur án stórslysa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 13. október 2007
Mikið ert þú ungur
Mikið skelfing er offita erfiður sjúkdómur. Nýlega sinnti ég konu sem var um 200 kg og líkami hennar var allur að gefa sig. Hún var komin með háþrýsting, nýrnabilun, sykursýki og hjartabilun, allt vegna gríðarlegrar offitu. Offituaðgerð gæti líklega bjargað henni, en annars er ólíklegt að hún lifi nema í hæsta lagi fáein ár í viðbót - ef hún fær góða almenna læknisþjónustu. Skortur á sjúkratryggingu getur hins vegar komið í veg fyrir að hún fái nokkra þjónustu að viti.
Það fyrsta sem hún sagði við mig þegar ég heilsaði var "you are so young". Reyndar lít ég út fyrir að vera allt annað en unglegur þessa dagana með bauga undir augum af barna-/vinnusvefnleysi en líklega lít ég unglega út samanborið við þessa konu. Í árum talið er hún ekki nema 39 ára - 4 árum eldri en ég - en vegna offitunnar er hún líffræðilega a.m.k. tvöfalt eldri en ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 10. október 2007
Stop Bush
Sem betur fer eru fjölmargir hér í BNA sem ekki eru hrifnir af forsetafíflinu og vinum hans sem stjórna enn landinu. Margir eru að telja niður til 20. janúar þegar stjórnardögum hans lýkur.
Hér í því stórgóða hverfi þar sem við búum hefur einhver tekið sig til að krotað á stöðvunarskyldumerkin eins og sjá má á myndinni.
En, eins og ég hef bent mönnum á þegar þeir spyrja um hvað okkur í Evrópu finnst um Bush, hann er líklega ekki eins slæmur og Hitler var.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 9. október 2007
Notkun tímans
Meðallíf íslendings er um víst eitthvað um 6-700.000 klukkustundir.
Hvernig við verjum þeim tíma fer eftir
Af því sem við notum þessar klukkustundir er hægt að greina lífinu í tvo flokka, það sem skilur eitthvað eftir sig og það sem er bara afþreying.
Í raun hef ég aldrei skilið fyrirbærið afþreyingu, umræðu um nauðsyn þess að hafa eitthvað til að drepa tímann. Tíminn drepur okkur öll fyrr en flestir átta sig á.
Eitt af því sem getur verið gefandi við að umgangast sjúklinga er að margir þeirra skilja þessa hluti mæta vel. Þeir hafa ekki áhuga á að drepa tímann heldur njóta oft hverrar stundar sem þeir enn eru á lífi.
Ég hef verið nokkuð hugsi um hvernig skuli flokka tímanum sem varið er á netinu. Vissulega má finna ótrúlega fræðandi netsíður.
En, viðurkenndu það bara, stærstum hluta tímans sem þú notar þú til að hanga á netinu fer í eitthvað þessu líkt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 8. október 2007
Kólumbusardagurinn
Í dag er almennur frídagur hér vestra, dagur til heiðurs Kristófer Kólumbus.
Á virðingarstað í Washington er að finna stóra styttu af Kólumbusi, ekki ólíkri styttunni af Leifi okkar heppna á Skólavörðuholti. Aftan á henni er ferðalagi hans vestur um haf lýst með orðunum:
"...gave to mankind a new world"
Því miður er þetta sjónarmið ennþá líklega ríkjandi hér í landi. Lítið er horfst í augu við að skottúr hans yfir hafið hafi markað upphafi að ráni þessa lands frá réttmætum eigendum þess indjánum, sem virðast samkvæmt minnisvarðanum ekki teljast til mannkyns. Koma Kólumbusar var einnig upphafið að líklega stórkostlegustu umhverfisspjöllum í sögu jarðarinnar í þessu annars fallega landi.
Ég fer að komast alltaf meira á þá skoðun að það hafi verið skynsamlegt hjá Leifi okkar að ekki bara finna ameríku heldu að hafa vit á að týna henni aftur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 5. október 2007
Fjölgunarþörfin
Allir hafa ákveðnar þarfir sem þarf að fullnægja. Næring og svefn eru líklega augljósustu dæmin, en ég er á því að rétt sé að skilgreina þarfir fólks víðar.
Hér úti hef ég nýlega rekist á tvö dæmi um hversu þörfin fyrir að fjölga sér, að ala af sér afkvæmi, getur verið gríðarlega sterk. Nýlega heyrði ég af konu með ALS, taugahrörnunarsjúkdóm sem dregur í flestum tilvikum til dauða innan fárra ára. Hún var lögð inn á sjúkrhús vegna öndunarbilunar og er nú á öndunarvél þar sem hún hefur ekki kraft til að anda sjálf fyrir sig og barnið.
Einnig var fyrir um ári síðan kona sem var nýrnaþegi og hafði orðið ófrísk gegn ráðleggingum lækna. Henni tókst reyndar að ala af sér barn, en með því gjaldi að hún lá í heilt ár á sjúkrahúsi, mestan hluta þess tíma á gjörgæsludeild. Nýrað gaf sig og á endanum þufti hún að fá nýtt nýra.
Þrátt fyrir að hafa legið nánast við dauðans dyr í heilt ár vegna meðgöngu kom hún nýlega aftur til læknisins með jákvætt þungunarpróf og vildi ganga með og eiga barnið, þó allt bendi til þess að hún muni ekki lifa það af.
Það virðast engin takmörk fyrir því hvað konur eru tilbúnar til að leggja á sig til að koma genum sínum áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. október 2007
The Ukulele Orchestra of Great Britain
Uss, það eru víst orðin 5 ár síðan ég keypti mér ukulele, sem því miður hefur bara hangið til skrauts á veggnum síðan.
Þarf að fara að ná tökum á þessu snilldarhljóðfæri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)