Færsluflokkur: Bloggar

Losnað við auglýsingar

Ég er farinn að fylgja venju afa míns og taka hljóðið af auglýsingum í sjónvarpinu, enda fátt hvimleiðara í nútímanum en auglýsingar.

Í Sao Paulo í Brasilíu er verið að ganga talsvert lengra, þar á að útrýma öllum auglýsingaskiltum úr borginni.  Auglýsendur ekki ánægðir, en íbúarnir þeim mun glaðari. 

Þetta minnir mig á fyndið rifrildi sem ég man eftir frá því fyrir mörgum árum þegar hóteleigandi úti á landi var að berjast fyrir því að fá að hafa skilti við þjóðveginn til að auglýsa hótelið.  Vegagerðin vildi ekki leyfa, enda draga auglýsingar við þjóðveginn óhjákvæmilega athygli frá akstrinum og auka slysahættu.

Ég hugsa oft til þessarar sögu þegar ég ek framhjá blikkandi risaauglýsingaskjánum við hættulegustu gatnamót landsins, Kringlumýra- og Miklubrautar.


FæðingarHJÁLP

centrifugeÝmsar misgáfulegar hugmyndir hafa verið prófaðar innan læknisfræðinnar.  Ég hélt samt alltaf að hugmyndin um að nota stóra þeytivindu til að hjálpa konu við að koma barni í heiminn væri bara lélegur brandari en það virðist hafa verið farið lengra með þessa hugmynd.

Árið 1963 var lögð fram umsókn um einkaleyfi á fæðingarþeytivindu af Blonsky hjónunum.  Óla átti konuna niður á bekk og snúa bekknum síðan nægilega hratt til að þrýsta krakkanum út.  Net sem strengt var milli fóta konunnar átti síðan að sjá um að grípa krakkann svo hann þeyttist ekki út í næsta vegg. 

Það lýsir vel tíðarandanum og þeirri firringu sem á köflum hefur einkennt ákveðna anga heilbrigðiskerfisins að lesa rökstuðning hjónanna á því að konur þyrftu að nota slíkt tæki: 

In their patent application, Blonsky and Blonsky explained the need: "In the case of a woman who has a fully developed muscular system and has had ample physical exertion all through the pregnancy, as is common with all more primitive peoples, nature provides all the necessary equipment and power to have a normal and quick delivery. This is not the case, however, with more civilised women, who often do not have the opportunity to develop the muscles needed in confinement."

Therefore, wrote Blonsky and Blonsky, they would provide "an apparatus which will assist the under-equipped woman by creating a gentle, evenly distributed, properly directed, precision-controlled force, that acts in unison with and supplements her own efforts". The Blonskys explained: "The foetus needs the application of considerable propelling force." They knew how to supply that propelling force.

Sem sagt, frumstæðar konur eru nægilega sterkar til að ala börn, siðmenntaðar konur eru of veikburða og ófærar um að þrýsta barni sjálfar í heiminn þannig að börnum þeirra þarf að þeyta út samkvæmt áliti þeirra hjóna.  Þetta verður víst að teljast skýrt dæmi um hvernig verkfræðileg hugsun hentar ekki alltaf sérlega vel þegar kemur að læknisfræðilegum ákvörðunum.

Ekki fylgir sögunni hvort frú Blonsky eða nokkur önnur kona notaði græjuna. 


Hótel Jörð 2007

pollution_eurasiaAllir þekkja sígilt kvæði Tómasar um Hótel Jörð, enda líking jarðarinnar við hótel er einföld og skýr. 

Á öllum hótelum eru brunavarnarkerfi.   Eftir áralanga vinnu á vettvangi með okkar frábæra Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins þekki ég vel hvað gert er þegar eldboð berst frá slíkum kerfum í stórum byggingum -  ef ekki nema vaknar grunur um eld er strax brugðist harkalega við, hótelið rýmt og allt tiltækt björgunarlið kallað á vettvang.  Ef eldur finnst er hann slökktur strax.    Hótelið og íbúar þess nýtur vafans.

Ef heimfæra ætti ástand Hótel Jarðar á nútímann er ástandið orðið þannig í dag að mörg herbergi eru þegar brunnin til kaldra kola í mengun.  Nokkrar hæðir eru reykfylltar og á öllum hæðum koma brunaboð frá einhverjum reykskynjurum.  Mengun, fjöldaútrýming dýra og plöntutegunda, eyðilegging regnskóga, þurraustur á námum og gróðurhúsaáhrif, öll þessi vandamál hafa náð þvílíku umfangi að samkvæmt mælingum er mögulegt að okkar góða hótel verði rústir einar eftir nokkra áratugi - sekúndur í lífi jarðarinnar.  Keppnin um að koma sér að og krækja sér í nógu þægilegt sæti er að eyðileggja hótelið.

Samt eru þeir til sem berja höfðinu við stein.  Fólk eins og þessi, þessi og þessi halda því fram að fyrst til séu enn nemar sem ekki verða varir við reyk þá hljóti allt að vara í góðu lagi.  Ef mögulegt er að ekki berist eldboð frá einhverjum af reykskynjurunum sé bara fráleitt að raska ró hótelgesta.  Ekkert vesen, enda gæti einnig hugsanlega verið um tæknileg mistök í reykskynjara að ræða.  Iðnaðurinn á að njóta vafans.  Svona viljum við hafa það.  Þeir vilja sofa rólegir í brennandi hótelinu og vilja að við öll hin gerum það líka.

Því miður er ekki um aðra gististaði að ræða.

Á morgun gefst Hafnfirðingum einstakt tækifæri til að hafna mengandi stóriðju í sínu bæjarfélagi og hægja á þessari þróun.  Ég vona að þeir kjósi með hag jarðarinnar í huga.


mbl.is Taugatitringur fyrir álverskosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

You´ll never walk alone

You´ll never walk alone

_40637914_footballcoffin203 Að einu leyti er ég líklega aðeins óvenjulegur maður - ég held nefnilega ekki með neinu fótboltaliði.  Fyrir kom á uppvaxtarárunum að ég velti fyrir mér hvort ég ætti ekki að halda með einu slíku, en eiginlega skildi ég aldrei af hverju ég ætti frekar að halda með þessu eða hinu liðinu.  Skildi bara ekki af hverju það gæti varðað mig hvort ungir menn frá þessari eða hinni borginni í Bretlandi sendu bolta oftar í eitthvað net.  Ég næ alveg ánægjunni við að horfa á snilldar íþróttir en þessu með að velja sér lið skil ég enn ekkert í.   

Tenging manna við fótboltalið virðist hins vegar stundum ævintýralega sterk hjá þeim sem ánetjast.  Menn fara að skilgreina sig út frá liðinu, merkja sig í bak og fyrir, bílinn sinn, börnin og jafn vel líkkistuna. Nú þegar farið er að líta á íþróttafélög sem fyrirtæki sem eru m.a. rekin í hagnaðarskyni er farið að spila skipulega á þessa þörf, eins og sjá má í slagorðinu ”You´ll never walk alone”.

Vonandi móðga ég engan þó ég velti aðeins fyrir mér hvaðan þessi þörf kemur, að skilgreina sig sem hluta af einhverjum stórum hópi.  Þetta virðist liggja djúpt í mannlegu eðli, enda allir tengdir einhverjum hópi hvort sem það er íþróttafélag, stjórnmálaflokkur, bræðralagsregla, saumaklúbbur eða þjóð.  Oft verða síðan deilur milli þessara hópa hvort sem það eru áflog milli fylgismanna íþróttaklúbba eða stríð þjóða.Kannski þetta sé óbreytanlegur þáttur í mannlegu eðli og það geri heiminn friðsælli ef menn geta fengið útrás í áhorfendastúku fótboltans.  Það má hins vegar einnig vera, að það sé lærð hegðun að fara í átök við aðra hópa, þannig að uppeldi íþróttanna leiði óbeint til aukins ofbeldis.  Ekki veit ég svarið við þessum spurningum.

Það merkilega við stuðningsmenn íþróttafélags hefur mér stundum fundist að sumir þeirra hafa tilhneigingu til þess að tengjast stjórnmálaflokknum sínum á sama hátt og íþróttafélaginu.  Þeir styðja bara sitt fólk í baráttunni býsna skilyrðislaust. 

Nýlegt dæmi um þetta gæti verið álit einhverra á málskotsrétti forseta.  Þó ég sé ekki stjórnmálafræðingur var það tilfinning mín að flestir hér á landi hafi hér á árum áður verið á þeirri skoðun að málskotsréttur forseta væri í gildi og væri skynsamlegur, enda kennt um hann í skólum.  Eftir að málskotsréttinum var síðan beitt hafa skoðanir manna á þessu afmarkaða stjórnsýslutæknilega atriði skipst mjög eftir flokkslínum.  Þeir, sem hafa litið á forsetann sem hluta af hinu liðinu í stjórnmálum, virðast margir ákveðnir um að málskotsréttinn þurfi að afnema, þrátt fyrir að þetta atriði sé svo afmarkað að vart sé hægt að búast við að afstaða manna til þess fylgi skoðunum manna til hægri eða vinstri.  Eru einhverjir að fylgja hópnum sínum án þess að taka málefnalega afstöðu sjálfir?  Upplifðu menn að málskotsréttinum hefði verið beitt gegn ”sínum mönnum” og voru því allt í einu á móti réttinum?

Tryggð manna við fótboltafélögin er yfirleitt ævilöng og menn skipta sjaldan um skoðun.  Það sama virðist merkilega oft eiga við um stjórnmálin.  Þó stjórnmálaflokkarnir skipti út fólki í framboði og verulegar breytingar geti orðið á málefnum flokkanna virðast margir aldrei skipta um flokk sem þeir kjósa. 

Getur verið að hjá einhverjum séu sömu heilastöðvar að verki þegar kemur að því að styðja sína menn, hvort sem um er að ræða stjórnmál eða fótbolta?  



Blár-Rauður, Grár-Grænn

Stjórnmálamenn allra flokka held ég að séu í raun sammála um markmið - þeir stefna allir að betra þjóðfélagi og auknum lífsgæðum.  Eina sem greinir skoðanir þeirra í sundur eru leiðirnar að þessu sameiginlega markmiði.

Af öllum þeim óteljandi málum sem þarf að taka afstöðu til í þjóðfélaginu skiptast stjórnmálaflokkarnir yfirleitt til hægri eða vinstri, allt eftir því hversu langt á að ganga í samtryggingu og samneyslu.  Þó enn sé verið að rífast eitthvað um hvar þessi mörk eigi að liggja er þetta atriði ekki lengur helsta átakalínan í stjórnmálum.  Flestir virðast vera að hallast að því að farsælast sé að einkaaðilar sjái um að byggja upp öflugt atvinnulíf en að ríkið sjái um að tryggja lágmarksöryggi og samtryggingarnet.  Að minnsta kosti er erfitt að deila um í hvaða samfélögum lífsgæði almennings eru best og draga þann lærdóm að þjóðfélagsskipulagið þar hljóti að vera skynsamlegt.

Helstu deilumálin í nú virðast snúast um hvort menn séu gráir eða grænir, það er, hversu langt menn vilja ganga í að nýta náttúruna í þágu iðnaðarins eða setja takmarkandi reglur á atvinnulíf og einstaklinga til að vernda náttúruna. 

Í raun finnst mér vera hægt að nálgast þessi mál með því að setja upp forgangsröðunarlista sem hafa ég myndi vilja sjá að væri höfð til hliðsjónar við ákvarðanir sem varða okkur öll:

1. Náttúran

2. Mannlífið

3. Hagkerfið

Náttúra jarðarinnar er undirstaða alls lífs, ekki bara okkar heldur allra þeirra kynslóða sem vonandi eiga eftir að búa á jörðinni eftir okkar dag.  Við höfum engan rétt til þess að skila jörðinni í verra ástandi en við tókum við henni og því á hagur náttúrunnar að skipta okkur mestu máli við allar ákvarðanir sem teknar eru.  Lífríki jarðarinnar er alltaf mikilvægara heldur en stundarhagsmunir okkar hvað varðar hagvöxt næsta kjörtímabil.

Hjá mörgum virðist þessi forgangsröðun öfug; aukinn hagvöxtur séður sem æðsta takmark hvers þjóðfélags og þar á eftir kemur almannahagur.  Náttúran er síðan bara afgangsstærð, enn eru ótrúlega margir sem ekki geta hugsað til þess að þrengja hag atvinnulífsins til að vernda náttúruna. 

Þeir bara átta sig ekki á því hvaða afleiðingar gjaldþrot náttúrunnar mun hafa.

 

http://wulffmorgenthaler.com/

evianfiskur



Lágmarks lágtækniþjónusta á hátæknisjúkrahúsi

Af einhverjum ástæðum hefur umræðan í þjóðfélaginu um byggingu á nýju húsnæði fyrir Landspítala Háskólasjúkrahús farið í undarlegan farveg.  Iðulega er orðið hátæknisjúkrahús notað þegar málið er rætt og í framhaldi af því hefur umræðan þróast í að fjalla um hvort þjóðin þurfi yfir höfuð meiri hátæknilækningar, hvort ekki sé betra að verja fjármunum í að bæta grunnþjónustu.  Málið snýst hins vegar ekki um það.

 

Margt af þeirri þjónustu við sjúklinga sem fram fer á LSH byggir vissulega á háþróaðri tækni.  Til að hátæknileg læknisfræði skili árangri þarf hins vegar að skapa sjúklingnum tækifæri til að ná heilsu aftur með því að tryggja svefnfrið á næturna, næringarríkan mat og vandaða umönnun. 

Háþróuð læknisfræði er einnig stunduð víða utan veggja LSH.  Umræðan um hvort hún sé æskileg eða hvort leggja skuli áherslu á grunnþjónustu er áhugaverð, en hún á ekkert erindi inn í umræðuna um byggingu nýs húsnæðis fyrir starfsemi LSH.  Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að tryggja rekstur hjúkrunarheimila, heimahlynningar og heilsugæslu, en það á ekki að þurfa að koma í veg fyrir að staðið sé þolanlega að því að sinna slösuðum og bráðveikum. 

