Föstudagur, 17. október 2008
Fótosjopp?
Á dögum háþróaðrar myndvinnslu er fyrsta hugsunin við að sjá mynd eins og þessa til hliðar að þetta hljóti að vera falsað.
Ef myndin er borin saman við hina myndina má sjá að myndefnið er hið sama en sjónarhornið örlítið breytt. Því hlýtur myndin að vera sönn.
Fyrir þá sem enn eru í vafa geta þeir horft á síðustu sekúndurnar af þriðju umferð kappræðna forsetaframbjóðendanna. Ég varði hálfu kvöldi í að fylgjast með þessu og get vottað að þessi mynd er nokkuð lýsandi fyrir hversu gáfulegt það var sem McCain hafði að segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. október 2008
Framlag Íslands til alþjóðamáls
Þessi grein hér í The Economist sem bent hefur verið á um íslensku kreppuna er skuggaleg, þó þar komi ekki margt fram sem við ekki vissum fyrir.
Það ískyggilega við greinina er að þarna má vera að lagður hafi verið grunnur að því að íslenska orðið "kreppa" festist í sessi meðal annarra þjóða, líkt og orðið "tsunami" úr japönsku. Veit ekki alveg hversu ánægð íslenska þjóðin á að vera með þessa landkynningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. október 2008
Ný tegund uppistands
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. október 2008
Palin as president!
Það er þó smá huggun þessa dagana þegar fjármál Íslands eru farin fjandans til að skynsemin virðist ætla að ráða hér í forsetakjörinu í BNA. Ég hef fylgst náið með baráttunni og nú er ég orðinn sannfærður um að Obana og Biden séu búnir að vinna þetta, engin leið er til að gamli stríðsfasistinn og alaskaöfgatrúarkonan náið að vinna upp forskotið.
Samt enn hægt að hlæja að þessu.
Fyrir þá sem enn vilja hafa áhyggjur af heimsmálunum held ég samt að fyrsta kjörtímabil Obama verði gríðarlega erfitt, enda löngu sannað að bandaríkjamenn kjósa alltaf eftir gengi hlutabréfanna. Palin gæti því hæglega komið aftur eftir 4 ár með sína stórhættulegu heimsmynd og náð völdum.
Best að velta sér upp úr þeim áhyggjum næstu árin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. október 2008
Fjármálakreppan er algert smáatriði
Nú virðist líklega stærsta fjármálakreppa sögunnar vera að skekja markaði heimsins. Hlutabréf, bankar og jafnvel heilar örþjóðir á við Íslendinga eru að falla.
Ef heildarmyndin er skoðuð er þetta vandamál því miður bara smvægilegt aukaatriði. Raunverulegt tap þessa dagana er margfalt verra þó það sé áætlað að á mörkuðum hafi tapast um um 1.0-1.5 trilljónir bandaríkjadala undanfarna mánuði sem hljómar amk sem há upphæð.
Þeir sem hafa farið út í að reikna út hversu mikið tapið hefur verið árlega úr lífeyrissjóði framtíðar okkar allra hafa komist að þeirri niðurstöðu að jarðarbúar séu að tapa að lágmarki 2-5 trilljónir bandaríkjadala á hverju ári. Hér er ekki átt við pappírseignir í peningum og hlutabréfum, heldur raunverulegt verðmæti náttúruauðlinda jarðarbúa.
Eitt af því sem ég er hræddastur við varðandi kreppuna á Íslandi er að það verði teknar ákvarðanir í örvæntingu sem skaði land og þjóð til lengri tíma. Ef eitthvað er þarf að standa vörð um allar eigur okkar í kreppunni og sjá til þess að þeim sé ekki fórnað, hvorki lífeyrissjóðum erlendis né náttúrinni sem framtíð Íslendinga mun byggjast á.
Þó peningarleg kreppa sé sannarlega óþægileg er hún bara smávægilegt kitl samanborið við þær hörmungar sem hrun náttúrunnar hefði í för með sér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. október 2008
Land hinna frjálsu?
Horfið aðeins á þessa stuttu auglýsingu:
Virðist ekki svo slæmt er það? Ekkert þarna sem virðist ekki augljósar staðreyndir. Þessi auglýsing kemur frá grasrótarsamtökunum We Can Solve It sem sannarlega eru að reyna að bregðast við stærsta vanda sem mannkynið hefur staðið fram fyrir.
Þrátt fyrir það fékkst hún ekki birt í sjónvarpi. ABC sjónvarpsstöðin þorði greinilega ekki að styggja stóru olíufyrirtækin. Enn og aftur, í BNA er ekki frelsi og lýðræði með sama hætti og þekkist í Evrópu, Hér er það mun meira auðræði, að fjármagnið ræður öllu og það sést hér hvernig það vinnur gegn hagsmunum allra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9. október 2008
Hamfarahegðun
Starfandi við bráðalækningar þykir mér hegðun fólks á hamfaratímum alltaf áhugaverð og því miður er erfitt að lýsa því sem nú gengur yfir fjármálalíf íslensku þjóðarinnar öðruvísi en hamfaratímum. Vissulega eru talsverð óveðursský einnig á lofti hér í BNA og víðar um heiminn en hvergi er staðan líklega jafn alvarleg og á Íslandi.
Um allan heim mun efnahagskreppa bankanna bitna á almenningi en á Íslandi líklega mun meir. Þar að auki er gengið er hrunið og skuldir íslenskra heimila eru meiri en í nokkru öðru landi og því minna fjárhagslegt svigrúm til að takast á við vandann. Til viðbótar virðast Íslendingar einnig kenna nokkrum einstaklingum um að hafa átt drjúgan þátt í að skapa þá stöðu sem upp er komin, líklegast með réttu. Þetta síðasta atriði held ég að muni gera öllum erfiðara að takast á við erfiðleikana.
Þær fjárhagslegu hamfarir sem hér eru að eiga sér stað gætu á endanum jafnast á við að gjörvallt höfuðborgarsvæðið hafi farið undir hraun. Efnahagskreppan sem nú er skollin á gæti hins vegar haft margfalt verri afleiðingar fyrir þjóðfélagið og þjóðarsálina heldur en náttúruhamfarir, því reiðin út í hina meintu sökudólga er þrúgandi baggi á þjóðinni. Við náttúruhamfarir er ekki við neinn að sakast, ekki þýðir að fást við náttúrulögmálin. Við slíkar aðstæður er ekki annað að gera en að sameinast í að takast á við vandann og það myndi þjóðin gera samhent og fá til þess ríkulega aðstoð ríkja heims.
Í staðinn heyrist mér að reiði, tortryggni, depurð, ótti og vonleysi séu frekar orð sem lýsi ástandinu á Íslandi í dag.
En hvernig á fólk að bregðast við?
Ég ætla að setja mig í læknisstellingarnar og koma á framfæri nokkrum einföldum atriðum. Eins og alltaf þarf fólk ávallt að hugsa á einhvern hátt fyrst um sjálfan sig. Einungis með þeim hætti er hægt að eiga orku afgangs til að takast á við erfiðleikana. Ef allir missa svefn, hætta að borða, hætta að hreyfa sig vinda öll vandamál bara upp á sig. Sagan segir að auðvelt sé að flýja málin í skemmtanalífið, en mér heyrðist á lögreglunni eftir síðustu helgi að það hafi ekki verið gæfulegt. Ég er feginn að þurfa ekki að vinna næturvaktir á slysa- og bráðadeild LSH þessa helgina þar sem eflaust mun koma í stríðum straumum einstaklingar með sorlegar afleiðingar ástandsins. Kokteillinn vodka+áhyggjur+örvænting+reiði fer afar illa í samfélagið og leiðir til hrikalegs vinnuálags á slysadeildinni. Margir þurfa því að fást við líkamlega áverka til viðbótar við aðra erfiðleika.
Fólk þarf að styðja hvert annað, setjast niður og tala um málin, bjóða í mat, fara í fjallgöngur, aðeins reyna að anda djúpt.
Svo eru það börnin, ef einhvern tíma er ástæða fyrir þá sem eiga stálpaða krakka til að setjast niður og tala um málið þá er það nú. Börn þurfa á þessari taktík hér að halda.
Jákvæðu hliðarnar eru þó að við erum ekki að fást við neitt líkt því og í þeirri mynd. Gæti verið verra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. október 2008
Hið ljúfa líf
AIG - American International Group tryggingarfélagið fór á hliðina og þurftu bandarískir skattgreiðendur að punga út 86 milljörðum USD vegna þess. Þetta gerðist þann 16. september. Dagana 22.-30. sept fóru hins vegar nokkrir af yfirstjórnendum AIG í smá upplyftingarferð hingað eftir erfiða tíma.
Reikninginn má sjá hér til hliðar, samtals upp á tæpa hálfa milljón bandaríkjadala og hann endar hjá skattgreiðendum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 7. október 2008
Meira svona - mætti jafnvel vera gamaldags gapastokkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 6. október 2008
Lehman bræður á beininu
Ég rambaði inn á CNN í dag þar sem verið var að sýna beint frá yfirheyrslum þingnefndar yfir forráðamönnum Lehman bræðranna. Þar var ekki verið að beita neinum silkihönskum.
Spurningarnar voru á borð vioð:
"Nú höfum við hér tölvupóst frá þér frá 9. júní þar sem þú sagðir allt vera í himnalagi. Varstu að ljúga?"
"Fór bankinn og glannalega í útlánum, já eða nei?"
"Það liggur fyrir að á sama tíma og bankinn rambaði á gjaldþroti voruð þið að greiða 10 milljarða dollara í bónusa til yfirstjórnenda. Hvað voruð þið að spá?"
Mikið ætla ég að vona að við sjáum sambærilegar útsendingar á RUV innan skamms.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)