Krónulufsan

Ég veit ekki alveg með þetta ævintýri að taka lán upp á hundruð milljarða til að geta fleytt krónunni aftur í notkun.  Þó ég sé ekki hagfræðingur veit ég bara að ef ég ætti pening til að geyma til efri ára myndi ég reyna að notast við eitthvern annan gjaldmiðil en íslensku krónuna. 

Fyrst venjulegur borgari frá Íslandi treystir ekki krónunni er þá eitthvað líklegra að fjárfestar geri það?


Leynifélag Obama

Samsæriskenningasmiðir eru alltaf spenntir fyrir að heyra sögur af leynifélögum og bræðralögum sem æðsti stjórnendur heimsins tilheyra.  Allir vita að bjáninn Bush er meðlimur Skulls and Bones bræðralagsins og eflaust eru mörg slík leynifélög starfandi.

Nú er komið upp úr kafinu að Obama er einnig meðlimur bræðralags.


Zeitgeist

Jæja Davíð, loksins kom ég því í verk að horfa á myndina Zeitgeist sem þú bentir mér á fyrir nokkru.  Þú hefur rétt fyrir þér, þetta er mynd sem allir þurfa að sjá.  Fyrir þá sem ekki þekkja þá fjallar þessi mynd um í raun þrjú brennandi heit samtímamál sem sennilega snerta alla jarðarbúa, trú, stríð og hagfræði.

Því miður er ekki hægt að kalla myndina almennilega heimildarmynd, heldur er hún augljóslega framleidd af fólki sem tilheyrir flokki samsæriskenningarsmiða - conspiracy einstaklinga.  Á köflum fer hún talsvert aðeins yfir strikið í því að skrifa slæma þróun á reikning Dr Evil sem á að vera að spila með okkur.  Í heild bara eru svo margir punktar sem fram koma í myndinni og fólk er almennt ekki meðvitað um að jafnvel þó ekki nema helmingur þeirra sé sannur mun myndin samt breyta heimsmynd þeirra sem á hana horfa.

Myndina Zeitgeist er hægt að horfa á frítt hérna að neðan og ég skora á þig sem þetta lest að sjá hana.


Bananalýðveldið Ísland

Góð lýsing á því hér.

Versti staður jarðarinnar

slot-machines-0408.jpgÍ annað skipti ævi minnar hafa örlögin dregið mig til Las Vegas.  Í fyrra skiptið leit ég þar við í eina nótt fyrir 6 árum síðan á bílferð þvert yfir BNA og sú heimsókn dugði mér alveg, ég ætlaði mér aldrei að koma þangað aftur.

Um daginn þurfti ég svo að fara til þessarar skelfilegu borgar í fjóra daga til að sitja námskeið í sérhæfðri meðferð öndunarvega.  Sem betur fer var námskeiðið frábært og ég hafði stórskemmtilegan ferðafélaga sem gerði þetta allt bærilegra, en ég sannfærðist endanlega um álit mitt á Las Vegas.

Fyrir þá sem ekki hafa komið þangað, þá er Vegas orðin býsna stór borg með yfir hálfa milljón íbúa.  Ferðamennirnir heimsækja borgina eru um 40 milljónir árlega og þeir verja að meðaltali 13 klst og 600 USD í fjárhættuspil.  Hvert og eitt hótel er með hundruðir eða þúsundir spilakassa á jarðhæð sem flækjast þarf framhjá til að komast inn á herbergin.  Hótelin eru síðan flest byggð með eitthvað ákveðið þema, sem yfirleitt er bjánahrolls stæling á öðrum menningarheimi.

Ekki er ég trúaður maður, en ég er samt á því að hin ævaforna speki um dauðasyndirnar sjö sé ekki svo vitlaus.  Las Vegas er líklega stærsta mursteri jarðarinnar þar sem dauðasyndin græðgi er beinlínis dýrkuð.  Þarna sitja á hverjum tíma tugþúsundir með steinrunninn dauðafíkla svip í andlitinu, yfirleitt reykjandi og drekkandi yfir spilakassanum með fjarlæga von um að verða ríkir.  Ómerkilegri sóun á þeim takmarkaða tíma sem við höfum til að lifa lífinu er vart hægt að hugsa sér.