Mér vitanlega stendur ekki til að bæta við nokkurri nýrri hátækniþjónustu í hinni nýju byggingu, hins vegar á að stórbæta aðstöðu sjúklinga og aðstandenda.  Útrýma á gangainnlögnum og koma á þeirri sjálfsögðu reglu að veikir enstaklingar vistist á einbýli.  Til stendur að fjárfesta í byggingu sem mun gera kleift að færa alla starfsemina á einn stað, en með því verður hægt að auka verulega hagkvæmni í rekstri sjúkrahússins og spara stórfé til lengri tíma.

 

Íslenska þjóðin býr almennt í ágætu húsnæði.  Þegar Íslendingar ferðast láta þeir ekki bjóða sér að búa á hótelherbergi með þremur ókunnugum, hvað þá að sofa dögum saman í rúmi á gangi hótelsins.  Við öll sem búum í þessu landi þurfum hins vegar að liggja á  stofu með öðrum sjúklingum eða frammi á gangi ef það á fyrir okkur að liggja að lærbrotna eða fá lungnabólgu.  Sjálfur vil ég ekki búa við slíkt ástand.

Má ég biðja þá sem leggjast gegn byggingu á nýju húsnæði fyrir LSH að prófa að reyna að sofa eina nótt á gangi sjúkrahússins.  Sjáum hvort þeir skipti um skoðun. 


Þarf að auka áfengisvandamálið á Íslandi?

Absolut-On%20IceNú er í þriðja skipti verið að ræða frumvarp á alþingi um að leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunun.   Þráhyggja þeirra sem leggja frumvarpið fram virðist benda til þess að þetta sé þeirra mati eitthvert mikilvægasta mál samtímans og að þetta bara verði að fást í gegn.

Vissulega er óhagræði af því að þurfa að fara í ríkið til kaupa sér áfengi og sannarlega mun þessi breyting, ef málið fer í gegn, bara verða til að auka þægindi flestra við áfengisinnkaup.  Áfengi er hins vegar ekki venjuleg neysluvara.

Áfengi veldur tugum dauðfalla á Íslandi á hverju ári.  Tugþúsundir einstaklinga verða fyrir skaðlegum áhrifum af völdum áfengis í formi heimilisofbeldi, lifrarskemmda, bílslysa, þunglyndi, sjálfsvíga, illri meðferð á börnum og fleira og fleira.  Ef einhver lifir í svo vernduðum heimi að hann hefur ekki sjálfur orðið vitni af þessum hamförum vil ég benda fólki á að líta í heimsókn á biðstofu slysa- og bráðadeildar LSH að næturlagi um helgar. 

Vissulega eru til ákveðin rök um frelsi einstaklingsins til að kaupa sér áfengi þar sem honum hentar, notuð eru ljót orð eins og forræðishyggja þegar rætt er um vilja til að takmarka aðgengi að áfengi.  Þessi mál verður hins vegar alltaf að skoða í samhengi allra þátta. 

Það er hafið yfir allan vafa að áfengisvandamál munu aukast ef sala á áfengi verður leyfð í matvöruverslunum.  Þetta var gert í Finnlandi fyrir nokkrum árum með skelfilegum afleiðingum.  Alltaf munu einhverjir, kannski 10-20%, vera með tilhneigingu til áfengisfíknar í sér og úr þeim hópi munu án nokkurs vafa fleiri fara að drekka skaðlega.  Fleiri munu slasa eða drepa sjálfan sig og aðra, fleiri munu nefbrotna í áflogum, fleiri börn munu alast upp við áfengisvandamál foreldra.  Er það virkilega það sem við viljum?  Ábyrgð þeirra sem sitja á þingi er mikil, ætla þeir að taka ábyrgð á því að auka á þessi vandamál í þjóðfélaginu?

Meira að segja í samfélögum þar sem frelsi einstaklingsins gengur hvað lengst eins og í BNA er í mörgum fylkjum ekki leyft að selja áfengi í matvöruverslunum, þar þarf að fara í sérstakar áfengisbúðir.  Þar er skilningur á því hversu geigvænlegum skaða áfengi getur valdið og að því þurfi að takmarka aðgengið, þó það gangi gegn frelsi einstaklingsins.

Sjálfur tel ég mig ekki eiga við áfengisvandamál að stríða og hef litlar áhyggjur af því að neysla mín á áfengi verði til vandræða, þó það verði selt í matvöruverslunum.  Samt vil mjög eindregið viðhalda núverandi kerfi, að aðgengi að áfengi sé takmarkað með einföldum hætti og að ríkið innheimti háa skatta af áfenginu til að fjármagna m.a. heilbrigðiskerfi og skóla.  Út frá mínum eigin persónulegu hagsmunum, þó það sé ekki til annars en að auka ekki á álagið á næturvöktum á slysadeildinni.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband