Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 28. júní 2007
Nýtt land
Ég mæli ekki með því að eiga viðskipti við bandaríska tollinn. Vegna flutnings okkar hingað vestur þurfti, eins og við var að búast, að fá gáminn með búslóðinni tollskoðaðan. Þar sem við vissum að Department of Homeland and Security væri frekar smásmuguleg stofnun lögðum við okkur fram um að fylga í einu og öllu lögum og reglum um hvað mætti taka með og fylla út allar skýrslur fullkomlega.
Látum vera að þeir hafi séð ástæðu til að skoða innihald gámsins rækilega, þó þeir hafi að sjálfsögðu ekki fundið neitt athugavert. Einnig kom svo sem ekkert á óvart að þeir virðast hafa gert meira af því að henda en raða öllu inn aftur, við máttum svo sem búast við því að talsvert væri rispað og skítugt og eitthvað brotið.
En, að þeim tækist að týna þó nokkrum stórum hlutum af búslóðinni er ótrúlegur árangur í lélegum vinnubrögðum. Tollurinn hefur bara óvart raðað einhverju af okkar hlutum yfir í einhvern annan gám og satt að segja virðist þeim vera nokkuð sama. Allt þetta er einstaklega hálfvitalegt í ljósi þess að borga þarf 800 USD gjald fyrir að láta tollskoða búslóðagám.
Fávitar.
Endalaust er svo sem hægt að halda áfram að ræða um það sem er að í amersíku þjóðfélagi, eflaust á ég eftir að fá útrás fyrir fleiri atriði en ofangreint hér á þessari síðu.
Ég ætla samt að byrja fyrstu bloggfærsluna mína héðan frá Virginíufylki með jákvæðari innleggi því eitt af því fyrsta sem við rákumst á hér var hópur af rússneskum sjóliðum að spóka sig í Kringlunni hér í borg.
Þetta var svo sem enginn stórviðburður, en þessi sjón var samt ágæt áminning um hversu breytilegur heimurinn geti verið - hver hefði trúað því fyrir 20 árum að hermenn frá Rússlandi myndu kíkja í heimsókn í ameríska stórborg
Heimurinn getur greinilega batnað - hvernig verður staðan eftir önnur 20 ár?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 8. júní 2007
Gúggl
Skv áhugaverðri grein í Time fara um 65% allra netleita í gegnum Google. Engin sérstök frétt það.
Heldur sérkennilegra er að 17 af 20 algengustu leitum á Google eru leitir að öðrum fjölsóttum síðum s.s. amazon, mapquest, yahoo eða ebay. Af einhverjum ástæðum fer fólk fyrst inn á google.com og leitar sig inn á þessar síður, í staðinn fyrir að slá inn ebay.com.
Furðulegast er samt að 14. algengasta leitin á Google er "google".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. júní 2007
Frábær forræðishyggja
Meðal frjálshyggjujarmara er hin heilaga mantra að lausn allra vandamála felist frelsi einstaklingsins. Menn sjá rautt (bókstaflega) yfir öllum hugmyndum sem fela í sér að þjóðfélagið taki ákvarðanir fyrir fólk um hvað því sé fyrir bestu.
Ég var að velta fyrir mér í þessu samhengi þá gríðarlegu forræðishyggju sem felst í því lífeyrissjóðskerfi sem komið hefur verið á hér á landi. Í BNA eru menn nokkuð frjálsir til að leggja fyrir að vild, en ef einhver vill lifa hratt og deyja ungur án nokkurs sparnaðar hefur hann fullt frelsi til þess. Hér á landi er kerfið allt annað, stjórnvöld hafa tekið þá skynsamlegu ákvörðun að skylda beri alla til þess að leggja ákveðið hlutfall launa sinna í lífeyrissjóð til þess að tryggja að allir eigi rétt á viðunandi ellilífeyri.
Hér er ekki um mikið val að ræða, ríkið tekur völdin af einstaklingunum og ákveður fyrir þá að svona sé skynsamlegt að gera.
Sjálfur hef ég einstaklega lítinn áhuga á fjármálum, því er ég mjög ánægður með að einstaklingar sem hafa meiri þekkingu á málaflokknum sjái um að koma á einhverjum skipulögðum lífeyrissparnaði. Á þessu sviði eru líklega flestir á því að forræðishyggjan sé til góðs. Það sama á við um bólusetningar, viðhald á bílnum, öryggismál í flugi og óteljandi önnur mál sem stjórnvöld í flóknu nútímasamfélagi ákveða fyrir okkur.
Forræðishyggja er ljótt orð og því miður ofnotað. Allir hafa þörf fyrir að láta hafa vit fyrir sér á einhverjum sviðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. júní 2007
Hvað borða jarðarbúar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. júní 2007
Er sameiginleg forsjá best fyrir barnið?
Á síðustu árum virðist sameiginleg forsjá hafa orðið að meginreglunni en ég sé ekki upplýsingar um hvernig búsetu þessara barna er háttað. Þó ég hafi sjálfur enga reynslu af þessum málum finnst mér samt eins og þetta þurfi að skoða aðeins betur.
Vissulega er eðlilegt að báðir foreldrar hafi jafn mikið um uppeldi barnanna að segja og því er sameiginleg forsjá etv eðlilegt fyrirkomulag. Einnig skil ég vel að báðir vilji hafa börnin sem mest hjá sér og því virðist vera orðið algengt að foreldrarnir hafi barnið hjá sér viku í senn til skiptis.
Ég er samt aðeins hugsi yfir því hvað sé best fyrir börnin. Veit einhver hvort það hafi verið skoðað hvernig börnum farnast sem búa jafnt á tveimur stöðum? Er betra fyrir barnið að eiga tvö heimili og skipta uppvaxtarárunum jafnt þar á milli eða er etv betra fyrir barnið að búa hjá öðru foreldrinu en fara í heimsóknir um aðra hverja helgi til hins foreldrisins?
![]() |
498 hjón skildu og 577 pör slitu sambúð á síðasta ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 3. júní 2007
Yes men
Fyrir nokkru kynntist ég merku starfi Yes mannanna. Þeir hafa verið að berjast fyrir bættum heimi og ganga lengra en að fá útrás á blogginu. Kjarninn í þeirra starfi er að vinna gegn alþjóðavæðingu viðskipta sem þeir benda á að sé alls ekki heiminum til bóta. Upphafi að starfinu var síðan http://gatt.org/ og þar hafa þeir komist inn á ráðstefnur á vegum GATT/WTO og náð að skjóta þungum skotum. Einna lengst náðu þeir með fréttatilkynningum og blaðamannafundum þar sem WTO lýsti því yfir að þeir hefðu komist að því að allt starf þeirra hafi skaðað samfélag þjóðanna og því hafi WTO ákveðið að hætta starfsemi. Tilkynningin komst á flug og var fjallað um hana í fjölmiðlum víða um heim.
Fulla heimildarmynd má finna á netinu hér, fyrir þá sem vilja verja kvöldinu í að horfa á eitthvað uppbyggilegt og skemmtilegt og etv sjá nýjar leiðir til að koma skoðunum sínum á framfæri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 3. júní 2007
Nýtt líf
Þjóðinni virðist hafa verið skipt í tvennt síðustu dagana, þeir sem fóru að djamma á fimmtudaginn og þeir sem fögnuðu á föstudaginn. Til að sýna samstöðu með þessu gríðalegu framfaraskrefi fórum við félagarnir góðan rúnt, föstudagsspurningakeppnin á Grandrokk var upphafspunkturinn og svo endað á góðum Ölstofurúnti. Á báðum stöðum var ekki annað að sjá en stemmningin væri með líflegra móti, enda þrátt fyrir allt 80% fólks reyklaust.
Reykingabannið er amk komið til að vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 31. maí 2007
Allir á Ölstofuna
Aumingja Kormákur. Þessi annars ágæti maður virðist vera að misreikna stöðuna illilega. Sjálfur hef ég varla komið inn á Ölstofuna hans árum saman, m.a. vegna þess hversu erfitt reynist oft að sjá bjórglasið á borðinu í gegnum reykjarkófið.
Fjölmennum á Ölstofuna um helgina og rekum þetta bull ofan í manninn.
![]() |
Reykingabann á skemmtistöðum gæti skilið milli feigs og ófeigs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 31. maí 2007
Kaffi Hljómalind
Í allri fjármálageiravæðingunni sem gengur yfir Ísland þessi árin er mér farið að líða alltaf betur og betur á þeim stöðum sem ekki eru á þeirri línu. Handan götunnar við heimilið er snilldarbúllan Kaffi Hljómalind sem er vægast sagt ólíkt flestum öðrum kaffihúsum landsins. Staðurinn er rekinn sem samyrkjubú, allar innréttingar eru eldri endurnýttir hlutir og allar veitingar eru lífrænt ræktaðar. Á fríu bókasafni er hægt að fá lánaðar bækur og nettengingin er ágæt.
Eftir óteljandi ferðir á Kaffitárið í vetur er amk ágætt að breyta til.
Það sorglega er hins vegar að mér skilst á starfsfólkinu hér að til standi að rífa staðinn í haust og að þá verði hinn magnaði skemmtistaður Sirkus látinn fjúka um leið. Eflaust einhver grætt eitthvað á því að byggja dautt venjulegt verslunarhúsnæði á reitnum en mér finnst að Reykjavík verði stórum fátækari ef af þessu verður.
Eftir að hafa búið á móti Sirkusnum í einn vetur kom mér nokkuð á óvart að sjá hvað staðurinn er mikið myndaður. Í augum túristahjarðarinnar sem sífellt er á röltinu um miðbæinn er Sirkus ein af helstu perlum borgarinnar með pálmatrén og lundana. Eflaust kemur að því að Íslendingarnir átti sig á þessu sjálfir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. maí 2007
Ánægja pr 1000 kr
Undanfarin ár hef ég verið að endurskoða peningaeyðslu mína. Eftir að ég fór að reyna að áætla varðandi allar athafnir og eyðslu hversu mikla ánægju ég raunverulega fæ úr hverjum þúsundkalli breytist aðeins forgangsröðunin og í hvað laununum er eytt.
Að borða góðan mat t.d. getur verið nokkuð dýrt en alveg óskaplega gott og því peningum vel varið.
Vel skil ég ánægjuna við að keyra góðan bíl. Vandamálið er bara að slíkt tæki kostar milljónir, yfirleitt þó nokkuð margar milljónir. Ef síðan er borin saman ánægjan af því að keyra 10.000.000 kr bíl og 1.000.000 kr bíl er nokkuð augljóst að ánægja pr þúsundkallinn af þessum 9.000.000 til viðbótar í dýra bílinn er í raun alveg einstaklega lítil, amk ef sama peningi væri varið í mat og drykk.
Ég skora á ykkur að prófa, að reyna að leggja mat á þá ánægju sem fæst fyrir hvern þúsundkall og reyna að stýra neyslunni samkvæmt þeirri vísitölu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)