Ef eitthvað er þess virði að gera í Vegas er það sennilega að fara á sýningarnar, því miður höfðum við ekki hugsað fyrir því en panta þarf miða með löngum fyrirvara.  Hægt er að fá góðan mat þarna, en hann er hins vegar mjög dýr og því betra að borða vel í flestum öðrum borgum.

Eitt það sorglegasta við heimsóknir ferðamanna til Vegas er að allt í kring eru margir af stórfenglegustu náttúruperlum jarðarinnar.  Yosemite, Grand Canyon, Bryce, Zion, Arches, Death Valley eru bara stærstu nöfnin, svo eru smærri undur sem leynast víða.  En, þessir staðir eru ekki jafn vinsælir og Vegas.  Í stað þess að njóta náttúrunnar fer fólk frekar til Vegas þar sem allt snýst um pissukeppni í að sóa orku og náttúruauðlindum eins stórkostlega og hægt er.  Sækir frekar í musteri til heiðurs eyðileggingar náttúrunnar.

Vonandi þarf ég aldrei að fara aftur til Las Vegas, verstu borgar jarðarkúlunnar.


IMF

Í tilefni þess að flestir á Íslandi virðast nú bíða spenntir eftir því hvort IMF ætli að veita þjóðinni stórlán rifjaðist upp fyrir mér þetta viðtal hér.  Þar segir John nokkur Perkins frá störfum sínum árum saman í þágu ameríska heimsveldisins og hvernig hann sinnti því hlutverki að múta eða hóta ráðamönnum í fjöldamörgum ríkjum til þess að bandarísk fyrirtæki fengju að arðræna náttúruauðlindir landanna.  Að mati Perkins er það fyrst og fremst þessi starfsemi sem hefur byggt upp auð bandaríkjamanna.

Starf hans fólst beinlínis í því að heimsækja nýkjörna valdamenn og bjóða þeim gríðarleg auðæfi fyrir samstarf.  Ef þeir ekki féllust á málið komu síðan alvöru hit-men in og stútuðu viðkomandi, eins og hann fullyrðir að hafi verið örlög forseta Ekvador og Panama og svo síðar Saddam Hussein.

Samkvæmt Perkins hefur síðan hlutverk IMF verið að miklu leyti að stunda sama arðránið, bara með aðeins fíngerðari hætti.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var í því hlutverki að boða fagnaðarerindi óheftrar frjálshyggju, að sannfæra ráðamenn fátærka ríkja til þess að taka gríðarleg lán og fjárfesta í stóriðju.  Af einhverjum ástæðum var síðan venjulega fjárfest í bandarískum fyrirtækjum sem þá fengu beinan aðgang að því að arðræna þjóðirnar.   Oft fólst þróunaraðstoð IMF bara í því að peningar voru færðir milli reikninga í Washington, en reikningurinn sendur fátæklingunum.

Kenningin um að fyrst yrði að koma á fót öflugum ríkum fyrirtækjum og að síðan myndi auðurinn dreifast niður til fátæka fólksins er sennilega ein af stærstu mýtum frjálshyggjunnar.  Þeim löndum þar sem lögð hefur verið áhersla á að mennta fátæka fólkið og skapa því tækifæri hafa spjarað sig best.

Eitthvað virðist IMF hafa breyst á síðari árum.  Ég er samt aðeins smeykur um hvað verður um yfirráð náttúruauðlinda Íslands.  Eflaust eru þær á óskalista margra stórfyrirtækja sem hafa engan áhuga á að þessir peningar verði eftir á Íslandi.

 

 

 

>

Eymingja Dr H

Þennan mánuðinn vinn ég á slysaskurðdeild þar sem ég vinn að mestu með læknum að læra skurðlækningar.  Því miður er ekki hægt að segja að það sé sérlega glaðlegur hópur.

Gott dæmi um þetta er Dr H sem var með mér á vakt síðustu nótt.  Á skurðdeildinni gengur lífið þannig fyrir sig að mætt er í vinnuna yfirleitt milli 4 og 5 að morgni til að byrja morgunstofunganginn.  Á stuttum vinnudögum er farið heim síðdegis um kl 5, en þriðja hvern dag þarf að vinna áfram til hádegis daginn eftir, í um 30 klst.  Venjulega er ekkert sofið á þessum tíma.

Sem betur fer eru það bara fáeinir mánuðir sem ég þarf að vinna svona, en Dr H var að útskrifast sem læknir s.l. vor og er nú búin að vinna svona nokkra mánuði.  Í nótt var sérfræðingurinn að pína hana, smávægileg mál komu upp sem betur mátti fara og hún var orðin gjörsamlega úrvinda af þreytu.  Aftur og aftur sagði hún "I hate my life".

Ég get haldið þessa vinnu út í nokkrar vikur, áður en aftur er farið í eðlilegri bráðdeildarvinnutíma.  Að vinna 30 klst vaktir þriðja hvern sólarhring í 5 ár líkt og skurðlækninganemarnir hér gera myndi ég ekki nenna að leggja á mig, og líklega ekki halda út þó ég reyndi.

Eitt það versta fyrir þessa nema hér er að þeir hafa í raun varla aðra valkosti en að halda áfram.  Dr H sagði mér að hún skuldaði nú um 300.000 USD.  Ef hún hættir fær hún ekki vinnu með 800.000 USD á ári og væri því í eilífð að endurgreiða lánið.

Hún er föst í þrældómi og á eflaust eftir að festast með sama þreytusvipinn í andlitinu og flestir skurðlæknar í þessu landi. 


Að kjósa forsætisráðherra

Allur heimurinn er líklega búinn að fá gleðifréttirnar héðan frá BNA, að Obama hafi unnið kosningarnar.  Heimurinn er breyttur og sjálsmynd þessarar þjóðar hefur breystu verulega við þennan atburð.  Hér í Virginíu er ekki lengra síðan en svo að aðskilnaðarstefnan var afnuminn að gamla fólkið fæddist inn í þennan heim.  Þessi kosning mun breyta miklu, þó ekki sé fyrir annað en sjálfsmynd hörundsdökkra.

Ég er annars ekki alveg viss um að allir heima á Íslandi átti sig á því hvernig stjórnkerfið hér úti virkar, en forseti BNA hefur í raun svipuð völd og forsætisráðherra og forsetinn á Íslandi hafa í sameiningu.

Forsetinn er kosinn af þjóðinni og hann setur síðan saman ríkisstjórn, handvelur ráðherrana til að taka við ráðuneytum og embættum.  Því til viðbótar hefur hann heimild til þess að beita neitunarvaldi gegn lögum þingsins, en þá þarf aukinn meirihluta til þess að þau öðlist gildi.

Ég er farinn að hallast að því að þetta sé afar skynsamlegt fyrirkomulag.  Á Íslandi er bara kosið til þings, en það hver fer með framkvæmdavaldið er bundið hreppapólitík stjórnmálaflokka.   Framkvæmdavaldið skipar síðan dómara, og þannig er í raun bara kosið um einn þátt hins þrískipta valds.  Þetta hefur leitt til þess að alþingi Íslands hefur þróast í valdalitla afgreiðslustofnun fyrir of valdamikla ráðherra sem skrifa frumvörpin og ráða of miklu um afgreiðslu þeirra.  

Hér með vil ég leggja til að stjórnarskrá Íslands verði breytt á þann veg að við fáum að kjósa um það hver fer með framkvæmdavaldið.  Aðeins þannig verður aftur hægt að koma á virkri þrískiptingu valds á Íslandi, einhverju sem líklega hefur aldrei verið almennilega virkt í raun.  Þrískipting valds á ekki að fela í sér skiptingu á milli þriggja stjórnmálaflokka.

Ekki að ein bloggfærsla muni breyta stjórnarskránni, en nú er komið að róttækri endurskoðun á mörgu á Íslandi.


Fötlun er hugarástand


Hahahahahahaha


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband